„Fróunarklefinn“, versti leikstjóri heims og Teslu-skömmin
Jón Þór Stefánsson
2025-04-01 22:57
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Á hverju ári hlaupa margir apríl og líklega var engin undantekning á því þetta árið. Fjölmiðlar, fyrirtæki, stofnanir og auðvitað óbreyttir borgarar reyndu að plata aðra upp úr skónum með misgáfulegum aprílgöbbum.
Vísir tók saman brot af bestu aprílgöbbunum 2025.
Tesla til sölu á slikk vegna áreitis
Aprílgabbið á Vísi á þetta árið varðaði Teslueiganda sem var orðinn langþreyttur á áreitinu sem fylgir því að eiga slíkan bíl. Hann sagðist því tilbúinn að selja bílinn á slikk.
„Fyrstur kemur, fyrstur fær,“ sagði Sveinn Waage, umræddur Teslu-eigandi.
Undanfarið hefur verið mikið um fréttir erlendis, og eitthvað líka hér á landi, af skemmdarverkum sem unnin hafa verið á Teslum.
„Nú líður mér eins og allir séu að horfa á mig. Og dæma mig,“ sagði Sveinn. Hann hefði orðið var við rispu á bíl sínum, sem hann sagði ljóst að væri vegna skemmdarverks, þó hann hefði engar beinar sannanir. Hann sagði því komið nóg og ætla að selja bílinn langt undir markaðsvirði.
„Ég vil bara selja þennan bíl, losna við Elon Musk úr mínu lífi og verða frjáls maður á ný.“
Í fréttinni fylgdi símanúmer sem áhugasamir um kaup á Teslunni gátu hringt í. Á annað hundrað manns hringdu í númerið í dag.
Heitir núna DJ
Plötusnúðurinn Margeir Steinar Ingólfsson, sem er betur þekktur sem DJ Margreir, greindi frá nafnabreytingu sinni í færslu á Facebook.
„Það eru mikil tímamót í mínu lífi — eftir langa umhugsun, ítarlegan rökstuðning og nokkrar ferðir í gegnum kerfið hef ég fengið formlega staðfestingu frá Þjóðskrá og Mannanafnanefnd: Héðan í frá heiti ég DJ Margeir Steinar Ingólfsson,“ skrifaði hann.
Hann sagði að það hafi verið farið að flækja lífið að vera bæði einstaklingurinn Margeir og hins vegar listamaðurinn DJ Margeir.
„Nafnið „DJ“ hefur orðið óaðskiljanlegur hluti af minni tilveru — og það var kominn tími á að sjálfsmyndin rímaði við raunveruleikann. Ég þurfti að rökstyðja málið mjög vandlega og sýna fram á að þetta væri hvoru tveggja persónuleg og menningarleg ákvörðun. Sem betur fer fékk ég skilning — og samþykki.“
Árnastofnun eyðir orðum
Mbl.is greindi frá því að Árnastofnun hygðist eyða orðum úr gagnagrunni sínum vegna plássleysis í gagnageymslum. Fram kom að orðum sem ekki hefði verið flett upp á vefnum malid.is síðastliðinn fimm ár yrðu eytt.
Tekin voru dæmi um nokkur orð sem myndu hverfa úr safninu, en þau voru: „aðhneiging, drymbildrútur, dugandlegur, glatarí, hnóhnika, jarðvarp, lýðskyldur, mótorhjólhestur, nítugur, nýsmánlegur, rampóneraður, reiknishaldari, röskvi, skýjablesi, slauksamur, svíri, tísaldalegur, tísaldarlegur, traðjóla og veðurkápa.“
Haft var eftir Helgu Hilmisdóttur, sviðsstjóra íslenskusviðs Árnastofnunar, að henni þætti sum orðin „hreinlega ljót“.
„Þetta hljómar ekkert sérstaklega fallega fyrir mér,“ átti Helga að hafa sagt.
HoppAir
Rafhlaupahjóla-fyrirtækið Hopp greindi frá nýrri þjónustu í dag. Svo virtist sem að Hopp ætlaði að hasla sér völl á flugmarkaðinum, en þó með óvenjulegum hætti, þar sem notendur hennar virtust eiga að sjá um að fljúga sjálfir.
