Enn talsverð skjálftavirkni á norðurenda kvikugangsins
Ragnar Jón Hrólfsson
2025-04-01 19:16
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Enn er talsverð skjálftavirkni á norðurenda kvikugangsins sem teygir sig um 20 kílómetra. Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, telur annað gos ólíklegt á næstunni.
„Við erum ekki að sjá að það stefni í gos akkúrat núna,“ segir Benedikt sem var gestur í Speglinum í kvöld. Hann útilokar ekki möguleikann á að það taki að gjósa á norðurenda kvikugangsins.
„Eldgosið í dag var ekki stórt en atburðurinn sjálfur var ekki lítill,“ segir Benedikt. „Þetta var talsvert kvikuinnskot og kvikugangur sem myndaðist og að öllum líkindum er stór hluti af kvikunni sem var undir Svartsengi farinn inn í kvikuganginn, alla vega vel yfir helmingur,“ segir Benedikt. Enn vanti þó gögn um rúmmálið.
Benedikt segir að þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember 2023 hafi til dæmis ekki gosið. Samt sem áður hafi jörðin opnast mikið. „Síðan koma endurteknir atburðir og kvika flæðir inn og þá losnar þessi togspenna sem var þarna fyrir og þú ert farinn að ýta á jarðskorpuna og hún er farin að ýta á móti henni.“
„Væntanlega er meiri spenna í jarðskorpunni sem heldur á móti kvikuflæðinu og það er erfiðara fyrir kviku að komast upp á yfirborðið,“ segir hann. Kvikan sem rennur nærri norðurenda kvikugangsins er enn líklega á um fjögurra til fimm kílómetra dýpi og ólíklegt að hún leiti upp á yfirborðið.
Líklega lokakafli eldgosanna
Benedikt telur enn að þetta sé lokakaflinn í eldgosahrinunni á Reykjanesskaga. Þó sé erfitt að fullyrða það á meðan atburðurinn er enn í gangi.
„Ég held að við getum alveg staðið við það að þetta sé lokakaflinn í atburðarásinni, það hefur hægt það mikið á rennslinu síðasta árið en hvort það gæti mögulega verið eitt gos eftir, við getum ekkert sagt um það í miðjum atburði,“ segir hann. Mögulega geti tekið marga mánuði að sjá hvernig atburðarásin þróast.
Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð.
Nafnalisti
- Benedikt Ófeigssonjarðeðlisfræðingur
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 330 eindir í 18 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 18 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,68.