Herforingjar fundi í vikunni um næstu skref í átt að friði í Úkraínu
Iðunn Andrésdóttir
2025-03-15 15:07
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands boðaði 25 leiðtoga á fjarfund í morgun til að ræða öryggi Úkraínu og mögulegt vopnahlé. Hann segir að Pútín Rússlandsforseti verði að setjast við samningaborðið fyrr eða síðar.
Að fundinum loknum ræddi Starmer við blaðamenn og sagði undirbúning öryggisráðstafana fyrir frið í Úkraínu brátt færast á framkvæmdastig. Herforingjar muni funda á fimmtudaginn um næstu skref. Nú sé tíminn til að beita Rússland hámarksþrýstingi.
Þurfa að svelta stríðsvél Pútíns
Fleiri lönd séu viljug til að leggja hönd á plóg við að koma á vopnahlé í dag en fyrir tveimur vikum. Nýjar skuldbindingar hafi verið gerðar á fundinum í dag en forsætisráðherrann fór ekki nánar út í hverjar þær væru.
Hann sagði þó brýnt að standa saman um að svelta stríðsvél Pútíns til að fá hann að samningaborðinu.
Gestir Starmers á fundinum voru þjóðarleiðtogar í Evrópu, forsætisráðherrar Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands og leiðtogar NATÓ og Evrópusambandsins. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sat fundinn.
Starmer vill að ríkin taki þátt í að standa vörð um hvers kyns vopnahlé eða langvarandi friðarsamkomulag í Úkraínu — það sem kallað hefur verið samstarf hinna viljugu ríkja.
Þarf meira til en orð til að stöðva Rússa
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti sat fundinn og segir að friður þurfi að vera skilyrðislaus. Vilji Rússar það ekki þurfi að beita þá þrýstingi þar til þeir láti undan. Vopnahlé gæti verið löngu hafið en Rússar hafi gert allt til að standa í vegi fyrir því.
Úkraínumenn féllust á 30 daga vopnahlé sem Bandaríkjamenn lögðu til á samningafundi sendinefnda þeirra í Sádí-Arabíu í vikunni.
„Þetta er stríð Rússa, meira en þrjú ár af átökum og eyðileggingu,“ skrifaði forsetinn á samfélagsmiðilinn X.
„Til þess að stöðva þetta þarf beinan þrýsting, ekki bara orð.“
Hann bætti við í nýrri færslu að Rússlandsforseti væri að ljúga að öllum og hefði augljóslega ekki í hyggju að fallast á vopnahléssamninga. Hann hefði nú þegar dregið viðræðurnar út í meira en viku og muni halda því áfram.
Erfiðara að tryggja frið á landi
Starmer og Emanuel Macron, forseti Frakklands, hafa talað einna mest fyrir friðargæslu í Úkraínu að undangengnu vopnahléi. Það gæti þó orðið vandasamt.
Tiltölulega lítið mál er að vakta bæði loft- og landhelgi Úkraínu, en erfiðara er að tryggja frið á landi, á víðfeðmri víglínunni í austurhluta landsins.
Til þess þyrfti mögulega aðstoð Bandaríkjamanna og óvíst er hvort stjórnvöld þar í landi fallist á það. Markmið fundarins í dag hlýtur því að hafa verið að viða að nægilegum stuðningi við Úkraínu, svo að Bandaríkjamenn gætu hugsað sér að taka þátt.
Efst í huga Volodymyrs Zelenskys, forseta Úkraínu, sem er á meðal fundargesta, er væntanlega að fá svör við því hvernig bandaþjóðir í Evrópu hyggjast tryggja að Rússar ráðist ekki aftur inn í Úkraínu. Án öryggistrygginga óttast margir að Rússar láti til skarar skríða aftur og brjóti þannig þá vopnahléssamninga sem kunna að verða gerðir.
Nafnalisti
- Emanuel Macronforseti Frakklands
- Keir Starmerleiðtogi Verkamannaflokksins
- Kristrún Frostadóttirformaður
- NATÓhernaðarbandalag
- Pútínforseti Rússlands
- PútínsRússlandsforseti
- Volodymyr Zelenskyforseti Úkraínu
- Volodymyrs Zelenskysforseti
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 503 eindir í 29 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 28 málsgreinar eða 96,6%.
- Margræðnistuðull var 1,67.