Sæki samantekt...
Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi, nýja tolla á vörur sem eru fluttar inn til Bandaríkjanna.
Forsetinn hélt 50 mínútna langa ræðu og fór þar um víðan völl. Hann sagði hinar ýmsu þjóðir lengi hafa notfært sér Bandaríkin með ósanngjörnu fyrirkomulagi og raunar rænt þau. Nú væri aftur á móti kominn tími til að Bandaríkin blómstruðu á ný og settu þjóðunum fótinn fyrir dyrnar. Gullöld Bandaríkjanna væri runnin upp.
„2. apríl 2025 verður ávallt minnst sem dagsins sem bandarískur iðnaður endurfæddist, dagsins sem örlög Bandaríkjanna voru endurheimt og dagsins sem við byrjuðum að gera Bandaríkin auðug á ný,“ sagði Trump.
10% tollar á Ísland
Forsetinn tilkynnti að frá og með miðnætti legði hann 25% tolla á innflutning allra erlendra bíla.
Þá tilkynnti hann að 10% lágmarkstollur yrði í gildi fyrir öll lönd en að hann hygðist innleiða „gagnkvæma tolla“ á aðrar þjóðir. Aðstoðarmaður utanríkisráðherra staðfesti við fréttastofu að tollar á innflutningsvöru frá Íslandi verði 10%. Ísland er ekki í tollabandalagi með aðildarríkjum Evrópusambandsins, en þau eru hluti af innri markaðnum á Evrópska efnahagssvæðinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði í samtali við fréttastofu að ráðuneytið ætti fund með fulltrúum atvinnulífsins strax í dag, fimmtudag, til að fara yfir stöðuna. Ekki sé ákjósanlegt að verið sé að leggja tolla á vinaþjóðir. Hún sýni ákvörðun Trumps virðingu en hafi orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum.
„Gagnkvæmir tollar með afsláttum“
Tollur á innflutningsvörur frá Evrópusambandinu verður aftur á móti 20%. Trump dró fram stærðarinnar skilti með lista yfir tolla landanna og mátti þar sjá að hátt í 50% tollur er á vörur frá sumum löndum.
Á listanum er tekið fram að tollarnir séu gagnkvæmir en með afslætti og séu því aðeins helmingur af þeim tollum og viðskiptahindrunum sem löndin sjálf leggi á bandarískar vörur.
Er það til að mynda mat Bandaríkjastjórnar að Kína leggi 67% tolla- og viðskiptahindranir á vörur frá Bandaríkjunum. Bandaríkin leggi í staðinn 34% tolla á Kína. Aðrar þjóðir á borð við Kambódíu og Laos þurfa að greiða hátt í 50% tolla.
Nafnalisti
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttirformaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 352 eindir í 21 málsgrein.
- Það tókst að trjágreina 19 málsgreinar eða 90,5%.
- Margræðnistuðull var 1,63.