Suðaustan- og austan hríðarveður og gular viðvaranir
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
2025-03-30 08:16
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna suðaustan- og austan hríðar. Fyrstu viðvaranirnar taka gildi á Suðurlandi klukkan 14 í dag og gilda til 17. Síðan tekur hver viðvörunin við á fætur annarri, klukkan 15 á Faxaflóa, 16 á Breiðafirði og 17 á Vestfjörðum.
Búist er við hvassri austanátt með snjókomu eða skafrenningi.
Í ábendingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar segir að með hvassri suðaustanátt sem gangi yfir suðvestanvert landið megi reikna með snörpum hviðum, allt að 40 metrum undir Hafnarfjalli og á utanverðu Kjalarnesi um og upp úr klukkan 15. Veðrið gengur hratt yfir og það versta stendur stutt, segir í ábendingum veðurfræðings.
Hlýnandi veður í kvöld
Annars byrjar dagurinn í dag rólega veðurlega séð, breytileg átt og bjart með köflum en lítilsháttar él norðan- og austantil. Frost um mestallt land.
Það gengur í austan og suðaustan 13–20 með snjókomu eða slyddu eftir hádegi og síðar rigningu. Þurrt framan af norðanlands, snjókoma með köflum undir kvöld. Hlýnandi veður og hiti að sjö stigum í kvöld.
Á morgun verður suðvestan hvassviðri eða stormur með skúrum eða slydduéljum en það dregur úr vindi og úrkomu eftir hádegi. Það snýst í austlæga átt 10–15 síðdegis með rigningu eða slyddu, fyrst sunnanlands. Hiti að átta stigum og svalast á Vestfjörðum.
Nafnalisti
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 219 eindir í 15 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 13 málsgreinar eða 86,7%.
- Margræðnistuðull var 1,52.