Waltz tekur fulla ábyrgð: „Þetta er vandræðalegt“
Hugrún Hannesdóttir Diego
2025-03-26 02:38
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar segist taka fulla ábyrgð á að hafa óvart bætt blaðamanni við hópspjall bandarískra embættismanna. Blaðamanninum Jeffrey Goldberg var bætt við spjallþráð á forritinu Signal fyrr í mánuðinum þar sem hátt settir embættismenn ræddu meðal annars yfirvofandi árásir Bandaríkjanna á bækistöðvar Húta í Jemen.
Waltz sagði í viðtali á bandarísku sjónvarpsstöðinni Fox News að mistökin væru vandræðaleg og hét því að komast til botns í málinu. Sjálfur hefði hann stofnað spjallþráðinn en hann kvaðst ekki þekkja Goldberg persónulega.
Waltz sagði að líklega mætti rekja mistökin til þess að hann hefði sjálfur vistað símanúmer Goldbergs undir röngu nafni.
„Þetta virtist vera einhver annar. Við reynum að komast að því hvort hann hafi gert þetta vísvitandi eða hvort þetta hafi gerst vegna tæknilegra þátta,“ sagði Waltz en skýrði ekki hvernig Goldberg gæti hafa vísvitandi komist í spjallhópinn.
Að sögn Goldbergs sendi Waltz honum beiðni um þátttöku í spjallþræðinum nokkrum dögum áður en árásir Bandaríkjamanna í Jemen voru gerðar.
Waltz fór hörðum orðum um Goldberg í viðtalinu í gær og kallaði hann meðal annars aumingja og úrþvætti. Hann gagnrýndi einnig fjölmiðla fyrir að veita málinu mikla athygli.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að engar leynilegar upplýsingar hefðu komið fram í hópspjallinu.
Nafnalisti
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Fox Newsbandarísk sjónvarpsstöð
- Jeffrey Goldbergritstjóri The Atlantic
- Mike Waltzrepúblikani
- Signalsamskiptaforrit
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 208 eindir í 11 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 11 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,69.