Barnamálaráðherra átti barn með unglingspilti sem hún leiðbeindi
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
2025-03-20 18:00
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Barnamálaráðherra átti í ástarsambandi við fimmtán ára pilt og eignaðist með honum son ári síðar fyrir rúmum þremur áratugum, þegar hún sjálf var 22 ára. Hún kynntist piltinum þegar hún leiddi unglingastarf í trúarsöfnuði í Kópavogi, þangað sem hann leitaði vegna erfiðra aðstæðna heimafyrir. Barnsfaðir hennar segir hana hafa tálmað sig en á sama tíma krafið sig um meðlög í átján ár.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir leiddi unglingastarf í trúarsöfnuðnum Trú og líf þegar hún kynntist piltinum. Hann var þá 15 ára. Hún var 22 ára.
Fréttastofa hafði samband við manninn, Eirík Ásmundsson, sem gaf ekki kost á viðtali en staðfesti hins vegar að þau hefðu átt í ástarsambandi, sem hafi hafist fljótlega eftir að hann leitaði í trúarsöfnuðinn. Barn kom undir fljótlega eftir kynni þeirra, þá var pilturinn nýorðinn sextán ára og Ásthildur Lóa 23 ára.
Einstaklingar yngri en átján ára teljast börn, í laganna skilningi. Samræðisaldur er hins vegar fimmtán ár, en var áður fjórtán ár. Þetta er þó ekki algilt því óheimilt er að hafa samræði við manneskju undir átján ára ef viðkomandi er til dæmis kennari hennar eða leiðbeinandi. Þá er sömuleiðis óheimilt að hafa samræði við manneskju ef hún er undir átján, er háður viðkomandi fjárhagslega, í atvinnu sinni, eða sem skjólstæðingur í trúnaðarsambandi. Þetta getur varðað allt að þriggja ára fangelsi.
Eiríkur segist aldrei hafa upplifað sig sem fórnarlamb í þessum aðstæðum, en tekur þó fram að hann hafi verið á erfiðum stað í lífinu þegar hann leitaði í trúarsöfnuðinn. Æska hans, og sérstaklega unglingsárin, hafi reynst honum mjög þung og aðstæður heimafyrir verið erfiðar. Hann hafi því ákveðið að leita sér hjálpar í trúarsöfnuðnum.
Tálmaði umgengni
Ástarsamband þeirra tveggja var ávallt leynilegt en pilturinn fékk að vera viðstaddur fæðingu sonar síns og að umgangast hann fyrsta árið. Það hafi þó gengið upp og ofan því pilturinn var staddur illa fjárhagslega, með lítið bakland og ekki með bílpróf en þau bjuggu í sitthvoru sveitarfélaginu.
Ásthildur Lóa átti fyrstu mánuðina frumkvæði að því að finna tíma fyrir feðgana til þess að hittast og lagði sig fram við það. Það breyttist þó eftir að hún kynntist eiginmanni sínum, að sögn Eiríks. Eiríkur leitaði til dómsmálaráðuneytisins og fjölskylduþjónustu kirkjunnar og fór fram á umgengni við drenginn. Fréttastofa hefur fengið gögn sem staðfesta það. Þar kemur líka fram að móðirin hafi hafnað honum um umgengni.
Eiríkur segist hafa fengið samþykktar tvær klukkustundir í mánuði með drengnum, á heimili Ásthildar Lóu og eiginmanns hennar. Það er einn sólarhringur á ári. Ásthildur Lóa krafði hann hins vegar um meðlag og maðurinn greiddi það í átján ár.
Flokkur fólksins hefur verið afdráttarlaus þegar kemur að tálmunum og kallað eftir því að gera tálmun refsiverða, svo varði allt að fimm ára fangelsi.
Forsætisráðuneytið virðist hafa rofið trúnað um málið
Forsætisráðuneytið fékk erindi um þetta mál á sitt borð fyrir viku síðan, frá aðstandanda barnsföður ráðherra. Starfsmenn ráðuneytisins fullvissuðu sendanda um að öll erindi væru trúnaðarmál.
Ásthildur Lóa fékk hins vegar upplýsingar um inntak erindisins og hver það var sem sendi það. Hún bæði hringdi í viðkomandi og mætti á heimili hans í kjölfarið.
Ásthildur Lóa hefur gefið fréttastofu kost á viðtali, sem verður sýnt í sjónvarpi síðar í kvöld.
Nafnalisti
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Eiríkur Ásmundsson
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 560 eindir í 34 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 34 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,60.