Sæki samantekt...
Project 2025 bar oft á góma í kosningabaráttunni vestanhafs síðastliðið haust. Það voru þá helst Demókratar sem drógu hana upp til þess að vara bandarísku þjóðina við. Þarna gæti hún séð hvað væri framundan ef Donald Trump og Repúblikanar kæmust til valda. Sjálfur vildi Trump meina að hann vissi ekkert um tilvist þessa plaggs og vissi ekkert um hvað það snerist.
En hvað er Project 2025 og hverjir standa á bak við það?
Stefnuskrá af þessu tagi, Mandate for Leadership, er síður en svo ný af nálinni. Sérfræðingahópur íhaldsmanna, The Heritage Foundation, hefur birt slíka stefnuskrá á fjögurra ára fresti frá 1981. Ronald Reagan, sem þá var nýkjörinn forseti, tók stefnuna upp á sína arma og færði ráðherrum nýrrar stjórnar ritið á fyrsta ríkisstjórnarfundi.
Heritage Foundation
The Heritage Foundation — eða arfleifðarstofnunin — var stofnuð árið 1973. Á heimasíðu samtakanna eru forgangsmál þeirra sögð þrjú:
Veita lausnir-rannsaka, þróa og kynna nýstárlegar lausnir.
Ná íhaldsmönnum saman-Sameina íhaldsmenn til samvinnu.
Þjálfa leiðtoga — undirbúa komandi kynslóðir sem eiga eftir að leiða Bandaríkin.
Stefna þeirra er ekki að flytja meira vald í hendur stjórnvalda, heldur að þjóðin endurheimti valdið. Þau segjast ekki vinna fyrir einhverja sérhagsmuni eða stjórnmálaflokk, heldur þjóðina og milljónir stuðningsmanna sinna.
Kiron Skinner, höfundur kaflans um utanríkisráðuneytið í Project 2025. Hún segir bókina sjálfstætt verkefni Heritage foundation, undir stjórn Dr Kevin Roberts, stjórnanda stofnunarinnar.
Skinner er prófessor í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum við Pepperdine háskóla í Kaliforníu. Hún var yfirmaður stefnumótunar í utanríkisráðuneyti Bandaríkjastjórnar frá 2018 til 2019, í fyrri stjórnartíð Donalds Trump. Hún tók einnig þátt í að mynda utanríkisstefnu fyrir kosningabaráttu George W. Bush þegar hann sóttist eftir endurkjöri 2004.
Stefnuskráin er viðamikil tilraun til þess að ná utan um allar stofnanir hins opinbera og flest mál sem tengjast Bandaríkjunum. Hún segir að í sumum tilfellum hafi verið farið vel á dýptina. Mörg hundruð komu að gerð skjalsins en það var aldrei skrifað sérstaklega fyrir Donald Trump.
James Jay Carafano, varaformaður stofnunar alþjóðamála hjá Heritage Foundation og einn fjölmargra ráðgjafa við Project 2025 tekur í svipaðan streng.
Ritið er skrifað af mörgum og í samráði við fjölda stofnana. Hugmyndin hafi verið að setja saman einhvers konar stórmarkað íhaldssamra hugmynda sem næsti forseti gæti valið úr. Þar sem höfundarnir eru mýmargir eru ekki allir sammála um allt sem fram kemur í bókinni.
Allar hugmyndir fengu pláss í ritinu og það hafi aldrei verið tilgangurinn að þetta væri eitthvað leyniplagg fyrir Donald Trump eða að Donald Trump hefði lesið þetta leyniplagg og framfylgt öllu.
Hverjar eru hugmyndirnar?
Í inngangi Project 2025 skrifar Kevin Roberts, formaður Heritage Foundation, að í ritinu eigi að tæpa á fjórum meginatriðum íhaldsstefnunnar.
Það fyrsta er að endurskipa fjölskyldunni sess sem miðpunkti bandarísks lífs og að börn séu vernduð.
