Ásthildur Lóa lýsir barnungum barnsföður sínum sem eltihrelli
Aðalsteinn Kjartansson
2025-03-21 09:02
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem sagt hefur af sér sem mennta- og barnamálaráðherra, útskýrir í langri yfirlýsingu bakgrunn og aðdraganda þess að samband hennar við barnsföður eldri sonar síns hafi verið gert opinbert.
Hún lýsir því að hún hafi verið 23 ára þegar samband þeirra hófst og barnsfaðirinn tæplega 16 ára. Sambandið hafi ekki byrjað að hennar frumkvæði, heldur hafi hann þrýst á og elt hana, sem í dag væri líklega kallað eltihrelling. Þau áttu saman barn árið 1990, en sambandið rofnaði fljótt og samskipti barnsins við föður sinn voru brotakennd og að mestu óvirk af hans hálfu, segir í yfirlýsingunni.
Fór heim til þess sem sendi erindi um málið
Sjálf viðurkennir hún að hafa hringt nokkrum sinnum í konu sem reyndi að vekja athygli Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra á málinu, og að hún hafi farið á heimili hennar í vikunni eftir að hafa átt ítrekuð símtöl við hana. Það var ekki fyrr en Ásthildi Lóu varð ljóst að sagt yrði frá málinu í fjölmiðlum, sem hún staðfesti að frásögn af sambandi við táningspilt væri rétt við Kristrúnu.
RÚV greindi frá því í gær að Ásthildur Lóa hafi átt í sambandi við piltinn þegar hann var enn fimmtán ára gamall. Þau hafi farið leynt með sambandið, en þau kynntust í unglingastarfi í kristilegu samtökunum Trú og líf. Þau eignuðust svo barn árið 1990, þegar pilturinn var orðinn sextán ára og Ásthildur Lóa að verða 23 ára.
Fram kom í umfjöllun RÚV að Ásthildur hafi staðið í vegi fyrir því að barnsföður hennar hafi átt samskipti við son sinn. Ásthildur hafnar þessu og segir hann hafa sýnt því áhuga, nema í nokkur tilgreind skipti, að eiga samskipti við barnið.
Sátu með erindið í ráðuneytinu
Hún segir tilefni yfirlýsingarinnar vera það að kona — fyrrverandi tengdamóðir barnsföðurins — hafi sent erindi til forsætisráðherra um meinta tálmun. Þessi kona hafði síðan samband við Ásthildi og hótaði að leita annarra leiða, sem síðan leiddi til fjölmiðlaumfjöllunar.
Fram kom í frétt RÚV og viðtali við Ásthildi Lóu í gærkvöldi að hún hafi fengið upplýsingar um að nafngreind kona hefði haft samband við forsætisráðuneytið og óskað eftir fundi með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Þetta var 9. mars síðastliðinn.
Kristrún segist fyrst hafa heyrt sannleikann í dag
Tveimur dögum síðar, þann 11. mars, hafði aðstoðarmaður Kristrúnar samband við aðstoðarmann Ásthildar Lóu, sem í kjölfarið upplýsti hana um nafn konunnar og að hún hafi óskað eftir fundi um ráðherrann. Starfsmaður forsætisráðuneytisins óskaði eftir frekari upplýsingum um erindi þess sem hafði samband.
„Þá bárust mér upplýsingar um erindið og í kjölfarið þá er tekin sú ákvörðun um að bjóða ekki upp á einkafund með forsætisráðherra,“ sagði Kristrún Frostadóttir á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu í gærkvöldi. Svo virðist sem ekkert hafi gerst í forsætisráðuneytinu í kjölfar þess að efni fundarins sem óskað hafði verið eftir var ljóst.
Leitaði konuna uppi á Facebook
Í yfirlýsingu Ásthildar segist hún ekki hafa áttað sig á því hvaða kona þetta væri en hún hafi leitað hana uppi á Facebook. Segist hún vona að engin lasti sig fyrir að vera forvitin um hver þessi kona var og um hvað málið snérist.
„Eftir að hafa leitað fyrir mér sé ég að hún og barnsfaðir eldra sonar míns voru vinir á Facebook. Mig fór því að renna í grun um hvaða mál hún vildi tala án þess að ég vissi nokkuð um hver tengsl þessarar konu og barnsföðurins væru,“ segir Ásthildur í yfirlýsingunni.
Það hafi svo verið 16. mars sem hún hringdi fyrst í konuna — en ekki það síðasta. Ásthildur segist hafa átt nokkur samtöl við konuna en fram hefur komið að hún hafi bankað uppá á heimili hennar í vikunni.
Segir þetta einkamál sitt
Ásthildur segir að málið sé einkamál frá því fyrir 35 árum sem tengist ekki störfum hennar sem ráðherra. Hún hafi sagt af sér til að koma í veg fyrir að þetta mál skyggi á störf ríkisstjórnarinnar og ráðuneytisins.
Í yfirlýsingunni, sem upplýsingafulltrúi þingflokks Flokks fólksins sendi út fyrir hennar hönd, segist hún ekki ætla að veita frekari viðtöl og biður um að friður fáist um störf ríkisstjórnarinnar og hennar nánustu samstarfsfólks.
Nafnalisti
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Facebookbandarískur samfélagsmiðill
- Kristrún Frostadóttirformaður
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 705 eindir í 33 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 30 málsgreinar eða 90,9%.
- Margræðnistuðull var 1,66.