Sæki samantekt...
„Sveitarstjórnarmenn í Garðabæ og Hafnarfirði ættu að taka skynsama ákvörðun og setja málið í hendur íbúa með kosningu um sameiningu Garðabæjar og Hafnarfjarðar í tengslum við næstu sveitarstjórnarkosningar, þannig virkar lýðræðið.“
Þetta segir Ólafur Ingi Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. Ólafur skrifar aðsenda grein á vef Vísis þar sem hann tíundar kosti og ókosti þess að sveitarfélögin Hafnarfjörður og Garðabær sameinist. Sér hann persónulega afar fáa ókosti við hugsanlega sameiningu.
Ótvíræðir kostir
„Sé horft er til kosta og ókosta sameiningu sveitarfélaganna má færa rök fyrir því að kostir sameiningar séu ótvíræðir,“ segir hann og bendir á að samstarf sveitarfélaganna gæti verið mun betra á mörgum sviðum.
Hann segir að lítið samstarf sé í dag á milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar þegar kemur að rekstri og þjónustu fyrir utan nokkra málaflokka sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um, meðal annars reksturs Sorpu og Strætó, heilbrigðiseftirlit og heimahjúkrun sem eru sameiginlega rekin af Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
„Sameiginlegt sveitarfélag Garðabæjar og Hafnarfjarðar með um 54000 íbúa yrði mun betur í stakk búið til að auka þjónustu við íbúa og fyrirtæki. Umhverfis- og skipulagsmál færu á eina hendi, og sama væri upp á teningnum með aðra mikilvæga málaflokka líkt og fræðslu- og félagsmál. Hægt væri að fara í mikla uppbyggingu íbúða á miðsvæði sameiginlegs sveitarfélags með öflugum almenningssamgöngum og samnýtingu innviða, eitthvað sem við öll viljum sjá, og myndi slíkt vafalaust skila mikilli hagræðingu og sparnaði fyrir skattgreiðendur. Ávinningurinn og sparnaðurinn í rekstri yrði mikill,“ segir hann.
Ókostur fyrir þá sem sækjast eftir áhrifum
Hann segir erfitt að finna ókosti sameiningar Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
„Nefna má að með sameiningu mun verða einn bæjarstjóri, vafalaust ókostur fyrir þau sem sækjast eftir bæjarstjórastólunum, einnig verður ein bæjarstjórn, eitt ráð og ein nefnd í hverjum málaflokki sem er ókostur fyrir þau sem ætla sér að sækjast eftir áhrifum í öðru hvoru sveitarfélaginu. Með sameiningu sameinast öll stjórnsýslan á einum stað sem leiðir til þess að einhverjir í stjórnendastöðum missa stöðu sína,“ segir hann.
Hann bendir á að sveitarstjórnarmenn komi og fari, sumir stoppi stutt en aðrir lengur og því eigi skammtíma- og eiginhagsmunir ekki að ráða för umfram hagsmuni íbúa. Hvetur hann sveitarstjórnir Hafnarfjarðar og Garðabæjar til að setja málið í hendur íbúa með kosningu.
Nafnalisti
- Ólafur Ingi Tómassonformaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 396 eindir í 17 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 15 málsgreinar eða 88,2%.
- Margræðnistuðull var 1,60.