Ámælisverð vinnubrögð að mati minnihluta
Ritstjórn mbl.is
2025-04-01 12:34
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og áheyrnafulltrúi Framsóknarflokksins í atvinnuveganefnd gera alvarlegar athugasemdir við frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um að afturkalla kvótasetningu grásleppu sem samþykkt var á síðasta ári. Segja þeir það illa undirbúið og í trássi við venju um að eiga samráð við hagaðila eða mat á áhrifum.
„Undirritaðir leggjast eindregið gegn frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða. Frumvarpið er hroðvirknislega unnið og stríðir gegn öllum reglum og venjum um vandaða lagasetningu,“ segir í sérstakri bókun minnihluta atvinnuveganefndar.
Kvótasetning grásleppu átti sér nokkuð langan aðdraganda og má rekja aftur til ársins 2020 þegar þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, lýsti áformum um slíka lagasetningu. Vegna málsins undirrituðu 244 grásleppusjómenn, sem þá var 54% allra grásleppuveiðileyfishafa, yfirlýsingu þar sem lýst var fullum stuðningi við kvótasetningu tegundarinnar.
Í bókun þingmanna minnihlutans segjast þeir telja „ámælisvert að nefndin leggi fram frumvarp sem er jafn íþyngjandi í garð borgaranna og hér um ræðir án þess að lagst sé í neina undirbúningsvinnu, s.s. samráðs við hagaðila, mat á áhrifum eða sjónarmiða sérfræðinga aflað. Vinnubrögð nefndarinnar í þessu máli eru henni og Alþingi ekki til sóma og mótmæla undirritaðir framlagningu málsins harðlega.“
Skapi ríkinu bótaskyldu
Þingmennirnir segja að kvótasetning grásleppu hafi stuðlað að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. „Þann árangur á nú að gera að engu, auk þess að svipta grásleppusjómenn þeim atvinnuréttindum sem þeim voru tryggð með lögum nr. 102/2024. Þetta hyggst meirihluti atvinnuveganefndar gera í trássi við ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins og hinnar stjórnskipulegu meðalhófsreglu.“
Benda þeir á að það sé óumdeilt að atvinnuréttindi njóti verndar stjórnarskrár og að það hafi verið staðfest í dómum Hæstaréttar Íslands.
„Þrátt fyrir það leggur meirihluti atvinnuveganefndar til að grásleppusjómenn verði sviptir þessum réttindum án þess að minnst sé á fyrirsjáanlega skaðabótaskyldu íslenska ríkisins verði frumvarpið að lögum. Er í greinargerð frumvarpsins að engu vikið að því hvernig meðalhófs er gætt og verður ekki annað ráðið en að meirihluti nefndarinnar vaði í þeirri villu að svipting atvinnuréttinda líkt og mælt fyrir um í frumvarpinu geti átt sér stað án þess að baka ríkinu skaðabótaskyldu,“ segir í bókuninni.
Nafnalisti
- Kristján Þór Júlíussonþáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 382 eindir í 15 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 13 málsgreinar eða 86,7%.
- Margræðnistuðull var 1,64.