„Það komu engar trúnaðarupplýsingar fram í þessum samskiptum“
Grétar Þór Sigurðsson
2025-03-20 22:45
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að ráðuneyti sitt hafi ekki rofið trúnað þegar erindi barst um persónuleg mál mennta- og barnamálaráðherra. Þetta sagði Kristrún í viðtali við fjölmiðla á tíunda tímanum.
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan í tveimur hlutum.
Kristrún segir ráðuneytinu hafi borist erindi þar sem óskað var eftir fundi með forsætisráðherra um fráfarandi mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildi Lóu Þórsdóttur. Ekkert hafi komið fram um erindi málsins.
Hún segir að í kjölfarið hafi aðstoðarmaður sinn átt í samskiptum við aðstoðarmann Ásthildar Lóu, þar sem málið varðaði hana og að tekið hefði verið fram að hún hefði mátt sitja fundinn sem um var beðið.
Kristrún segir að það hafi ekki verið fyrr en í dag sem hún fær upplýsingar um að efni bréfsins sem upphaflega barst ráðuneytinu hafi í meginatriðum verið efnislega rétt. Hún átti svo fund með menntamálaráðherra sem tekur í kjölfarið ákvörðun um að segja af sér.
Kristrún segir málið vera mjög persónulegt þar sem það varðar fjölskyldu ráðherra. Af virðingu við hlutaðeigandi ætli hún ekki að tjá sig um efnistökin.
Kristrún segir það til marks um alvarleika málsins að Ásthildur Lóa hafi ákveðið að segja af sér.
Í viðtali sem sýnt var í Kastljósi í kvöld sagði Ásthildur Lóa að hún hafi fengið upplýsingar frá aðstoðarmanni forsætisráðherra um hver sendi inn erindið. Viðtalið má sjá í meðfylgjandi hlekk hér að neðan.
Ásthildur Lóa hringdi í konuna sem svaraði ekki. Því næst fór hún heim til konunnar til að ræða við hana.
Forsætisráðuneytið hafði fyrr í kvöld sent frá sér tilkynningu þar sem því var hafnað að ráðuneytið hefði rofið trúnað með upplýsingagjöf til mennta- og barnamálaráðherra.
Þar segir, rétt eins og Kristrún sagði fjölmiðlum, að ráðuneytinu hefði borist beiðni um fund án þess að fundarefnið væri tilgreint. Beiðnin barst ráðuneytinu 9. mars. Tveimur dögum síðar barst ítrekun þar sem fram kom að það væri í góðu lagi að mennta- og barnamálaráðherra sæti fundinn.
„Þar sem beiðnin var um fund með bæði forsætisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra spurði aðstoðarmaður forsætisráðherra aðstoðarmann mennta- og barnamálaráðherra hvort hann þekkti til sendanda eða vissi um hvað málið snerist. Svo var ekki. Önnur samskipti áttu sér ekki stað um málið.“
Í kjölfarið var óskað eftir frekari skýringum á erindum. Svar barst 13. mars þar sem gerð var grein fyrir tilefni fundarbeiðninnar. „Samskipti um það áttu sér ekki stað milli forsætisráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis fyrr en í dag.“
Nafnalisti
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Kristrún Frostadóttirformaður
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 400 eindir í 25 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 25 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,71.