Hélt að nota ætti bíl fullan af fíkniefnum í kvikmyndaverkefni hjá Balta
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
2025-03-28 19:25
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Aðalmeðferð hófst í dag í stærsta metamfetamín-máli Íslandssögunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fjórir eru ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnalagabrot og tvö önnur fyrir hlutdeild í þessum brotum.
Í tilkynningu frá lögreglu frá þessum tíma segir að lagt hafi verið hald á tæplega 6 kíló af metamfetamíni. Þar segir jafnframt að þetta sé mesta magn af metamfetamíni, sem gengur líka undir nafninu kristall, sem lögregla hafi lagt hald á í einu máli. Sex voru handteknir en einum var sleppt úr haldi að lokinni skýrslutöku.
Lögregla fór einnig í húsleit á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins, naut aðstoðar Tollsins, embættis héraðssaksóknara og sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Ekki ókunnur innflutningi á fíkniefnum
Þetta var fyrsti dagur aðalmeðferðarinnar og skýrslutökur yfir öllum sakborningum og hinum ýmsu vitnum á dagskrá. Fyrsta skýrslutakan dróst um klukkutíma og riðlaðist dagskráin við það.
Fyrstur til skýrslutöku í dómsal í morgun var annar tveggja mannanna sem talinn er hafa skipulagt innflutning fíkniefnanna.
Maðurinn, Sigurður Ragnar Kristinsson, er ekki ókunnur innflutningi á fíkniefnum og hefur meðal annars verið sakfelldur áður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með aðild að Skáksambandsmálinu svokallaða. Hann var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í héraðsdómi en Landsréttur mildaði refsinguna niður í þrjú og hálft ár.
Málið snýst um fornbíl af gerðinni Jagúar. Tveir menn fóru til Evrópu til að festa kaup á bílnum, hann var síðan fluttur sjóleiðis til Íslands og í honum leyndust um það bil 6 kíló af metamfetamíni. Fyrir þetta áttu mennirnir, sem voru heimilislausir á þessum tíma, að fá greidda um hálfa milljón króna samanlagt. Við skýrslutöku í dag kom fram að götumarkaðsvirði efnanna er sagt um 200 milljónir.
Sigurði er gert að sök skipulögð brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnalagabrot. Fyrir dómi í dag sagðist hann hafa verið fenginn til að finna mann sem gæti farið út til Belgíu, keypt bíl og flutt hingað heim. Hann fékk mann til að fara út fyrir sig og sá tók með sér æskuvin sinn.
Tvímenningarnir fóru fyrst til Ítalíu og þaðan til Belgíu þar sem þeir keyptu bílinn. Hann var síðan fluttur um borð í flutningaskip í Hollandi sem var siglt til Íslands.
Sigurður sagðist fyrir dómi í dag ekki hafa séð bílinn fyrr en daginn sem hann var handtekinn. Þá hafði bíllinn verið fluttur úr Þorlákshöfn upp í Breiðholt þar sem annar maður sem var líka að skipuleggja innflutninginn tók við honum. Þegar honum tókst ekki að ná eiturlyfjunum undan bílnum var hann fluttur í hesthúsahverfið í Víðidal. Sigurður, sem að eigin sögn er mikill bílaviðgerðamaður, tók þá til við að skrúfa undan bílnum til að ná í fíkniefnin.
Lögregla fékk ábendingu um að Sigurður ætlaði að flytja inn fíkniefni og náði að grípa inn í, skipta fíkniefnunum út fyrir gerviefni og koma fyrir myndavélum. Upptaka náðist því af því þegar hann skrúfar undan bílnum og nær í fíkniefnin á meðan hinn maðurinn, sem talinn er hafa skipulagt málið, stendur hjá honum og segir honum til. Kærasta Sigurðar var einnig viðstödd og bar pakka af „fíkniefnunum“ inn í hesthús í Víðidal.
Hafði reynslu af innflutningi á bílum í gegnum tíðina
Við skýrslutöku fyrir dómi í dag kom fram að annar mannanna, sem fenginn var til að fara erlendis og kaupa bílinn, sagðist halda að hann væri fyrir kvikmyndaverkefni á vegum Baltasars Kormáks. Sá sagðist hafa reynslu af innflutningi á farartækjum í gegnum tíðina.
Hann sagðist hafa séð auglýsingu þar sem auglýst var eftir gömlum bílum fyrir kvikmyndaverkefnið og sagðist hafa heyrt að borgað verði veglega fyrir það. Hann sagðist vonast til að fá vinnu við að vera með bílinn þar.
Í framburði hans kom fram að hann og maðurinn sem fór með honum erlendis séu æskuvinir. Þeir hafi þekkst síðan þeir voru 13 ára og á þessum tíma þegar honum bauðst að fara út hafi þeir verið heimilislausir og búið saman í bíl.
Hann sagði þá fyrst hafa farið til Ítalíu þar sem hann sjálfur lenti í hrakningum og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi eftir árás. Þar hafi hann týnt gleraugunum sínum og sagðist fyrir dómi aðeins hafa 10 prósent sjón án þeirra.
Þar hafi leiðir þeirra tveggja skilið þar til þeir hittust aftur í Belgíu. Þá var hinn maðurinn búinn að ganga frá kaupum á bílnum, ásamt öðrum skipuleggjenda málsins og haldið til Íslands eftir.