„Nú getur þú hoppað innanlands á rafmagnsrellu. Við stækkum flotann og aukum við þjónustu Hopp Reykjavíkur með HoppAir! Við trúum því að loftið sé fyrir alla og bjóðum uppá grænar samgöngur hvert sem þú ferð,“ sagði í færslu á samfélagsmiðlum.
Versti kvikmyndagerðarmaður heims á Íslandi
Bíó Paradís greindi frá því í dag að Tommy Wiseau, kvikmyndagerðarmaður sem er þekktastur fyrir The Room, væri kominn til Íslands.
„Tommy Wiseau er mættur á klakann! Hann ætlar að hitta aðdáendur og gefa út eiginhandaráritanir í Bíó Paradís kl 12:00 í hádegishléinu sínu! Endilega komið og fagnið!“ sagði í Facebook-færslu bíóssins.
The Room, sem er frá 2003, þykir ein alversta kvikmynd sem gerð hefur verið, en Wiseau skrifaði handritið, leikstýrði, framleiddi og lék aðahlutverkið í myndinni. Vegna þess hversu slæm hún er þykir hún þó skemmtileg áhorfs og hefur hún reglulega verið sýnd hér á landi.
Alvöru draumur fyrir Liverpool-menn
Tommy Wiseau var ekki sá eini sem var sagður vera kominn hingað til lands. Á Facebook-síðu knattspyrnuverslunarinnar Jóa Útherja var greint frá því að Liverpool-goðsögnin John Barnes væri á Íslandi.
„Hann verður á staðnum að árita, spjalla og taka myndir — alvöru draumur fyrir alla Liverpool aðdáendur!“
Ekki þingfundur heldur þinghundur
Á Instagram-síðu Alþingis var greint frá því að þinghundur myndi taka til starfa á þinginu í dag.
„Það er varla til betri staður til að frumsýna hvutta en í Alþingisgarðinum, en þar stendur stytta af Tryggva Gunnarssyni, alþingismanni og dýravini. Tryggvi stofnaði Dýraverndunarfélag Reykjavíkur árið 1914 og var fyrsti formaður þess og því svo sannarlega brautryðjandi í dýraverndarmálum á Íslandi. Verið öll hjartanlega velkomin að hitta hundinn í garðinum kl. 15 í dag.“
View this post on Instagram
A post shared by Alþingi (@althingi)
Flugvél breytt í landslagslistaverk
Víkurfréttir greindu frá því að skrokkur Icelandair-þotu, af gerðinni Boeing 757, hefði verið fluttur með pramma að ströndinni við Sandvík á Reykjanesi nóttina áður.
„Þar á vélinni að verða komið fyrir í svörtum sandinum, rétt ofan flæðamáls, sem hluti af nýju verkefni sem miðar að því að laða ferðamenn að svæðinu með óvenjulegu landslagslistaverki,“ sagði á vef Víkurfrétta.
Jafnframt kom fram að ekki lægi fyrir hvort gestum yrði hleypt inn í skrokkinn, en þó væri mögulegt að opna þar kaffihús síðar meir.
„Þotan mun standa sem minnisvarði um íslenskt flug, gosbeltin og framtíðarsýn á svæði sem hefur verið í mikilli þróun frá eldsumbrotum.“
Dúbaí-súkkulaði út um allt
Ný vara sem var kynnt til leiks var frá steinefnadrykkjarframleiðandanum Happy Hydrate. Þeir sögðust vera að bjóða upp á nýtt bragð, dúbaí-súkkulaði.
Hvað er Dúbái-súkkulaði? Bjarki Sigurðsson fréttamaður fjallaði um fyrirbærið á dögunum. Sjá nánar.
Sjálfugjald á Þingvöllum
Á Facebook-síðu þjóðgarðarins á Þingvöllum var greint frá því að á næsta ári myndi hefjast gjaldtaka á svokölluðum sjálfum, eða sjálfsmyndum, í þjóðgarðinum.
„Spretthópur hefur í dag tilraunir með nýja gjaldheimtu á hegðun, atferli og framkomu ferðamanna á Þingvöllum. Tillagan kom fram í samtali við þjóðina um breytingar í ríkisskerfinu og ítarlegri leiðir til tekjuöflunar af ferðaþjónustunni í landinu. Helst þessi nýja tekjuöflun í hendur við nýútkomna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nær yfir árin 2026–2030,“ sagði í færslunni.