Annað meginatriða er að rífa niður stjórnvaldsbáknið og flytja sjálfstjórnina aftur til bandarísku þjóðarinnar.
Það þriðja er að verja sjálfstjórn þjóðarinnar, landamærin og örlæti gagnvart erlendum ríkjum.
Loks er stefnunni ætlað að tryggja einstaklingsfrelsið, sem hann segir guðsgjöf, og stjórnarskráin kallar blessun frelsisins.
Ný herdeild íhaldsmanna
Paul Dans, ritstjóri verksins, var ómyrkur í máli þegar hann greindi frá tilgangi þess á ráðstefnu um leiðtogahæfni árið 2023.
„Við erum kerfisbundið að búa okkur undir að arka inn á skrifstofu og skipa nýja herdeild samstilltra, þjálfaðra og vígbúinna íhaldsmanna sem eru reiðubúnir að takast á við Djúpríkið,“ sagði hann.
Og það er kannski ekki ofsögum sagt. Eins og Skinner sagði, þá er ritið viðamikið og tæpir á öllum ráðuneytum og stofnunum sem forseti skipar stjórnendur yfir. Í hverjum kafla er farið yfir hlutverk ráðuneytanna og stofnananna og hvernig íhaldssamur forseti getur rækt hlutverk þeirra samkvæmt íhaldsstefnunni.
Margar tengingar við Trump
Skinner segir bókina skrifaða á víðum grundvelli fyrir íhaldshreyfinguna, sem Roberts er í forsvari fyrir að leiðbeina. Það komi henni því ekki á óvart að sumar, jafnvel margar hugmyndanna úr Project 2025 séu teknar inn í stefnu nýrrar ríkisstjórnar íhaldsmanna, eða að einhverjir höfundar stefnunnar séu teknir inn í stjórnina.
Tengingar höfunda stefnunnar við Trump eru margar. Sex höfundar eða ráðgjafar við gerð stefnunnar eru með vinnu í nýrri stjórn Trumps. Þar ber fyrstan að nefna Russell Vought, sem er yfir stjórnunar- og fjárreiðuskrifstofu forsetaembættisins, Office of Management and Budget. Hlutverk skrifstofunnar er að hafa yfirumsjón með að opinberar stofnanir fylgi stefnu forsetans.
Vought skrifaði einmitt kaflann um forsetaskrifstofuna og framkvæmdavaldið í Project 2025.
Aðrir eru Brendan Carr, yfirmaður samskiptanefndar Bandaríkjastjórnar, sem hann skrifaði um í ritinu, Paul Atkins, yfirmaður viðskiptanefndar, en hann kom að gerð kaflans um fjármálareglugerðir. Peter Navarro sem skrifaði kafla um milliríkjaviðskipti er viðskiptaráðgjafi forseta og tveir ráðgjafar við gerð ritsins eru í nokkuð viðamiklum embættum, John Ratcliffe er yfirmaður leyniþjónustunnar CIA og Tom Homan er yfir málefnum landamæra Bandaríkjanna, svokallaður landamærakeisari.
Eins eru nokkrir embættismenn úr fyrri forsetatíð Trumps á meðal höfunda og ráðgjafa Project 2025. Ben Carson, húsnæðismálaráðherra síðustu Trump-stjórnar, skrifar kaflann um það ráðuneyti, og Christopher Miller, sem gegndi embætti varnarmálaráðherra undir lok síðustu valdatíðar Trumps, skrifaði kaflann um varnarmálaráðuneytið.
Segist koma af fjöllum
Þrátt fyrir tengingarnar og að Trump hafi framfylgt talsvert mörgu af stefnu Heritage Foundation fyrir forsetaskiptin 2017 sagðist Trump ekkert vita um innihald Project 2025 í kosningabaráttunni.
Demókratar voru hins vegar handvissir um að Trump væri í samkrulli með höfundum stefnuskrárinnar og tefldu henni statt og stöðugt fram í kosningabaráttu sinni.
