Animality: Sýnir hvernig tilveran getur verið hreint helvíti fyrir aðrar verur en manninn
Vefritstjórn
2025-04-02 20:00
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Kristín Helga Ólafsdóttir skrifar:
Heimildarmyndahátíðin CPH: DOX fór fram í Kaupmannahöfn nú í mars, og þar var sýndur fjöldinn allur af myndum sem eru eins ólíkar og þær eru margar en eiga það allar sameiginlegt að vera heimildarmyndir. Í ár er eitt þema hátíðarinnar mannréttindi.
Það var ekki aðeins boðið upp á kvikmyndasýningar heldur líka fyrirlestra og listsýningar, sýndarveruleika-upplifun og fleira. Ég skellti mér á fyrirlestur í listasalnum í Charlottenburg sem er nálægt einum helsta túristastað Kaupmannahafnar, Nyhavn. Þar var fjallað um mannréttindi og hægt að fá lítinn bækling með mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég hafði aldrei kynnt mér hann almennilega fyrr og vissi til dæmis ekki að hann væri heilar 30 greinar og hefði verið gerður eftir seinni heimsstyrjöld svo ég varð margs vísari á þeim fyrirlestri, en ef það er eitthvað sem ég lærði þá er það að sáttmálinn er í raun ítrekað brotinn. Mannréttindavaktin er stofnun sem sér um að skrá öll brot svo hægt sé að sækja þau sem brjóta á mannréttindum fólks til saka einn daginn. Það hlýtur að vera erfitt starf, að skrásetja mannréttindabrot á hverjum degi, en mjög mikilvægt. Þau sem vinna þar geta ekki komið í veg fyrir þjóðarmorð eða önnur mannréttindabrot en með því að skrá þau er hægt að draga fólk til ábyrgðar eftir að öll kurl eru komin til grafar.
Ég upplifði í rauninni stundum það sama á þessari heimildarmyndahátíð. Það að horfa á sumar myndir var eins og að verða vitni að ofbeldi en einungis skrásetningu á því, ég upplifði einhvers konar hjálparleysi sem áhorfandi. Þó voru mjög margar myndir sem voru erfiðar en hjartnæmar og færðu mér von. Ég ætla að enda á því en fyrst að frumsýningu á heimildarmyndinni Animality eftir Ai Weiwei.
Hann er einn þekktasti listamaðurinn frá Kína, að minnsta kosti í vestrænum myndlistarheimi. Ai Weiwei notar alls kyns miðla í verkum sínum og notar oft fjölda sem verkfæri. Eitt verka hans samanstóð af hundrað milljónum sérhandgerðum postulíns-sólblómafræjum sem fylltu 1.000 fermetra niður á tíu sentímetra dýpi í sal Tate Modern listasafnsins í London. Það var þó ekki hann sem handgerði þau öll sjálfur, heldur færði framleiðsla þess verks heilum kínverskum bæ vinnu. Þessi stóra innsetning, sem var tilbúin árið 2010, skorar í raun á áhorfandann að hugleiða þemu eins og séreinkenni fólks, fjöldaframleiðslu og kraft sameiginlegs átaks. Annað dæmi um verk eftir hann er Remembering, sem var sett upp utan á vegg listasafnsins Haus der Kunst í Munchen árið 2009. Þar notaði hann 9000 skólatöskur í rauðum, bláum, gulum og grænum litum, til að stafa út orðin „Hún lifði hamingjusöm í sjö ár í þessum heimi“ á mandarín-kínversku. Kveikjan að verkinu er stór jarðskjálfti í Sichuan-héraði í Kína árið 2008, þar sem skólar hrundu með þeim afleiðingum að þúsundir barna létu lífið. Hver bakpoki stendur fyrir líf barns sem fórst í jarðskjálftanum.
