Breytt veiðigjöld kippi ekki stoðunum undan minni samfélögum
Hugrún Hannesdóttir Diego
2025-04-01 04:30
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Það skiptir miklu máli hvernig staðið verður að breytingum á veiðigjöldum og tryggja þarf að hækkun þeirra bitni ekki á minni sveitarfélögum sem eru verulega háð sjávarútvegi. Um þetta voru gestir Silfursins í gærkvöld sammála. Anna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að áhyggjur af smærri samfélögum væru réttmætar en að enn væri nægur tími til samráðs.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, gagnrýndi að áhrif á sveitarfélögin hefðu ekki verið könnuð. Sveitarfélögin hefðu ekki fengið nægan tíma til að bregðast við og að gögn vanti til þess að þau geti tekið afstöðu.
„Það er sagt að þetta hafi ekki veruleg áhrif, það nægir mér ekki. Ég þarf að fá að vita, því ég veit að það eru öll gögn til. Við verðum að fá að vita hversu mikil áhrif þetta hefur á okkur,“ sagði Kristinn og kallaði eftir lengri fresti til þess að afla gagna.
Minni fyrirtæki gefist upp
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, sagðist telja að breytingarnar myndu hafa neikvæð áhrif á samfélagið þar. Þær leiði þar að auki til meiri samþjöppunar í sjávarútvegi og minni fyrirtæki gætu einfaldlega gefist upp. Smærri sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum væru áhyggjufull.
„Það sem er líklegast er að fyrirtæki bara einfaldlega dragi úr kostnaði, það þýðir bara færri störf og meiri samþjöppun,“ sagði Jón Páll. Fyrirtæki gætu einnig dregið úr fjárfestingum sem hefði áhrif á þjónustu í Bolungarvík.
„Þetta þarf að vera fyrirsjáanlegt. Fyrirsjáanleiki gerir okkur kleift að undirbúa okkur,“ sagði Jón Páll.
„Það á að vera stolt sjávarútvegsins að leggja meira til“
Anna Lára sagðist skilja þau sjónarmið. Ljóst væri að þetta hefði mismunandi áhrif á fyrirtæki en markmiðið með breytingunum væri ekki að stuðla að aukinni samþjöppun.
„Við höfum auðvitað áhyggjur af smæstu fyrirtækjunum. Þetta eru réttmætar áhyggjur,“ sagði Anna Lára. Skoða þurfi til að mynda hvernig þrepaskipting gagnist þeim fyrirtækjum. Enn væri tími til að kalla eftir greiningum og ráðast í þær.
„Ef það er eitthvað þannig í frumvarpinu sem verður til þess að kippa stoðunum undan einhverjum byggðum, þá verðum við að bregðast við því. Það mun ekki gerast á minni vakt,“ sagði Anna Lára.
Hún sagði íslenskan sjávarútveg standa styrkum fótum og að heilt yfir standi sjávarútvegurinn breytingarnar af sér.
„Þetta er atvinnugrein sem við eigum að vera gríðarlega stolt af. Og það á að vera stolt sjávarútvegsins að leggja meira til,“ sagði Anna Lára.
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Umræðan um veiðigjöldin er í síðari hluta þáttar sem hefst á 34. mínútu.
Nafnalisti
- Anna Lára Jónsdóttirbæjarstjóri Ísafjarðar
- Jón Páll Hreinssonbæjarstjóri
- Kristinn Jónassonbæjarstjóri
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 452 eindir í 30 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 30 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,65.