„Sjálfugjaldið nær yfir svæðið í kringum Almannagjá, þar sem flestir sjálfhverfir ferðamenn fara um og setja sjálfa sig í öndvegi mynda sinna. Þeir verða samkvæmt tillögum spretthóps rukkaðir eftir; fjölda sjálfumynda, lengd myndskeiða, samkvæmt birtingu og hvort verið sé að taka landslagsmynd eða andlitsmynd.“
Fram kom að blaðamannafundur yrði haldinn vegna þessa klukkan fimm í dag.
„Fróunarklefinn“
Kynlífstækjaverslunin Blush kynnti nýjung í verslunum sínum í dag, svokallaðan fróunarklefa.
„Þetta einstaka rými gefur viðskiptavinum tækifæri til að velja vöru úr verslun sér að kostnaðarlausu, prófa hana og gefa vörunni umsögn. Markmiðið er að gefa viðskiptavinum tækifæri til að prófa sig áfram með vörur, finna hvað það er sem henta, taka upplýsta ákvörðun og um leið gefa umsagnir sem hjálpa öðrum í leit að hinu fullkomna kynlífstæki,“ sagði í færslu á Facebook.
„Lagt hefur verið mikið í hönnun og uppsetningu á fróunarklefanum. Þar er lögð áhersla á notalegt en seiðandi andrúmsloft þar sem viðskiptavinir fá fullkomið næði til að fróa sér. Rýmið er hljóðeinangrað og notendur geta verið vissir um að öryggi þeirra sé tryggt. Klefinn hefur allt það helsta sem þarf eins og sleipiefni, blautþurrkur og handklæði þar sem vel er hugað er að hreinlæti. Viðskiptavinir velja vöru að eigin vali sér að kostnaðarlausu, prófa vöruna og fylla út umsagnar eyðublað.“
Conor kaupir klár
Á vef Eiðfaxa var greint frá því að írski bardagakappinn Conor McGregor hefði keypt hestinn Tuma frá Jarðbrú, sem vann ásamt knapa sínum, ungmennaflokkinn á Landsmóti hestamanna síðasta sumar.
„Gunnar [Nelson] hafði samband við mig í byrjun árs og spurði hvort ég ætti ekki einhvern góðann graðhest til sölu en hann væri að leita fyrir vin sinn. Mér datt strax Tumi í hug enda mikill gæðingur, fallegur, rúmur og með frábært geðslag,“ var haft eftir Sigurði Matthíassyni, sem var sagður hafa haft milligöngu um sölu á folanum
Nafnalisti
- Bíó Paradískvikmyndahús
- Bjarki Sigurðssonfréttamaður
- Blushkynlífstækjaverslun
- Conormeistari í fjaðurvigt
- Conor McGregorírskur bardagakappi
- Elon Muskforstjóri
- Facebookbandarískur samfélagsmiðill
- Facebook-síðufylgdi pistli um sumarskrifstofu samgönguráðherrans Ketil Solvik-Olsen, þegar lesandi benti á í athugasemd að skrifstofunni, fjölsæta bifreið með sportlegum reiðhjólum áfestum, var einmitt lagt á akrein sem ætluð er þeim síðarnefndu
- Gunnargestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni
- Happy Hydrate
- Helga Hilmisdóttirrannsóknardósent á Orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og verkefnisstjóri rannsóknarinnar Íslenskt unglingamál
- Helgiauk þess stjórnarformaður Torgs
- John Barnesleikmaður Liverpool
- Jói Útherjaknattspyrnuverslun
- Liverpool-goðsögninkominn
- Margeir Steinar Ingólfssonstjórnarformaður Hugsmiðjunnar
- Sigurður Matthíassoníbúi í Staðahverfinu í Grafarvogi
- Sveinn Waagefyrirlesari
- The Roomjafnan kölluð besta versta mynd sem framleidd hefur verið
- Tommy Wiseaukvikmyndagerðamaður
- Tryggvi Gunnarssonfyrrverandi umboðsmaður Alþingis
- Tumistrákur
- Viewskol sem fer ekki inn í hárið
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1437 eindir í 84 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 75 málsgreinar eða 89,3%.
- Margræðnistuðull var 1,63.