„Við lítum í raun og veru á þetta sem arðrán“
Guðmundur Atli Hlynsson
2025-03-31 12:16
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
„Starf þýðanda breytist náttúrulega mjög mikið með þessari þróun. Svona vélþýðingar hafa viðgengist á öðrum sviðum. Utanríkisráðuneytið vinnur til dæmis mikið með þær. Í lagalegum texta er ákveðinn kostur að hugtök séu alltaf þýdd nákvæmlega eins en með skáldskapinn eru önnur lögmál. Þessi mannlega vídd skiptir miklu máli.“
Þetta segir Margrét Tryggvadóttir formaður Rithöfundasambands Íslands spurð út í notkun Storytels á Íslandi á þýðingum sem styðjast við þýðingarvél. RÚV fjallaði um helgina um þýðingarnar sem byggja á samspili vélþýðinga og mannlegra þýðenda.
Lesarar þurfi að draga þýðingar í land
„Þeir þýðendur sem hafa unnið með þessar vélþýðingar tala um að þetta sé mikið leiðinlegri vinna og að það vanti þennan skapandi kraft í hana. Þeir segja að villurnar í textanum séu tricky og að erfiðara sé að henda reiður á hvar misskilningurinn liggur. Það vanti í raun rökhugsunina á bakvið textann.“
Margrét segir að notkun þýðingarvéla komi ekki aðeins niður á þýðendum heldur einnig lesurum.
„Við höfum verið að heyra frá félögum okkar sem eru að lesa þessar þýðingar upphátt. Sá sem les textann og upptökustjórinn eru lengur að því vegna þess að þeir verða að lagfæra textann. Þýðandinn, eða mannlegi yfirlesarinn, hefur ekki ekki nægan tíma til að vinna hann almennilega; það lendir á þeim sem þarf að lesa hann upp.“
Hún segir að bæði upptökustjórinn og lesarinn fái greitt eftir endanlegri niðurstöðu.
„Ef þeir fá til sín lélegan texta sem verður að lagfæra er enginn að borga fyrir þá vinnu.“
Umsvif Lind & Co á íslenskum bókamarkaði mikil
Gunnarshús, húsakynni Rithöfundasambands Íslands. Rithöfundasamband Íslands
Bækur á vegum Storytel á Íslandi sem eru þýddar með hjálp þýðingarvélar eru útgefnar af sænska útgáfufélaginu Lind & Co en móðurfyrirtæki Storytel á Íslandi á 70% hlut í bókaútgáfunni. Margrét segir útgáfuna á stuttum tíma hafa náð afar sterkri stöðu á bókamarkaði hérlendis og hún orðin einn afkastamesti útgefandi landsins.
„Það er eins og enginn hafi fattað það. Við tókum eftir umsvifum þeirra síðasta vor og ég taldi hvað það voru komnar margar vélþýddar bækur. Stuttu síðar taldi ég aftur og þeim hafði fjölgað gríðarlega. Þetta var stjarnfræðileg aukning á stuttum tíma.“
Margrét segir afköst Lind & Co á íslenskum bókamarkaði umhugsunarverð í ljósi markaðsráðandi stöðu Storytels.
„Bækurnar þeirra verða meira og meira áberandi í appinu sem er náttúrulega samkeppnisbrot. Söluaðili á svona markaði má ekki gera sínu efni hærra undir höfði.“
Margrét líkir stöðunni við umræðuna um vélmenni og gervimenn á tónlistarveitunni Spotify.
„Þetta er í raun og veru það sama. Þú ert með bókmenntaverk eða texta sem eigandi appsins dælir út og gerir áberandi svo það nær mikilli hlustun. Það lækkar kostnaðinn og eykur greiðslurnar til móðurfyrirtækisins.“
Margrét segir að við skoðun ársreiknings komi í ljós að tekjur fyrirtækisins hér á landi séu tveir milljarðar á ári. Helmingurinn fari úr landi til móðurfyrirtækisins.
„Þetta er rosaleg blóðtaka á okkur. Við erum ekki á móti hljóðbókum en við lítum í raun og veru á þetta sem arðrán. Útgefendur eru farnir að halda að sér höndum varðandi hvað þeir setja þarna inn vegna þess að fæst borgar sig. Þetta er ákveðinn vítahringur á okkar litla markaði,“ segir Margrét.
Fréttastofa hefur sent fyrirspurn á Storytel á Íslandi, en svör hafa ekki borist.
Þessi frétt er unnin af meistaranema við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.
Nafnalisti
- Lindfasteignasala
- Margrét Tryggvadóttirbókmenntafræðingur og fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar
- Storytelstreymisveita
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 591 eind í 41 málsgrein.
- Það tókst að trjágreina 39 málsgreinar eða 95,1%.
- Margræðnistuðull var 1,62.