Styddu íslenskuna okkar

Með hjálp Greynis verður leikur einn
nota óaðfinnanlega íslensku
á vefnum þínum.

Fyrir lága mánaðarlega upphæð - eða ókeypis eftir atvikum - getur þú notað Greyni í vefi eða önnur hugbúnaðarverkefni. Með þínu framlagi færð þú ekki aðeins aðgang að öflugum hugbúnaði heldur styður þú líka við áframhaldandi þróun máltækni fyrir íslensku.

Notkun Greynis er háð hugbúnaðarleyfum eins og hér segir, sbr. nánari skilmála:

Opinn hugbúnaður

Þú mátt nota Greyni frjálst og ókeypis sem hluta af opnum hugbúnaði. Þar er átt við búnað sem er undir GNU GPLv3 eða samhæfðu leyfi.

Athugaðu að MIT, Apache og sambærileg leyfi sem heimila lokaða notkun eru ekki samhæfð GNU GPLv3.

Ókeypis
Einkanot og afnot aðila sem ekki eru reknir í hagnaðar­skyni

Greynir er ókeypis til einkanota í verkefnum og vefjum á vegum og í eigu einstaklinga. Hann er jafnframt ókeypis til afnota í vefjum og kerfum frjálsra félaga­samtaka sem ekki eru rekin í hagnaðar­skyni.

Athugaðu að í þessu leyfi felst ekki réttur til endur­dreifingar Greynis, hvorki í uppruna­legri né breyttri mynd.

Ókeypis
Afnot í smærri vefjum og innanhúss­verkefnum

Undir þetta leyfi falla afnot í vefjum smærri lög­aðila og öðrum litlum vefjum. Jafnframt falla hér undir innan­húss­verkefni lög­aðila, stórra sem smárra.

Nánari skilmála má sjá hér.

Afnot í stærri vefjum og hjá opinberum aðilum

Undir þetta leyfi falla afnot í vefjum og verkefnum stærri lögaðila, þ.e. vefir umfram tiltekin aðsóknar­mörk1) og verkefni aðila af til­tekinni stærð2). Jafnframt falla hér undir opin­berir aðilar, þ.e. ríki, sveitar­félög, opinber hluta­félög o.þ.h.

Nánari skilmála má sjá hér.

1) Með vefjum umfram tiltekin aðsóknarmörk er átt við vefi sem fá a.m.k. 15.000 innlit að meðaltali vikulega.

2) Með stærri lögaðilum er átt við aðila sem er skylt að kjósa sér endurskoðanda skv. 1.–3. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.

Smáa letrið: Hugbúnaðurinn Greynir er höfundarréttarvarin eign (copyright © 2020) Miðeindar ehf., kt. 591213-1480, Fiskislóð 31, rými B/304, 101 Reykjavík, VSK númer 137060, tölvupóstfang mideind@mideind.is.

Greynir er öllum opinn og ókeypis til notkunar undir GNU GPLv3 hugbúnaðarleyfi, sbr. skilmála þess.

GNU GPLv3 leyfið veitir ekki rétt til notkunar í lokuðum hugbúnaðarkerfum eða í vefjum þar sem frumforrit eru ekki með sama eða sambærilegum hætti opin og aðgengileg öllum.

Þrátt fyrir ákvæði GNU GPLv3 leyfisins veitir Miðeind ehf. sérstök tímabundin leyfi til notkunar Greynis í þeim tilvikum sem lýst er á þessari vefsíðu. Slík sérstök leyfi fela í sér afmarkaða undanþágu frá ákvæðum GNU GPLv3 leyfisins eins og hér er nánar lýst, en GNU GPLv3 leyfið gildir að öðru leyti áfram eftir því sem við á.

Með áskrift að sérstöku hugbúnaðarleyfi öðlast leyfishafi úr hendi Miðeindar ehf. rétt til notkunar Greynis í einn almanaksmánuð í senn, sbr. gjaldskrá og þessa skilmála. Gjald fyrir leyfið er innheimt mánaðarlega fyrirfram, uns leyfishafi óskar skriflega eftir því við Miðeind ehf. að segja upp leyfinu og hætta notkun hugbúnaðarins. Áður greidd afnotagjöld eru óafturkræf. Greiði leyfishafi ekki fyrir tiltekinn mánuð fellur leyfið niður við lok þess mánaðar. Er leyfishafa þá skylt að hætta allri notkun Greynis sem leyfið náði til, en vera ella brotlegur við höfundarrétt Miðeindar ehf.

Sérstakt hugbúnaðarleyfi er aðeins veitt þeim lögaðila sem kaupir það eða nýtir í sínu nafni, og er óframseljanlegt. Leyfið veitir ekki heimild til að dreifa Greyni, hvort sem er í óbreyttri eða breyttri mynd, áfram til annarra en leyfishafa sjálfs.

Hvert sérstakt leyfi gildir fyrir öll hugbúnaðarverkefni sem unnin eru og notuð eingöngu innanhúss hjá leyfishafa, og/eða fyrir einn vef í hans eigu. Með einum vef er átt við eitt grunnlén, svo sem xyz.is. Undirlén grunnléna, svo sem www.xyz.is, teljast tilheyra grunnléni. Hyggist leyfishafi nota Greyni á tveimur eða fleiri vefjum í sinni eigu, þ.e. á tveimur eða fleiri grunnlénum, ber honum að kaupa jafnmörg leyfi sem gilda samtímis.

Ef þú óskar eftir að nota Greyni í tilvikum þar sem óljóst er hvort ofangreindir skilmálar eigi við, hvetjum við þig til að hafa samband við Miðeind ehf. (mideind@mideind.is) til að fá nánari útskýringar, eða, eftir atvikum, sérsniðið leyfi.

Miðeind ehf. ábyrgist að verð þegar stofnaðra áskrifta, sem gilt hafa samfleytt, muni ekki hækka umfram hækkun á vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, á hverju 12 mánaða tímabili. Miðeind ehf. áskilur sér rétt til að breyta verði nýrra áskrifta hvenær sem er.

Miðeind ehf. ábyrgist að gera það sem í hennar valdi stendur til að frumforrit Greynis verði áfram aðgengileg þótt fyrirtækið hætti þróun eða útgáfu hugbúnaðarins, þ.m.t. vegna slita, samruna, sölu eða annarra ástæðna.

Áréttað er að sérstök hugbúnaðarleyfi þau sem hér er um fjallað fela ekki í sér frávik frá ákvæðum GNU GPLv3 leyfisins varðandi ábyrgð á virkni hugbúnaðarins eða ábyrgð á afleiddu tjóni, sbr. m.a. 15., 16. og 17. grein GNU GPLv3 leyfisins.

Loka

Sækja sem PDF