Vegagerðin um banaslysið við Steinafjall: „Það verður lagst yfir hvaða aðgerðir er hægt að fara í núna“
Erla María Davíðsdóttir
2025-04-01 12:59
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Skoðað verður á næstu dögum til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að koma í veg fyrir grjóthrun úr Steinafjalli undir Eyjafjöllum. Þetta segir svæðisstjóri hjá Vegagerðinni. Banaslys varð þar í gær þegar grjót hrundi á bíl á Suðurlandsvegi.
Grjótið mest megnis utan vegar
Slysið varð á Suðurlandsvegi rétt eftir hádegi í gær þegar grjót hrundi úr Steinafjalli, rétt vestan við Holtsós, á bifreið sem ekið var í austurátt. Kona sem ók henni klemmdist inni og var úrskurðuð látin á vettvangi. Þrjár konur, allt erlendir ferðamenn voru í bílnum, tvær þeirra sluppu með minni háttar áverka.
Svanur Geir Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði, segir starfsmenn hafa vaktað svæðið fram yfir miðnætti. Hreinsunarvinna hafi tekið skamma stund þar sem grjótið hafi mest megnis fallið utan vegar.
Engar grjótvarnir á svæðinu
Nú er grjóthrun á þessu svæði algengt. Eru einhver net eða vegrið sem stoppa það að þetta kastist út á veginn?
„Nei, það er nú því miður ekki, það vissulega í gegnum tíðina hefur alltaf fallið grjót öðru hvoru. En sem betur fer aldrei alvarleg slys, svo ég viti,“ segir Svanur.
Hugmyndir séu þó á teikniborðinu.
„Eins og að setja upp svokallaða skápa til að koma í veg fyrir að grjót fari inn á veg. En það hefur svo sem ekki orðið af þeim framkvæmdum enn þá. Það eru margir staðir á vegakerfinu á Íslandi þar sem vissulega er grjóthrunshætta, og kannski meiri en hefur verið þarna. Þetta er alltaf spurning um forgangsröðun.“
Ingveldur Anna Sigurðardóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, gagnrýnir Vegagerðina fyrir aðgerðaleysi á svæðinu í stöðuuppfærslu á Facebook í gær. Hún segir Vegagerðina lengi hafa vitað af hættunni. Fjöldi ferðamanna, fólk á leið til vinnu og skólabílar með börn fari daglega þarna um.
„Okkur þykir þetta alveg hörmulegur atburður auðvitað, en það verður bara lagst yfir það hvaða aðgerðir er hægt að fara í og grípa til núna á næstunni,“ segir Svanur.
Nafnalisti
- Facebookbandarískur samfélagsmiðill
- Ingveldur Anna Sigurðardóttir24 ára meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands
- Svanur Geir Bjarnasonsvæðisstjóri suðursvæðis hjá Vegagerðinni
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 344 eindir í 23 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 21 málsgrein eða 91,3%.
- Margræðnistuðull var 1,59.