Hann hefur verið kallaður aktívisti vegna listaverka sinna og hefur ekki alltaf verið vel liðinn í heimalandinu. Kínverska ríkisstjórnin hefur meðal annars gert hann útlægan úr landinu um tíma og haldið honum í stofufangelsi. Ég sá heimildarmynd eftir hann sem ber heitið Animality. Fyrir myndina var spurt og svarað þar sem Ai Weiwei sat fyrir svörum á sviðinu, sagði að hann hefði reynt að nálgast umfjöllunarefnið án fordóma, að við kæmum frá mismunandi menningarheimum og byggjum við mismunandi aðstæður. Í myndinni er enginn sögumaður og reyndar engin tónlist heldur.
Myndin er samansafn brota, eða stuttmynda frá mismunandi löndum, mikið er tekið upp í Kína en líka í Brasilíu, Noregi og Tíbet svo eitthvað sé nefnt. Samheiti allra senanna var samband manna og dýra.
Það er mikil normaliseruð grimmd í myndinni. Það fyrsta sem við sjáum eru kínverskir lögreglumenn sem vinna við það að drepa flækingshunda. Þeir smala þeim saman og berja þá svo með löngu priki af miklu afli. Hundarnir liggja svo á götunni og þeim blæðir út. Þar á eftir fáum við að sjá kúabú. Þar er stutt viðtal við bónda sem segir að það skili miklum hagnaði að vera með búpening ef maður gerir það rétt. Við fáum svo að fylgjast með þegar þeim er smalað inn í sláturklefa, skotnar í hausinn og svo hvernig líflaus líkami þeirra er flakaður og skorinn í marga bita. Mér var óglatt og ég grét, ég gekk út eftir rúmlega klukkutíma en þá hafði ég alveg fengið nóg. Það er hollt að hafa skilning á hvernig við mannfólkið komum kerfisbundið fram við dýr eins og þau séu ekkert nema vörur og eitthvað sem er hægt að græða pening á að selja líkama þeirra, niðurskorna í mat, eða sem sirkusdýr sem skemmta börnum og fólki.
Við fáum að sjá kvíaeldi í Noregi, við sjáum sirkusdýr, apa á stultum sem er sleginn ef hann dettur og risastórt tígrisdýr í of litlu búri. Höfrungaveiðar, kjúklingabú, ég frétti að það hefði líka verið sýnt úr minkabúi í Danmörku. En í covid voru allir minkar í minkabúum í Danmörku drepnir og grafnir í jörðu, því þeir voru taldir smitaðir af sérstöku afbrigði covid. Þar voru 17 milljón dýr drepin.
Þetta var að mínu mati hryllingsmynd, aðallega vegna þess hvað þetta var normaliserað ofbeldi. Konur hengdu hænur upp á fótunum, enn lifandi upp á færiband og þær færðust örlítið lengra og drukknuðu við það að fara með hausinn ofan í vatn sem beið þeirra. Fólkið var bara í vinnunni.
Animality
Þetta er hryllingsmynd af því við sjáum hvernig maðurinn hefur búið til kerfi til að misnota málleysingja, og finnst í lagi að drepa sum kerfislægt en ekki önnur. Þetta algjörlega tvöfalda siðferði með að það sé ekkert mál að drepa kú og borða hamborgara, en ekki í lagi að drepa hund sem er ekki götuhundur.
Það sem hræðir mig mest er aftengingin. Við sjáum lifandi kú, svo líkama skorna niður í bita og svo í næstu senu erum við komin á fínan veitingastað þar sem fólk pantar mat sem inniheldur þessa niðurskornu líkama.
Ég skil að fólk vilji ekki hugsa, því það er of erfitt að hugsa sér að við séum þátttakendur í því að binda enda á líf einhvers. En það að sjá þetta svona frá A-Ö hafði mikil áhrif á mig.
Hvernig við komum fram við náungann ætti að segja eitthvað um okkur. Hvernig við komum fram við minniháttar segir enn meira um okkur. Hvernig við skellum skollaeyrum við ofbeldi ætti að segja eitthvað um okkur líka.