AP
Kamala Harris, frambjóðandi Demókrata, birti nokkrar auglýsingar þar sem hún minnti á hættuna sem hún sagði fylgja stefnuskránni, og Demókratar birtu fjölda greina og auglýsinga á sínum vegum um Project 2025. Þar höfðu þeir meðal annars eftir sérfræðingum og mörgum af hans nánustu samstarfsmönnum að stefna Project 2025 ætti eftir að hækka verð almennt, valda auknum erfiðleikum og veikja félagslegt öryggi.
Mikill samhljómur
Þó Trump segist lítið hafa vitað um innihald Project 2025 fyrir kosningar er mikill samhljómur með tilskipunum hans og stefnunni.
Carafano segir það ekki koma á óvart að forsetinn hafi nýtt eitthvað úr Project 2025, þó hann hafi ekki notað allt. Stefnuskráin endurspegli skoðanir flestra kjósenda Trumps og það sé því alls ekki óvænt að hann framkvæmi það.
Margar hugmyndanna eru fjarri því nýjar af nálinni meðal íhaldsmanna. Í fyrri stjórnartíð sinni aflétti Trump banni við frekari olíu- og jarðefnavinnslu í Alaska, Joe Biden stöðvaði það í nafni umhverfissjónarmiða. Trump undirritaði svo tilskipun á fyrsta degi sínum í embætti þar sem hann hvetur til aukinnar nýtingar náttúruauðlinda í Alaska. Svo dró hann Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum um loftslagsbreytingar, aftur.
Umhverfismál og hinsegin mál á oddinum
Mörg stefnumálanna tengjast umhverfismálum. Þau miða að mestu að því að draga til baka lög og reglugerðir sem snúa að aðgerðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Meðal aðgerða sem Trump hefur gripið til og eiga samhljóm í Project 2025 er bílaframleiðsla.
Stjórn Bidens vildi fasa út framleiðslu bensín- og dísilknúinna bíla og að framleiðendur einblíndu á rafmagnsbíla. Í Project 2025 segir að þetta stuðli að því að það verði erfiðara að nálgast nýja bíla á viðráðanlegu verði. Það leiði af sér að fólk leiti eftir eldri bílum, sem leiði til meiri hættu fyrir bílstjóra og farþega. Tilskipun Trumps er nánast samhljóða.
Tvær tilskipana Trumps snerust um að draga til baka tilskipanir forvera síns, líkt og höfundar Project 2025 lögðu til. Það eru tilskipanir Bidens um að nýta vísindin til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum og um að utanríkisstefna Bandaríkjanna yrði unnin út frá loftslagsvánni.
Annað dæmi er innflytjendastefna Trumps. Hann rak harða innflytjendastefnu í fyrri forsetatíð sinni. Ken Cuccinelli, sem vann í heimavarnarráðuneyti fyrri stjórnar Trumps, skrifar í Project 2025 að ríkisstjórnin verði að vinna með ríkjum og sveitarfélögum að því að herða innflytjendastefnuna, til að mynda með því að handsama þá sem ekki eru með dvalarleyfi.
Trump undirritaði tilskipun þess efnis að innflytjendur sem hafa brotið af sér verði handsamaðir og eflingu samstarfs innflytjendaeftirlitsins við ríki og sveitarfélög. Eins vill Trump fylgja hugmyndinni um að sækja embættismenn sem reyna að koma í veg fyrir aðgerðir innflytjendaeftirlitsins til saka.
Hvatt til samdráttar
Fjöldi stefnumála snýst um að draga úr umsvifum hins opinbera, jafnt heima fyrir sem erlendis. Trump hefur falið nýrri stofnun í umsjá Elons Musk að leita leiða til að spara í ríkisrekstri. Meðal aðgerða var að stöðva erlenda aðstoð Bandaríkjanna tímabundið, líkt og höfundar Project 2025 lögðu til.
