„Þorum ekki alveg að segja það strax að þetta sé búið“
Ritstjórn mbl.is
2025-04-03 11:58
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
„Við erum ekki lengur að sjá neitt útflæði út úr Svartsengi og skjálftavirknin er að minnka hægt og rólega á þessu svæði sem hún var nálægt kvikuganginum. Þetta bendir allt til þess að það sé að hægja á þessu en við þorum ekki alveg að segja það strax að þetta sé búið.“
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is spurður út í stöðuna á Reykjanesi en hann var þá rétt að ljúka fundi með vísindamönnum Veðurstofunnar.
Ólíklegt að annað gos brjótist út
Eldgosið, það áttunda í röðinni á Sundhnúkagígaröðinni frá því goshrinan þar hófst í desember 2023, hófst á tíunda tímanum á mánudagsmorgun og síðdegis þann sama dag sást engin virkni í gossprungunni.
„Það er ekki líklegt að það brjótist út annað gos úr þessu en við þorum ekki alveg að slá það af strax í dag. Eftir því sem tímanum líður er það alltaf ólíklegra,“ segir hann.
Er eitthvað í þessum atburði sem hefur komið ykkur á óvart?
„Kvikuhlaupið var miklu norðar en við höfum séð áður og við áttum ekki von á að það færi svona norðarlega. Þessi atburður var fyrst og fremst kvikuhlaup. Gosið sjálft var bara smá leki en atburðurinn var alveg á pari við síðasta atburð, og kannski stærri.“
Leit mjög illa út fyrir Grindavík
Hann segir það mikla mildi að allt kvikumagnið hafi ekki komið upp og það hefði ekki farið vel fyrir Grindavík ef það hefði gerst.
„Þegar gosið hófst þá leit þetta mjög illa út fyrir Grindavík en sem betur fer reyndist þetta lítið gos,“ segir hann.
Benedikt segir erfitt að meta stöðuna hvað framhaldið varðar.
„Ég held að við leyfum þessu að klárast og svo verðum við að gefa okkur tíma og sjá hvernig landrisið við Svartsengi þróast. Það getur tekið svolítinn tíma að átta sig á því. Ef landrisið við Svartsengi er hægt þá mun það taka einhverjar vikur að átta sig á því hvert það er að stefna.“
Hann segir best að bíða í nokkrar vikur með að meta framhaldið á meðan verið er að sjá hvernig gögnin þróist í kjölfarið á þessum atburði.
Er möguleiki á að eldvirkin sé að færa sig eitthvað annað, út á Reykjanes eða í Svartsengi?
„Það er alltaf möguleiki á því en við sjáum engin merki um það eins og er. Við sjáum bara merki um að það er að hægja á öllu á Svartsengissvæðinu og hefur verið að gera það smá saman síðasta árið.“
Líklegt að það sé langt í næsta atburð
Spurður hvort goshrinunni við Sundhnúkagígaröðina gæti verið að ljúka segir hann:
„Ég held að ég bíði í einhverjar vikur áður en ég fer að spá í það yfirhöfuð. Við vitum ekki hvernig landrisið kemur undan þessu gosi. Ég held hins vegar að það sé líklegt að það sé langt í næsta atburð, einhverjir mánuðir, ef það verður eitthvað meira,“ segir Benedikt.
Nafnalisti
- Benedikt Gunnar Ófeigssonsérfræðingur
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 517 eindir í 27 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 25 málsgreinar eða 92,6%.
- Margræðnistuðull var 1,69.