Mamma reynir að hlífa mér fyrir ofbeldi heimsins, hún segir mér að halda fyrir augun þegar sýnt er myndefni úr sláturhúsum í íslenskum fréttum. Ég skil að hún vilji hlífa mér en mér finnst mikilvægt að líta ekki undan. Þetta er heimurinn sem við búum í og ég vil vita hvað er í gangi eins erfitt og það er, svo ég geti tekið ákvarðanir um hvernig ég haga mínu lífi út frá því.
Skömm og eftirsjá er eitthvað sem manneskjur forðast að upplifa og með einum eða öðrum hætti reynum við að komast hjá, með því að hætta að hugsa um það óþægilega, réttlæta það einhvern veginn fyrir okkur, eða fela sannleikann fyrir okkur sjálfum. Það er léttara að vita ekki, ignorance is bliss.
Ég gekk út af myndinni áður en hún kláraðist eins og áður sagði, það var verið að sýna svín og ég var hreinlega komin með nóg. Mér leið illa en ég hef aldrei verið jafn ákveðin í að reyna að standa við ákveðin gildi í lífinu, því að velja kjötlausan lífsstíl og að kaupa mig aldrei inn á sirkussýningu með dýrum. Þetta er þó heimurinn sem við búum í og meðvitað eða ómeðvitað erum við öll þátttakendur.
Ég hef skilning á að fólk þarf að lifa af, fólk veiðir sér til matar til að fjölskylda þeirra lifi af. Mér fannst samt erfitt að horfa á ofbeldi og ætla að taka mínar ákvarðanir um hvernig ég haga mínu lífi út frá þeim upplýsingum sem ég hef. Ég hugsaði um þema hátíðarinnar: Mannréttindi, og hvernig Ai Weiwei tókst með mynd sinni að snúa upp á það á ákveðinn hátt með því að sýna fram á að í heimi þar sem engin mannréttindabrot eiga sér stað endilega getur tilveran verið hreint helvíti fyrir aðrar verur en manninn. Ég hugsaði líka hvort það væri ekki alveg eins hægt að búa til dýraréttindasáttmála, rétt eins og Mannréttindasáttmálann.
En til að ljúka þessu á aðeins jákvæðari nótum þá eru mjög margar mismunandi myndir á hátíðinni og ég fór á eina þar sem dýr var í aðalhlutverki og það var borin mikil virðing fyrir þeirri persónu. Í frönsku myndinni A demain sur la lune eftir leikstjórann Thomas Balmes er hesturinn Peyo í aðalhlutverki, hann er ásamt þjálfara sínum tíður gestur á líknardeild í frönskum smábæ. Þar kynnumst við fólki sem er við endastöð lífs síns vegna erfiðra sjúkdóma, en á mjög falleg samskipti við hestinn Peyo. Þegar Peyo kemur á deildina geta sjúklingarnir einbeitt sér að einhverju öðru en veikindum sínum. Sum dýr hafa alveg magnaða eiginleika, sem við mennirnir höfum lítinn skilning á, en Peyo er mjög næmur á dauðann. Hann finnur það víst á lyktinni eða einhverjum ferómónum þegar fólk á mjög stutt eftir og er alveg við það að fara yfir móðuna miklu. Þetta var mjög hjartnæm mynd sem lét mig hugsa um hvað lífið er hverfult og mikilvægt að nýta hverja stund sem maður fær á þessari jörð. Með samúð fyrir sjálfum sér og öðrum.
Tónlistarkonan Kristín Helga Ólafsdóttir, eða K.óla eins og hún kallar sig, flutti pistil sinn í Lestinni á Rás 1. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.
Nafnalisti
- A-Överkefni
- Ai Weiweikínverskur listamaður
- Charlottenburghverfi
- CPHstjórnarandstöðuflokkur
- K.ólatónlistarkona
- Kristín Helga Ólafsdóttir
- Peyobelgískur myndasöguteiknari
- Tate Modernlistasafn
- Thomas Balmes
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1679 eindir í 78 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 72 málsgreinar eða 92,3%.
- Margræðnistuðull var 1,75.