Hátíðarstemning á kjörstað í Nuuk
Dagný Hulda Erlendsdóttir
2025-03-11 13:26
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Mesta óvissan í þingkosningum á Grænlandi í dag er um hversu mikið fylgi Naleraq-flokkurinn fær, sem er hvað hlynntastur auknum tengslum við Bandaríkin, segir Vilborg Ása Guðjónsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi ráðgjafi í Vest-Norræna ráðinu, þingmannasamstarfi Íslands, Grænlands og Færeyja. Hún er í Nuuk til að fylgjast með kosningunum.
Vilborg Ása Guðjónsdóttir og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen við opnun kjörstaðar í Nuuk í morgun. Aðsend mynd/Vilborg Ása Guðjónsdóttir
Fréttastofa náði tali af Vilborgu Ásu stuttu eftir að kjörstaðir voru opnaðir í morgun. Þá var hún á kjörstað í íþróttahúsi í Nuuk, höfuðstað Grænlands. „Hér er gríðarlega mikil stemming og fólk segir mér að hér sé mannfjöldi sem ekki hafi sést áður við opnun kjörstaða í Nuuk. Þar að auki er fjöldi fjölmiðlamanna gríðarlegur.“
Fleiri fjölmiðlamenn eru komnir til Grænlands að fylgjast með kosningunum en nokkurn tíma áður. Vilborg Ása segir ljóst að það sé ekki aðeins meiri spenna vegna kosninganna utanlands heldur líka meðal Grænlendinga. „Það sýnir sig hér. Það er í rauninni hátíðarstemming hér í íþróttahúsinu, hálfgerð ættarmótsstemming og góður andi.“
Vilborg Ása segir að kosningabaráttan hafi hafist fyrir nokkrum vikum þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti fór enn á ný að tala um að eignast Grænland. Mikið hafi verið rætt um þau mál vikurnar fyrir kosningar, síðan hafi tekið við umræða um hefðbundnari mál eins og velferðarmál, heilbrigðismál og menntamál.
Ekki voru gerðar skoðanakannanir en almennt sé talið að stjórnin haldi meirihluta sínum en missi mögulega hluta af fylgi sínu. Hugsanlega sé helsti óvissuþátturinn hversu mikið fylgi Naleraq-flokkurinn fái. „Það er flokkurinn sem hefur kannski verið hvað róttækastur gagnvart auknum tengslum við Bandaríkin og að rífa sig sem fyrst frá Danmörku. Þannig að það er ákveðinn óvissuþáttur þar hvort að flokkurinn fái mikla aukningu í fylgi. Þá væri það kannski ákveðið sjokk í samfélaginu og myndi að líkindum leiða til einhverrar tvístrunar samfélagsins.“ Þó sé ekki endilega búist við að svo fari að flokkurinn bæti við sig fylgi.
Nafnalisti
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Inga Dóra Guðmundsdóttirvaraformaður með ábyrgð á skipulagsmálum flokksins
- Markussenstjórnarformaður Dagbladets Stiftelse, rekstrarfélags Dagbladet
- Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 336 eindir í 20 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 20 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,63.