Fólk spyrji um veganisma af forvitni frekar en til að vera með leiðindi
Lovísa Arnardóttir
2025-03-28 20:01
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Kristín Helga Sigurðardóttir, varaformaður Samtaka grænkera á Íslandi, segir úrval páskaeggja fyrir fólk sem er vegan alltaf vera að batna. Hátíðar, eins og jól og páskar, geti þó verið krefjandi fyrir grænkera. Fólk þurfi oft í matarboðum að sitja undir misskemmtilegum spurningum og jafnvel leiðindum af hálfu aðstandenda.
„Ég hef verið vegan í fimm ár en var grænmetisæta í tvö ár fyrir það. Ég persónulega er verulega heppin með fólkið í kringum mig. Oftast þegar ég fæ einhverjar spurningar varðandi veganisma þá er það tengt því sem ég er að borða,“ segir Kristín.
Fólk spyrji úr hverju maturinn er eða hvað það er.
„Ég hef aldrei lent í leiðindum né fengið leiðinlegar spurningar frá mínum nánustu. Mín upplifun er að fólk spyr af forvitni en ekki til að vera með leiðindi.“
Sjálf tekur hún langoftast með sér mat þegar hún fer í mat hjá ættingjum.
Mamma hrædd um að skemma matinn
„Ég elska að elda þannig mér finnst það ekki vesen. Þá á ég líka oft afganga fyrir næstu daga. Mamma hefur viðurkennt að henni finnist hún ekki kunna að elda matinn minn og að hún sé hrædd um að skemma hann, því sé best að ég komi með hann sjálf.“
Stundum komi hún með alla máltíðina en stundum aðeins aðalréttinn.
„Tengdafjölskyldan mín er yndisleg og þegar við erum með stórhátíðarmat er flest, ef ekki allt, meðlætið vegan. Þá kem ég með aðalréttinn fyrir mig og geri sósu með. Oftast er eftirrétturinn vegan.“
Kristín Helga segir úrvalið af páskaeggjum sæmilegt á Íslandi. Það hafi þó verið betra.
„Eggin sem ég hef tekið eftir eru frá Nóa Síríus, Freyju, Útúrkú, Namm og tvær tegundir af erlendum eggjum í Nettó. Það hefur einnig verið til síðustu ár annað páskanammi en páskaegg en þetta árið hef ég bara fundið lítil egg með harðri skel í Nettó en þau seldust hratt upp og mér skilst að það hafi ekki verið hægt að fá aðra sendingu fyrir páska.“
Kristín Helga segir úrvalið hafa batnað mikið síðustu ár.
„Úrvalið var mjög slæmt fyrir þó nokkrum árum og var jafnvel ekkert eða bara ein tegund í boði. Það eru nokkur sem ég þekki sem hafa gert sín eigin páskaegg heima og það orðið að hefð fyrir hátíðarnar.“
Til að fagna páskunum efnir stjórn samtakanna til páskabingós á sunnudaginn á veitingastaðnum Mama í Bankastræti. Viðburðurinn hefst klukkan 14 og er opinn öllum.
„Við komnar með geggjaða vinninga frá Los Angeles, London ásamt Íslandi,“ segir Kristín Helga en fjöldi fyrirtækja sem framleiða eða selja vegan mat styðja viðburðinn. Þar má nefna sem dæmi Namm! , Útúrkú, Baunin, Plantan, Mama, Tropic.is, Ella Stína, LiveFood, Kattakaffihúsið og Ekohúsið.
Nafnalisti
- Ella Stínafyrirtæki
- Freyjaframtakssjóður
- Kattakaffihúsiðfyrsta kaffihúsið af sínu tagi á Íslandi
- Kristín Helga Sigurðardóttir
- Mamatannlaus hrollur
- Nói Síríussælgætisframleiðandi
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 489 eindir í 30 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 26 málsgreinar eða 86,7%.
- Margræðnistuðull var 1,61.