Íslendingur á Grænlandi: „Það heyrist ekki múkk í neinum“
Bjarki Sigurðsson
2025-03-29 19:19
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Íslendingur í Nuuk segir mikla spennu vera að byggjast upp á Grænlandi vegna ásælni Bandaríkjastjórnar og heimsóknar varaforsetans. Danir mótmæltu fyrir utan bandaríska sendiráðið í dag.
Í gær, sama dag og ný landsstjórn var kynnt á Grænlandi, heimsótti JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, herstöð í Pituffik á norðvestanverðu landinu. Þar sagði hann Dani ekki hafa staðið sig gagnvart grænlensku þjóðinni. Í þágu heimsfriðar þyrftu Bandaríkin að eignast Grænland.
Orð varaforsetans hafa vakið mikla athygli og sagði forsætisráðherra Danmerkur þau ósanngjörn. Utanríkisráðherra landsins birti svo myndbandsávarp í gærkvöldi þar sem hann sagði að hingað til hafi ríkt sátt með að friður ríkti á norðurskautinu.
„Við tókum öll ákvarðanir út frá þeim forsendum að Norðurskautið væri og ætti að vera lágspennusvæði. En sá tími er liðinn. Óbreytt ástand er ekki í boði,“ sagði Rasmussen.
Danir mótmæltu fyrir utan bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn í dag. Mótmælendur sögðu Grænland ekki til sölu og að Bandaríkin ættu að hætta að girnast eyjuna.
Hálfíslenskur fyrrverandi stjórnmmálamaður á Grænlandi segir þetta skrítna tíma fyrir Grænlendinga.
„Núna er umheimurinn búinn að breytast það mikið og við erum komin inn í þetta ferli þar sem þjóðin hefur verið undir miklu álagi í þrjá mánuði og er að reyna að skilja hvað er í gangi. Ríkisstjórn kemur svo saman í gær og þá kom aðeins ró yfir fólk. Endanlega þessi skýru skilaboð, fjórir flokkar, samstarf flokkanna gefur þessa ró en svo byrjar ný spennuuppbygging. Það er of snemmt að segja hvernig þjóðinni líður. Hún er búin að fá smá pásu en við sjáum hvað gerist núna næstu daga,“ segir Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen.
Hún segir þögn annarra ríkja um ágengni Bandaríkjanna koma á óvart.
„Það heyrist ekki múkk í neinum ríkjum. Ég skil það mjög vel en manni finnst maður vera svolítið aleinn í heiminum,“ segir Inga Dóra.
Nafnalisti
- Inga Dóra Guðmundsdóttirvaraformaður með ábyrgð á skipulagsmálum flokksins
- JD Vance
- Markussenstjórnarformaður Dagbladets Stiftelse, rekstrarfélags Dagbladet
- Pituffikþorp
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 324 eindir í 21 málsgrein.
- Það tókst að trjágreina 19 málsgreinar eða 90,5%.
- Margræðnistuðull var 1,56.