Þeir lögðu sömuleiðis til að Bandaríkjastjórn hætti að greiða til ákveðinna stofnana Sameinuðu þjóðanna. Viti menn, Trump hefur dregið Bandaríkin úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, dregur Bandaríkin úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og vill endurskoða aðild Bandaríkjanna að Mennta- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.
Öllum tillögum Project 2025 um jafnréttis-, fjölbreytileika- og inngildingarmál hefur Trump þegar framfylgt. Allri slíkri stefnu hefur verið eytt úr ráðuneytum og stofnunum hins opinbera í Bandaríkjunum, auk þess sem bandarískum sendiráðum er meinað að flagga fánum með merkjum sem geta valdið klofningi. Þar er átt við fána á borð við regnbogafána hinsegin samfélagsins og fána Black Lives Matter hreyfingarinnar, sem berst fyrir réttindum svartra Bandaríkjamanna.
Nærri þriðjungur tillagna tekið gildi
Stefnumálin eru nærri 300 talsins. Flest þeirra tengjast verkefnum heimavarnarráðuneytisins, alls 33. Þar á eftir koma stefnumál tengd menntamálaráðuneytinu, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu, orkumálaráðuneytinu, vinnumálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu.
Samkvæmt vefsíðunni Project 2025 Tracker, sem fylgist með hvernig málum stefnuskrárinnar er framfylgt af ríkisstjórninni, hefur stjórn Trumps hrint 87 af 297 tillögum í framkvæmd á fyrsta rúma mánuði hans í embætti. 42 til viðbótar eru í vinnslu.
Síðast þegar Trump var forseti fylgdi hann einnig stefnuskrá Heritage Foundation. Eftir eitt ár í embætti hafði hann innleitt 64 prósent stefnumála stofnunarinnar, nærri tvö af hverjum þremur.
Áfram veginn
Í lokaorðum ritsins segir Edward Feulner, einn stofnenda Heritage Foundation og stjórnarmaður í samtökunum, að tilgangur stefnuskrárinnar sé sá sami og hann var árið 1981. Hugmyndin er að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig er hægt að endurvekja efnahaginn, efla þjóðaröryggi og koma í veg fyrir miðstýringu valds í Washington.
Lokaorðin eru raunar ekki lokaorð, heldur nefnist kaflinn Onward! , eða Áfram veginn. Feulner segir það vegna þess að hann vilji að lokaorðin séu hvatning til vina, samstarfs- og stuðningsmanna um að líta alltaf fram á við. Nýir bardagar verði alltaf á vegi þeirra sem og ný tækifæri til þess að gera meira. Eins segir hann skilaboðin um að horfa áfram veginn sýna að næsta verkefni hreyfingarinnar sé rétt að byrja.
Nafnalisti
- Ben Carsonheilaskurðlæknir
- Black Lives Matterslagorð sem notað var í mótmælum gegn lögregluofbeldi
- Brendan Carr
- Christopher Millerstarfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Edward Feulner
- Elons Muskauðkýfingur
- George W. Bushfyrrverandi forseti Bandaríkjanna
- Heritageaugljóslega enginn taðskegglingur
- Heritage Foundationhugveita
- James Jay Carafano
- Joe Bidenfyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna
- John Ratcliffenúverandi yfirmaður leyniþjónustustofnanna Bandaríkjanna
- Kamala Harrisvaraforseti Bandaríkjanna
- Ken Cuccinellistarfandi aðstoðar-heimavarnarráðherra Bandaríkjanna
- Kevin Robert
- Kiron Skinner
- Mandate for Leadership
- Office of Management and Budget
- Onwardnafn
- Paul Atkins
- Paul Dans
- Peter Navarromeðal annars tekið á
- Projectverkefni
- Ronald Reaganþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Russell Vought
- The Heritage Foundationhugveita
- Tom Homanstarfandi forstjóri ICE, og Jeff Sessions, dómsmálaráðherra
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1779 eindir í 107 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 97 málsgreinar eða 90,7%.
- Margræðnistuðull var 1,66.