Nánast allir telja útgerðirnar geta greitt hærri veiðigjöld
Bjarki Sigurðsson
2025-04-04 11:53
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Rúmlega sextíu prósent þjóðarinnar eru hlynntir frumvarpi atvinnuvegaráðherra um breytingar á veiðigjöldum. 94 prósent telja að útgerðirnar séu færar um að greiða hærri veiðigjöld en þær gera í dag.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu. Svarendur voru spurðir hversu hlynntir þeir væru frumvarpinu, sem snýr að allt að tvöföldun á veiðigjaldi. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa sagt hækkunina geta valdið því að útgerðirnar fari að verka aflann erlendis.
Tæp 43 prósent sögðust mjög hlynnt þessu umdeilda frumvarpi en 20 prósent fremur hlynnt. Tæp sextán prósent voru í meðallagi hlynnt, níu prósent fremur andvíg og tæp þrettán prósent mjög andvíg.
Mikill meirihluti þeirra andvígu eru sjálfstæðismenn en Framsóknar- og Miðflokksmenn voru jafn hlynntur og andvígir. Íbúar á landsbyggðinni, þá sérstaklega á Austurlandi, er líklegastir til að vera andvígir frumvarpinu en kyn og tekjur virtust ekki skipta miklu máli.
Í niðurstöðunum kemur einnig fram að um þriðjungur þekkir frumvarpið vel, rúmur þriðjungur í meðallagi, og tæpur þriðjungur illa.
Að lokum voru svarendur spurðir hvort þeir telji almennt að útgerðarfélög á Íslandi geti greitt miklu hærri veiðigjöld, nokkru hærri veiðigjöld, aðeins hærri veiðigjöld eða ekki greitt hærri veiðigjöld. 45 prósent telja þau geta greitt miklu hærri gjöld, 30 prósent nokkru hærri, tæp nítján prósent aðeins hærri en 6,5 prósent ekki hærri. Því telja tæp 94 prósent að útgerðirnar geti greitt einhverskonar hærri gjöld.
Nafnalisti
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 230 eindir í 13 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 11 málsgreinar eða 84,6%.
- Margræðnistuðull var 1,69.