Eftir að til landsins kom hafi þeir leyst bílinn út úr tollinum, náð í hann í Þorlákshöfn og keyrt upp í Breiðholt þangað sem þeir skiluðu honum til annars skipuleggjendans.
Hann þvertók fyrir það í dag að hafa haft vitneskju um að í bílnum væru falin fíkniefni. Á upptöku heyrist hann hins vegar segja að hann hafi vitað um sex kíló af „ís“ sem væru falin í bílnum. Metamfetamín, sem gengur einnig undir nafninu kristall, er stundum kallað ís.
Maðurinn dvelur núna á meðferðargangi á Litla-Hrauni en fyrir dómi í dag kom fram að hann hafi drukkið mikið á þessum tíma og fyrir það.
Með væga heilabilun og glímir við minnisleysi
Hinn maðurinn sem fór með erlendis að sækja bílinn glímir við mikið minnisleysi. Fyrir dómi kom fram að hann væri með væga heilabilun. Svör hans við spurningum í dómsal voru mjög takmörkuð og hann sagðist ekki muna flest atriði.
Geðlæknir, sem gerði mat á manninum fyrir aðalmeðferðina í byrjun árs, sagði fyrir dómi í dag að hann hefði glímt við áfengi í óhófi í mörg ár. Neyslan hafi haft mikil áhrif á hann, hann hafi búið í eigin húsnæði, síðan leigt og síðustu mánuði fyrir málið búið í bíl.
Læknirinn segir vísbendingar um að hann sé með einhvers konar glöp. Áfengi hafi haft áhrif á ástand mannsins en hann telur þó að hann skilji muninn á réttu og röngu.
Maðurinn sé klár á því að það sem hann hafi gert samræmist ekki góðum siðum og að hann skilji orsök og afleiðingu. Hann væri því sakhæfur og yrði hann fundinn sekur myndi refsing bera árangur. Læknirinn segist hafa áhyggjur af því að hann geti orðið leiksoppur annarra aðila.
Hræddur um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar
Hinn maðurinn sem talinn er standa að skipulagningu málsins lýsti því fyrir dómi í dag að hann hafi verið beðinn um að fara til erlendis og kaupa bílinn, hann ætti að nota í kvikmyndaverkefni. Hann sagðist hafa hitt tvímenningana í Belgíu og átt milligöngu með öðrum þeirra um bílakaupin. Maðurinn er albanskur og naut liðsinnis túlks.
Hann lýsti því að óþekktur maður, sem hann kallaði X, hafi fengið hann til að fara erlendis og að það hefðu meðal annars menn á Litla-Hrauni gengið í skrokk á honum eftir að hann var vistaður þar vegna málsins.
Hann sagðist ekki vilja greina frá því hver þessi maður væri af ótta um öryggi sitt. Hann sagði barnsmóður sína og dóttur hafa flúið aftur til Albaníu þar sem hann óttaðist um öryggi þeirra.
Maðurinn sagðist hafa verið á bágum stað fjárhagslega þegar þetta verkefni kom upp. Þetta hafi verið nálægt mánaðamótum og hann hafi verið blankur og borgað háa leiguþ
Hann sagði þetta hafa verið gott tækifæri fyrir sig til að hjálpa fjölskyldu sinni þar sem barnsmóðir hans hafi ekki mátt vinna á Íslandi. Hann er þó enn giftur íslenskri konu en sagði fyrir dómi að þau væru að skilja.
Maðurinn lýsti fyrir dómi árás sem hann varð fyrir á Litla-Hrauni, stuttu eftir að hann kom þangað til að sitja gæsluvarðhald vegna málsins. Hann segir menn sem hann þekkti ekki hafa ráðist á sig með þeim afleiðingum að hann hafi kinnbeinsbrotnað og þurft að fara í aðgerð.
Þetta túlkaði hann sem skilaboð frá óþekkta manninum X um að hann ætti að halda kjafti.
Maðurinn segist ekki hafa vitað af fíkniefnunum í bílnum fyrr en eftir að bíllinn kom hingað til lands. Hann sagðist fyrir dómi hafa gert ráð fyrir því að fá greitt fyrir komuna til Íslands en maðurinn, sem hann kallaði X, hafi neitað að greiða honum fyrr en verkefnið væri búið. Maðurinn hafi þá sagt honum að það væru fíkniefni í bílnum og hann þyrfti að ná þeim úr honum.
Maðurinn sagðist fyrir dómi í dag að honum liði eins og verið væri að spila með hann.
Eins og fram kom að ofan fékk maðurinn hinn skipuleggjandann til að fjarlægja fíkniefnin undan bílnum við hesthús í Víðidal. Þá var lögregla búin að fylgjast með mönnunum í nokkurn tíma og handtók þá stuttu eftir að þeir náðu fíkniefnunum undan bílnum.
Aðalmeðferðin heldur áfram á mánudag og á að ljúka þá.
Nafnalisti
- Baltasar Kormákurleikstjóri
- Litla-Hraunifangelsi
- Sigurður Ragnar Kristinssondæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri verkatakafyrirtækisins SS verks ehf.
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1471 eind í 76 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 74 málsgreinar eða 97,4%.
- Margræðnistuðull var 1,57.