Fjórum bjargað úr rústum tæpum 60 klukkutímum eftir skjálftann
Grétar Þór Sigurðsson
2025-03-30 18:44
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Vinna björgunarfólks heldur áfram þrátt fyrir að nótt sé skollin á í Mjanmar og Taílandi. Björgunarfólk vinnur í kappi við tímann, í von um að finna fólk á lífi í rústum húsa. Síðdegis í dag bárust fréttir af því að fjórum hefði verið bjargað úr rústum skólabyggingar í Mjanmar, tæpum sextíu klukkustundum eftir stóra skjálftann sem varð á föstudag. Björgunarfólk fann lík eins í rústunum.
Jarðskjálftinn sem varð á föstudag var sjö komma sjö að stærð. Síðan þá hafa margir eftirskjálftar orðið sem hafa gert björgunarfólki erfiðara um vik.
Í Mjanmar hafa 1700 fundist látnir og hundraða er saknað.
Í landinu ríkir borgarastyrjöld. Herforingjastjórnin sem þar ræður ríkjum hefur haldið loftárásum sínum áfram í landinu, meðal annars í héruðum sem urðu illa úti vegna jarðskjálftans. Það hefur víða verið gagnrýnt. Utanríkisráðherra nágrannaríkisins Singapúr hefur til að mynda kallað eftir tafarlausu vopnahléi.
Í Taílandi er líf fólks að færast í samt horf. Fyrirtæki hafa hafið störf að nýju og afkastageta spítala er að verða eðlileg.
Í höfuðborginni Bangkok er enn leitað í rústum skýjakljúfs sem var í byggingu. Hann féll við stóra skjálftann. 18 hafa fundist látnir í borginni, þar af 11 á byggingarsvæði skýjakljúfsins.
Nafnalisti
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 212 eindir í 16 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 16 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,64.