Verða að tryggja frið og öryggi í Úkraínu
Brynjólfur Þór Guðmundsson
2025-03-27 15:08
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að tvenns konar skilaboð þurfi að berast frá leiðtogafundi Evrópuríkja í París þar sem rætt er um frið í Úkraínu og öryggi landsins.
„Það er annars vegar að halda áfram þrýstingi á Rússa og ekki bakka með viðskiptaþvinganir og síðan í öðru lagi að Úkraína verði áfram styrkt í aðdraganda vopnahlés með því meðal annars að styrkja vopnaframleiðslu í Úkraínu.“
Forsætisráðherra sækir fundinn ásamt fjölda annarra þjóðarleiðtoga. Meðal fundargesta er Volodomyr Zelensky, forseti Úkraínu.
Björn Malmquist fréttamaður ræddi við Kristrúnu í París.
Kristrún segir skipta gríðarmiklu máli að Evrópuríkin geri sitt til að tryggja frið í Úkraínu og öryggistryggingar fyrir Úkraínu. Þetta verði þau að gera í samstarfi við Bandaríkin.
„Allar svona tryggingar, allar svona umræður verða að eiga sér stað líka í gegnum NATO, hvernig NATO getur beitt sér, þannig að þarna stöndum við mjög sterk sem NATO-aðili og það liggur alveg fyrir að Evrópa er ekki að fara ein í þetta verkefni.“
Hún segir Ísland geta lagt sitt af mörkum.
„Við erum nú þegar að leggja verulega til málanna þegar kemur að því að styrkja getu Úkraínu. Við erum til að mynda að borga inn í danska frumkvæðið sem styrkir vopnaframleiðslu í Úkraínu og styður jarðsprenguleit.“
Kristrún segir að ef vopnahlé kemst á verði Íslendingar að skoða sína getu. Rætt hafi verið um eftirlit og friðargæslu en ekki sé komið á hreint hvernig því verður háttað. Hún segir að Íslendingar verði að leggja sitt af mörkum á grundvelli þess hvar styrkur þeirra liggur, það gæti til dæmis byggt á reynslu af fragtflutningum.
Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tók við völdum rétt fyrir jól. Síðan hafa alþjóðamálin verið áberandi.
„Þetta eru vissulega mjög breyttir tímar á skömmum tíma. Það höfðu þá þegar átt sér stað kosningar í Bandaríkjunum en það hefur samt margt gerst á mjög skömmum tíma. En svona er bæði pólitíkin og alþjóðasamskiptin að maður þarf að vera við öllu búinn.“
„En við erum auðvitað líka hérna til að gæta hagsmuna Íslands, við verðum að halda því til haga. Þó við séum að hugsa um Úkraínu, og það skiptir máli hvernig við bregðumst við í Úkraínu, þá þarf Ísland að vera hluti af þessari samstöðu. Það er verið að ræða öryggismál þvert um álfuna yfir á Norðurslóðirnar þannig að við erum líka að setja fast niður fótinn og segja: Við erum hluti af þessu samstarfi af því að við þurfum líka á ákveðnum tryggingum að halda sjálf og sterka getu innan þessa hóps.“
Nafnalisti
- Björn Malmquistfréttamaður RÚV
- Kristrún Frostadóttirformaður
- Volodomyr Zelenskyforseti Úkraínu
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 446 eindir í 22 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 21 málsgrein eða 95,5%.
- Margræðnistuðull var 1,70.