Reglur um fæðingarstyrk geri ráð fyrir einsleitum hópi námsmanna
Lovísa Arnardóttir
2024-09-09 09:24
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Þórdís Dröfn Andrésdóttir formaður Samband íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, segir nauðsynlegt að breyta reglum um greiðslur til námsmanna úr fæðingarorlofssjóði þannig þær taki mið af fjölbreyttari hópi námsmanna. Þá þurfi einnig að hækka greiðslurnar.
Þórdís Dröfn beið í fimmtán vikur eftir því að Fæðingarorlofssjóður staðfesti umsókn hennar um rétt til greiðslu á fæðingarstyrk sem er um 220 þúsund krónur á mánuði. Hún segir reglur sjóðsins gera ráð fyrir mjög einsleitum hópi námsmanna. Þórdís Dröfn fór yfir málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Þórdís Dröfn sagði frá öllu ferlinu nýlega í grein á vef Heimildarinnar. Þar lýsir hún litlum sveigjanleika sjóðsins í reglum hans. Þrátt fyrir að hafa lokið meistaranámi sínu í Danmörku á undir tveimur árum hafi verið erfitt að fá staðfesta umsóknina því dagsetningarnar hafi ekki passað við það sem sjóðurinn vildi. Því var fimmtán vikna töf á því að umsóknin væri staðfest.
Sem dæmi gera reglur sjóðsins ráð fyrir því að fólk ljúki 30 einingum á haustönn, sem hún gerði, en af að hún tók sjúkrapróf voru dagsetningarnar skráðar á vorönn. Umsókninni fylgdi þó bréf frá skólanum þar sem tekið var fram að einingarnar hefðu verið teknar á haustönn. Sjóðurinn vildi þó ekki taka bréfið gilt og vildi frá læknisvottorð.
Læknisvottorðið ekki nægilega vel unnið
Þórdís hafði skilað skólanum læknisvottorði til að fá að taka sjúkraprófin en vegna þess að sjóðurinn vildi ekki taka bréfið frá skólanum gilt þurfti hún að fara aftur til læknis til að fá annað vottorð. Það sé svo sent til sjóðsins en sjóðurinn tók það ekki gilt því hann taldi það ekki fullnægjandi og að það þyrfti að vinna það betur. Það hafi verið tiltekið tímabilið sem hún var veik en ekki sérstaklega skráð haustönn 2023 á vottorðið. Þórdís fór þá aftur til læknis og fékk annað vottorð sem var að lokum samþykkt.
„Þá er ég búin að standa af mér tvö tekjulaus mánaðamót með pínulítið barn.“
Þórdís segir sína sögu ekki einsdæmi. Í starfi sínu í SÍNE hafi hún aðstoðað fjölda fólks við að leysa úr vandamálum sem hafa komið upp í annað hvort afgreiðslu umsókna til Menntasjóðs eða Fæðingarorlofssjóðs.
Þórdís segir að það hefði í raun verið betra að vera úti, klára námið, koma undir sig fótunum og jafnvel kaupa íbúð.
„Það er ekki auðvelt fyrir ungar barnafjölskyldur að koma sér á skrið á Íslandi.“
Þórdís segir þá framfærslu sem námsmönnum sé reiknuð, almennt og í fæðingarorlofi, of lága. Menntasjóður reikni hærri framfærslu á einstakling í námi með barn en Fæðingarorlofssjóður á námsmann í fæðingarorlofi. Mögulega sé þá verið að taka tillit til þess að fólk fái bara 80 prósent af tekjum sínum í fæðingarorlofi.
Engin tekjutenging í viðmiðinu
Þórdís segir þessu ferli hafa fylgt mikið álag en að ofan á þetta hafi ekki verið neitt tækifæri fyrir manninn hennar að vinna sér inn fæðingarorlof. Þau hafi komið heim og hann alveg réttindalaus og farið beint að vinna. Hann hafi því enn ekki getað farið í orlof með barninu þeirra og sjái ekki fram á að geta það.
„Þegar við flytjum heim er löngu búið að ákveða hverju hann á rétt á. Það er tekið mið af tólf mánaða tímabili sem hefst sex mánuðum áður en barnið fæðist. Sem er þetta tekjutengingartímabil. Ef fólk flytur til íslands á meðgöngu er það þegar búið að missa af þessu. Það er engin tekjutenging. Það er bara lágmark fyrir fólk í 100 prósent starfi sem er 200 þúsund, eins og fæðingarstyrkur námsmanna,“ segir Þórdís og að þau fái jafnvel greitt miðað við lágmark fyrir fólk sem ekki er á vinnumarkaði.
Þórdís segist ekki hætt að vinna í þessu þó hún sé komin með greiðslurnar. Hún hafi þegar sent póst á Guðmund Inga Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og fengið svar. Ef reglunum yrði breytt væri gott að gera ráð fyrir fjölbreyttari hóp og aðstæðum námsmanna.
Nafnalisti
- Guðmundur Ingi Guðbrandssonþáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra
- SÍNEþað mál
- Þórdís Dröfn Andrésdóttir
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 667 eindir í 38 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 36 málsgreinar eða 94,7%.
- Margræðnistuðull var 1,63.