Samþykktu breytingar á stjórnarskrá Þýskalands
Samúel Karl Ólason
2025-03-18 16:12
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Þingmenn í neðri deild þýska þingsins samþykktu í dag stjórnarskrárbreytingar sem ætlað er að auðvelda ríkinu að auka fjárútlát til hernaðaruppbyggingar og varnarmála. Breyting snýr að skuldaþaki Þýskalands og gerir meðal annars ríkinu auðveldar að skuldsetja sig, sé peningunum ætlað til varnarmála.
Skuldaþak þetta er í raun eitt prósent af vergri landsframleiðslu Þýskalands en breytingarnar gera fjárútlát til varnarmála undanþegin því. Fréttamaður DW segir að breytingarnar feli í raun í sér að Friedrich Merz, verðandi kanslari, hafi frjálsar hendur þegar kemur að hernaðaruppbyggingu í Þýskalandi.
Tvo þriðju þingmanna, eða 489, þarf til að gera breytingar á stjórnarskrá en í heildina samþykktu 513 þingmenn þær og 207 greiddu atkvæði gegn þeim. Leiðtogar Kristilegra demókrata, Græningja og Sósíaldemókrata, komust nýverið að samkomulagi um breytingarnar og greiddu þingmenn þeirra flokka atkvæði með tillögunni.
Auk þess að auðvelda ríkinu að auka fjárútlát til varnarmála opnar breytingin á um fimm hundruð milljarða evra fjárútlát í sérstakan sjóð sem ætlað er til innviðauppbyggingar og náttúruverndar. Sá liður breytinganna er að miklu leyti til kominn vegna samkomulags Merz við Græningja.
Mikil uppbygging í Evrópu
Ráðamenn í Evrópu hafa komist að samkomulagi um verulega aukningu í fjárútlátum til varnarmála á næstu árum, hernaðaruppbyggingu og umbætur og uppbyggingu á hergagnaframleiðslu í Evrópu.
Sjá einnig: Samþykkja verulega aukin útgjöld til varnarmála
Markmiðið er að gerbreyta öryggiskerfi Evrópu og reiða mun minna á Bandaríkin en áður hefur verið gert. Þetta er í kjölfar þess að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og embættismenn hans hafa sagt að Evrópa verði að bera meiri ábyrgð á eigin öryggi og í kjölfar þess að Trump-liðar hafa fært Bandaríkin mun nær Rússlandi og jafnvel talað máli Rússa.
Sjá einnig: Kaninn selur langmest af vopnum en framtíðin óviss
Bæði herir Evrópu og hergagnaiðnaður heimsálfunnar hafa séð betri tíma. Frá því kalda stríðinu lauk á tíunda áratug síðustu aldar hafa ráðamenn í Evrópu varið sífellt minni fjármunum til varnarmála og hergagnaframleiðslu.
Nafnalisti
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- DWþýskur miðill
- Friedrich Merzþingflokksformaður Kristilegra demókrata
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 327 eindir í 16 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 14 málsgreinar eða 87,5%.
- Margræðnistuðull var 1,59.