Veiðigjöld gætu tvöfaldast með því að miða við verð á fiskmörkuðum
Brynjólfur Þór Guðmundsson
2025-03-25 15:09
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Ríkisstjórnin ætlar að breyta viðmiðum á aflaverðmæti svo að veiðigjöld endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti, sögðu atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra í dag. Með þeim breytingum hefðu veiðigjöld orðið átján til tuttugu milljarðar í fyrra í stað tíu milljarða.
Þessu greindu Hanna Katrín Friðriksson og Daði Már Kristófersson frá á blaðamannafundi í dag. Þau sögðu að reikniregla veiðigjaldsins yrði óbreytt en að ný aðferð yrði tekin upp við að meta aflaverðmæti.
Nota markaðsverð við útreikning veiðigjalds
Hér eftir miðast aflaverðmæti þorsks og ýsu við meðalverð á innlendum fiskmörkuðum á tólf mánaða tímabili. Aflaverðmæti norsk-íslensku síldarinnar, kolmunna og makríls miðast hins vegar við meðalverð samkvæmt Fiskistofu Noregs.
Ráðherrarnir sögðu að með þessu fengist raunsannari mynd af aflaverðmætum heldur en nú er. Ástæðan væri sá munur sem væri á verði sem fengist fyrir aflann annars vegar í viðskiptum útgerða og vinnslu í sömu eigu og hins vegar á fiskmarkaði. Þetta hafi verið miðað við hingað til og skilað lægri veiðigjöldum en annars væri.
Tíu milljarða hækkun veiðigjalds
„Útreikningar okkar sýna að miðað við þetta verð, miðað við raunverulegt aflaverðmæti, hefðu veiðigjöld á síðasta ári verið tæplega sex milljörðum króna hærri og tæplega fjórum milljörðum króna hærri fyrir uppsjávartegundirnar síld, kolmunna og makríl. Veiðigjöldin voru rétt rúmir tíu milljarðar, hefðu átt að vera átján til tuttugu milljarðar,“ sagði Hanna Katrín.
Daði Már tók undir með henni.
„Breytingarnar sem við atvinnuvegaráðherra erum að kynna hér í dag eru gerðar til að tryggja að útreikningar á veiðigjaldi endurspegli raunverulegt markaðsverð og raunverulega afkomu af veiðum. Í stuttu máli hefur þjóðin orðið af verulegum tekjum undanfarin ár vegna þess að það verð sem hefur verið miðað við hefur verið of lágt.“
Segja útgerðina standa undir hækkun
Ráðherrarnir lögðu áherslu á að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja síðustu ár sýndi að útgerðirnar stæðu undir hærra veiðigjaldi.
„Af hagnaði útgerða af veiðum fær þjóðin einn þriðja, útgerðin tvo þriðju,“ sagði Hanna Katrín.
Mikilvægt að vanda til verka
Áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á veiðigjaldi komu til umræðu í liðnum störf þingsins við upphaf fundar á Alþingi.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það ætti að vera stjórnvöldum kappsmál að styðja við samkeppnishæfni útflutningsgreinanna og þannig ýta undir góð lífskjör.
„Stundum þýðir það einfaldlega að ríkið þurfi að gera minna. Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að gera meira, að minnsta kosti hvað varðar ferðaþjónustuna og sjávarútveg.“
Hildur sagði að atvinnuvegur væri burðarás í atvinnulífi um land allt og að óvíða væri hann rekinn á jafn hagkvæman hátt og hér. Hún sagði mikið í húfi og mikilvægt að vanda til verka.
Stjórnarliðar fögnuðu
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnaði því við upphaf þingfundar á Alþingi að tekjur af veiðigjöldum yrðu loks meiri en kostnaður ríkisins af þjónustu við sjávarútveg.
Sigmundur Ernir sagði að sérhagsmunaöflin myndu berjast af hörku gegn breytingum á veiðigjaldinu, bæði innan þingsalar og utan hans. Hann sagði sanngjarnt og eðlilegt að þeir sem fái að nýta sjávarauðlindina borgi sanngjarnt gjald fyrir slíkt.
Eiríkur Björn Björgvinsson, þingmaður Viðreisnar, sagði fagnaðarefni að þjóðin fengi loksins sanngjarnara gjald fyrir notkun á sameiginlegri auðlind. Hann sagði ríkisstjórnina einhuga um að ná þessu í gegn.
Nafnalisti
- Daði Már Kristóferssonfráfarandi forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
- Eiríkur Björn Björgvinssonfyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði
- Hanna KatrínFriðriksson
- Hildur Sverrisdóttirfyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
- Sigmundur Ernir Rúnarssonfyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 528 eindir í 32 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 29 málsgreinar eða 90,6%.
- Margræðnistuðull var 1,63.