„Varnarsamningurinn stendur óháð því hver er við stjórnvölinn“
Alma Ómarsdóttir
2025-03-07 18:33
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, telur rétt að tvöfalda framlög Íslands til varnarmála og hefur hafið greiningar- og undirbúningsvinnu vegna endurskoðunar á varnarstefnu Íslands. Mikilvægt sé að treysta varnir innanlands. Ekki er fyrirhugað að gera miklar breytingar á varnarsamningi Íslands við Bandaríkin.
Framlag Íslands til varnarmála, fyrir utan sérstakan stuðning til Úkraínu, er rúmlega fimm milljarðar króna, sem er 0,14% af landsframleiðslu. Meira en helmingurinn fer til Landhelgisgæslunnar, eða tæpir þrír milljarðar. Utanríkisráðherra vill tvöfalda framlög til varnarmála. „Við ætlum að fjárfesta meira í öryggi og vörnum,“ segir Þorgerður Katrín. Þar sé ýmislegt undir. „Landhelgisgæslan, vegir, lögreglan og tækjabúnaður og fleira og við ætlum að standa við það að vera verðugur bandamaður innan Atlantshafsbandalagsins.“
Hafin sé greiningar- og undirbúningsvinna vegna endurskoðunar á varnarstefnu Íslands.
En kemur til greina að endurskoða varnarsamning Íslands við Bandaríkin, í ljósi þess hversu óútreiknanleg bandarísk stjórnvöld virðast vera?
„Það er alla vega ljóst að varnarsamningurinn stendur alveg óháð því hver er núna við stjórnvölinn,“ segir Þorgerður Katrín. „Það eru augljóslega áherslubreytingar og það nokkuð verulegar í Bandaríkjunum, en engu að síður skipta Bandaríkin okkur gríðarlega miklu máli fyrir öryggi og varnir, bæði í gegnum NATO og síðan í gegnum varnarsamninginn.“
Hún útilokar ekki að vera aftur með varanlegt varnarlið á Íslandi, hvort sem það væri bandarískt eða til að mynda frá einhverjum Evrópusambandsríkjanna. „Það sem ég hef verið að segja, og ég sagði í rauninni strax eftir innrás Rússa fyrir þremur árum inn í Úkraínu, er að við getum ekki útilokað neinar spurningar.“
Ógnin komi úr austri. „Við sjáum það bara með hörmulegum árásum, enn og aftur þá er það undirstrikað hver það er sem er árásaraðilinn í stríðinu í Úkraínu eftir nóttina þar sem Rússar sprengdu borgaralega innviði, orkuinnviði o.s.frv.“ segir Þorgerður Katrín. „Það ætti nú að vera öllum lýðum ljóst hver það er sem þarf að stöðva og af hverjum ógnin stafar.“
Nafnalisti
- Framlag Íslandshluti af því framlagi sem forsætisráðherra tilkynnti um í tengslum við leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttirformaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 338 eindir í 18 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 17 málsgreinar eða 94,4%.
- Margræðnistuðull var 1,53.