Segir yfirlýsingar stangast fullkomlega á
Magnús Geir Eyjólfsson
2025-03-25 16:11
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna á þingi fóru fram á það við upphaf þingfundar að forseti þingsins hlutist til um að Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, komi fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og geri grein fyrir þeim spuningum sem enn er ósvarað í tengslum við mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrum mennta- og barnamálaráðherra.
Bentu þeir á að yfirlýsingar forsætisráðherra og uppljóstrarans í málinu stönguðust á og ef rétt reynist að forsætisráðherra hafi sagt þinginu ósatt í fyrirspurnartíma í gær sé það alvarlegt mál. Varpa þurfi meira ljósi á stjórnsýsluna í málinu og aðkomu forsætisráðuneytisins að því.
„Tímalína sú sem vissulega var birt, annars vegar varpar ljósi á að hér var ekki farið með rétt mál af hálfu forsætisráðherra í pontu í gær. Þær stangast fullkomlega á við orð uppljóstrarans í málinu sem vildi koma upplýsingum á framfæri við ráðuneytið. Þetta eru það veigamikil atriði að það er bara rétt að hæstvirtur forsætisráðherra fái að skýra mál sitt gagnvart þinginu,“ sagði Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um fundarstjórn forseta.
Segir margbúið að upplýsa um málið
Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, benti á að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi ítrekað svarað fyrir málið, jafnt í viðtölum, blaðamannafundum og í þinginu. Auk þess hafi allar upplýsingar er málið varða verið birtar og forsætisráðherra hafi sjálf sagt að hún væri ekki mótfallin því að þingið skoði málið enn frekar.
„Það hefur ekkert staðið á vilja neins til að upplýsa eða fræða eða fara yfir það sem þarna gerðist og ástæðan fyrir því er mjög einföld. Það er ekkert sem blasir við í þessu máli sem segir að hæstvirtur forsætisráðherra hafi brugðist með einhverjum hætti ranglega við.“
Nafnalisti
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Hildur Sverrisdóttirfyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
- Kristrún Frostadóttirformaður
- Sigmar Guðmundssonþingmaður Viðreisnar
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 274 eindir í 11 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 11 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,73.