Vill að oddvitinn segi af sér formennsku Veiðifélags Þjórsár
Iðunn Andrésdóttir
2025-04-04 00:33
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps á miðvikudaginn lagði Axel Á Njarðvík, nefndarmaður í stjórninni, fram bókun þar sem hann skoraði á oddvita og oddvita hreppsins, Harald Þór Jónsson, að segja af sér formennsku í Veiðifélagi Þjórsár.
Forsaga málsins er sú að Haraldur hlaut nýverið kjör sem formaður veiðifélagsins á aðalfundi þess en einhverjum, þar á meðal Axel, kann að þykja hann leika tveimur skjöldum enda liggur fyrir að Veiðifélag Þjórsár hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum af uppbyggingu Hvammsvirkjunar.
Fráfarandi formaður félagsins ítrekað lýst áhyggjum sínum
Þjórsársvæðið er mesta virkjunarsvæði á Íslandi og yrði Hvammsvirkjun í Þjórsá fyrsta stóra virkjun Landsvirkjunar með jökullóni í miðri byggð og er virkjunin vægast sagt umdeild. Til að laxastofninn geti þrifist ofan stíflunnar á að setja upp laxastiga og sérstaka seiðafleytu til að hjálpa seiðum að komast til sjávar.
Haraldur styður byggingu Hvammsvirkjunar og vill láta reyna á svonefnda seiðfleytu sem hönnuð hefur verið fyrir virkjunina en frárfarandi formaður veiðifélagsins hefur sett sig upp á móti áformunum og hefur miklar áhyggjur af framtíð laxastofnsins í Þjórsá.
Veiðifélag Þjórsár hefur ítrekað bent á að virkjunarframkvæmdirnar geti haft óafturkræf áhrif á gönguleiðir laxfiska og vistkerfi Þjórsár.
Ekki eðlilegir stjórnsýsluhættir
Í bókuninni segir Axel sveitarstjórnina hafa falið Haraldi að mæta á aðalfund Veiðifélags Þjórsár í febrúar fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps og veitt honum umboð til að fara með atkvæði sveitarstjórnarinnar.
Ekki hafi þó legið fyrir að Haraldur hygðist bjóða sig til formennsku félagsins á fundinum né hafi sveitarstjórnin veitt honum umboð til þess. Það séu ekki eðlilegir stjórnsýsluhættir af hálfu kjörins fulltrúa að mati Axels.
„Ég skora á Harald að segja nú þegar af sér, sem formaður veiðifélags Þjórár, í ljósi þess að hann getur ekki bæði unnið með þeim einbeitta og fyrirliggjandi vilja að virkja Þjórsá við Hvamm, Holt og Urriðafoss og á sama tíma staðið vörð um lífríki laxastofnsins í Þjórsá,“ segir í bókuninni.
Var beðinn um að bjóða sig fram
Í samtali við fréttastofu segir Haraldur að kjör hans sé ef eitthvað til marks um breytta stefnu Veiðifélagsins enda sé lýðræðislega kjörið í sæti stjórnarinnar. Allir geti boðið sig fram og augljóst sé að það hafi verið vilji stjórnarinnar og félagsmanna að kjósa sér nýjan formann.
Spurður hvort eðlilegt sé að sitja beggja megin borðs í máli sem þessu segir Haraldur ekkert óeðlilegt við hann gegni báðum störfum enda beri hann hagsmuni nærsamfélagsins fyrir brjósti og hafi verið beðinn um að bjóða sig fram.
„Ef ég væri að fara gegn vilja félagsmanna þá hefði ég einfaldlega ekki hlotið kjör,“ segir Haraldur.
Ekki hafi ríkt samstaða innan félagsins um þá vegferð sem hafi verið síðastliðin ár hvað varðar afstöðu til Hvammsvirkjunar en ljóst sé að vilji sé fyrir því að skipta um kúrs. Hann telji það vilja meirihluta veiðifélagsins að gera sitt besta til að láta áform Landvirkjunar ganga sem best upp fyrir nærsamfélagið og lífríkið í Þjórsá.
„Ég hef barist fyrir hagsmunum nærsamfélagsins og mun halda áfram að gera það.“
Nafnalisti
- Axel Á Njarðvík
- Harald Þór Jónssonoddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps
- Haraldur Þór Jónssonsveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 509 eindir í 20 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 17 málsgreinar eða 85,0%.
- Margræðnistuðull var 1,63.