„Ekki hægt að skattleggja út frá tölum sem eiga sér ekki stað í bókhaldi“
Gréta Sigríður Einarsdóttir
2025-03-29 08:30
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Framkvæmdastjóri Íslandssögu segir útgerðina geta staðið af sér hækkun veiðigjalds en ekki fiskvinnsluna. Ástæðan sé sú að ekki sé hægt að skattleggja reiknaðar tölur sem eru ekki til í bókhaldi félaganna.
„Fyrst þegar þetta kom fram þá eiginlega sat maður lamaður,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu á Suðureyri um fregnir af áætlunum stjórnvalda um að reikna veiðigjaldið út frá fiskverðum á markaði.
„Útgerðin getur staðið þetta af sér. En ég held að fiskvinnslan á Íslandi muni ekki gera það,“ bætir hann við.
Nýr útreikningur veiðigjalds kollvarpi verðlagsstofuverði
Ástæðan er sú að fiskvinnslur sem reknar eru í samstarfi við útgerð geta keypt hráefni af bátunum á lægra verði en á fiskmarkaði. Hingað til hefur veiðigjaldið verið reiknað út frá því verði sem vinnslurnar borga. Það er Verðlagsstofa skiptaverðs sem ákveður verðið.
Nú vilja stjórnvöld reikna veiðigjaldið út frá markaðsverði. „Mitt álit er að það sé ekki hægt að skattleggja einhver fyrirtæki eftir einhverri reiknaðri tölu sem á sér ekki stað í bókhaldi félaganna,“ segir Óðinn.
Sjómenn hljóti einnig að heimta markaðsverð
Sjómenn fá greiddan hlut af ágóðanum af veiðunum. Þegar fiskvinnslan borgar lægra verð en á markaði fá þeir því líka minna greitt fyrir sinn hlut. Óðinn segir að breyttur útreikningur stjórnvalda verði til þess að sjómenn heimti að fá greitt fyrir sinn hlut út frá markaðsverði en ekki verðlagsstofuverðinu.
„Ef þú ákveður að þorskur og ýsa eigi að vera skattlögð út frá 20% hærra verði þá mun sjómaðurinn gera kröfu um að fá 20% hærra verð til skipta.“
Mannfrekara fyrirtækið bíði skaða
Íslandssaga gerir út skip með fjórum plássum. Átta sjómenn starfa hjá útgerðinni. Ef vinnslan greiddi markaðsverð fengi útgerðin meira fyrir sinn snúð og sjómennirnir hærri laun sem því næmi.
Hjá vinnslunni starfa rúmlega 40 manns. „Það er ekki bæði hægt að hækka launin og hráefnið og ætlast til þess að þetta skili allt afkomu,“ segir Óðinn. „Við rækjum fyrirtækið árið 2026 með þá kannski 100 milljóna króna tapi og eftir það myndum við loka þessu.“
Nafnalisti
- Óðinn Gestssonframkvæmdastjóri Íslandssögu
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 360 eindir í 23 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 22 málsgreinar eða 95,7%.
- Margræðnistuðull var 1,66.