Vill opna augu landsmanna fyrir félagslegri einangrun
Hugrún Hannesdóttir Diego
2025-03-28 04:10
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur hrint af stað vitundarvakningu um félagslega einangrun undir yfirskriftinni „Tölum saman.“ Markmiðið er að vekja athygli á alvarlegum áhrifum félagslegrar einangrunar og hvernig allir geti tekið þátt í lausn vandans. Átakið hófst formlega í gær.
Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra segir einmanaleika og félagslega einangrun vera þögla ógn. Markmiðið með verkefninu „Tölum saman“ sé að opna augu fólks og vekja athygli á samfélagslegri ábyrgð allra landsmanna þegar kemur að félagslegri einangrun innan samfélagsins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreindi einmanaleika sem alþjóðlegan lýðheilsuvanda árið 2023. Félagsleg einangrun er talin auka hættu á ýmsum heilsufarsvandamálum, sér í lagi hjá eldra fólki. Bandarískur landlæknir líkti þá áhrifum einmanaleika á heilsufar fólks við það að reykja fimmtán sígarettur á dag.
Stjórnvöld veittu á síðasta ári styrki til sveitarfélaga til að ráða svokallaða tengiráðgjafa, sem ætlað var að rjúfa einangrun eldra fólks, meðal annars með símtölum og heimsóknum. Inga segir að samhliða því sé unnið að öðrum verkefnum til að draga úr félagslegri einangrun.
Í bæklingi um verkefnið „Tölum saman“ er farið yfir ýmis einkenni einangrunar og ráð. Fólk er hvatt til þess tala við þá sem það grunar að glími við félagslega einangrun. Bæklinginn má finna með því að smella hér.
Nafnalisti
- Inga Sælandformaður
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 210 eindir í 13 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 11 málsgreinar eða 84,6%.
- Margræðnistuðull var 1,51.