Tekist á um nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar
Ragnar Jón Hrólfsson
2025-04-01 00:26
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Ný fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í dag var til umræðu í Silfrinu í kvöld. Dagur B. Eggertsson þingmaður Samfylkingarinnar segir nýja áætlunina yfirgripsmikla en tekur fram að stóra verkefnið í henni sé áfram að ná niður vöxtum og verðbólgu.
„Það skiptir fólk og fyrirtæki gríðarlega miklu máli. Við sjáum að venjulegt 25 ára jafngreiðslulán er óverðtryggt. Bara lækkunin á vöxtunum sem varð síðast í mars lækkar endurgreiðslu venjulegrar fjölskyldu af þessu láni um 380 þúsund krónur á ári,“ segir hann. Áframhaldandi vaxtalækkun skipti því verulegu máli.
„Við erum ekki bara að horfa á hagræðingu heldur erum við líka að horfa á átak í að byggja upp innviði,“ segir hann.
RÚV/Skjáskot
Mikið hefur verið rætt um sparnað og hagræðingu innan ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir hagræðingu upp á 107 milljarða króna á tímabilinu 2026 til 2030. „Þetta er raunar það mikið aðhald að það mun alveg taka á að ná því, við þurfum að vera einbeitt,“ segir hann.
Lítið skýrt í áætluninni
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að honum þyki áætlun ríkisstjórnarinnar alls ekki skýr. Hann hafi hlustað á Dag ræða um áætlunina en viti í raun ekki um eina krónu sem eigi að hagræða.
„Ég veit að þau lögðu niður eitt ráðuneyti og ætla að spara 350 milljónir, annars veit ég ekki um neitt sem þau ætla að hagræða,“ segir hann.
Hann nefnir sem dæmi að hagræðing væri fólgin í því að losa um eignarhald í Isavia. „Bara smá hlutur í ISAVIA getur lækkað skuldina um þessa 110 milljarða og þá ertu búin að lækka vaxtakostnaðinn um nokkra milljarða.
Vilhjálmur segir að honum hafi líkað nokkuð vel það sem fjármálaráðherra hafði að segja í morgun. „Þetta var svolítið svona Viðreisnarhljóðið en svo þegar maður kafar ofan í þetta sér maður að myndin er frá Samfylkingunni,“ segir hann.
RÚV/Skjáskot
„Að sækja dýpra í vasa fyrirtækja og fólks, sérstaklega á landsbyggðinni, er það sem ég hef áhyggjur af og það gerir þessa fjármálaáætlun svolítið brothætta,“ segir hann. Minna megi bregða út af en í síðustu áætlun og þegar þrengt sé að verðmætasköpun stærstu atvinnugreina, þá sérstaklega þeirra sem eru á landsbyggðinni, verði tekjur ríkissjóðs minni en áætlunin gerir ráð fyrir.
Tekjur muni dragast saman
„Ég hef miklar áhyggjur af því núna af fjárfestingargetu ferðaþjónustunnar, sjávarútvegsins, landbúnaðarins og allra sem eru að skapa verðmæti,“ segir hann. Ef hún lækki dragi það úr nýsköpun innan greinanna sem alla jafna auki verðmætasköpun.
„Þá er þessi ríkisstjórn algjörlega að pissa í skóinn sinn og tekjur ríkissjóðs munu dragast saman, störfunum mun fækka og fólkinu sem verður sagt upp í fiskvinnslunum og í ferðaþjónustunni eru ekki að fara að borga hér skatta til samfélagsins,“ segir hann.
Fjármála- og efnahagsráðherra sagði í dag að ríkisstjórnin stefndi að hallalausum fjárlögum árið 2027. Það er nokkru fyrr en síðasta ríkisstjórn gerði ráð fyrir sem leidd var af Sjálfstæðisflokknum.
„Þau taka við miklu betra búi heldur en þau vilja af láta. Hluti af því að þau ná árangri strax er að afkoman á þessu ári er áætluð 50 milljörðum betri,“ segir hann.
Hagræðingunni beint að almenningi
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB bendir á að ef horft er aftur í tímann hafi ríkissjóður verið rekinn með halla frá því 2019.
„Og það er vegna skattalækkana sem var ekki mætt með auknum tekjum,“ segir hún og tekur fram að ekki sé einfaldlega um álit BSRB að ræða heldur hafi það komið fram í greinargerð með fjármálaáætlun 2023.
Þetta hafi verið lækkun á veiðigjöldum, bankaskatti, tryggingagjöldum, erfðaskatti, fjármagnstekjuskatti, skattaafslætti til ferðaþjónustu og kaupa á hreinorkubílum ásamt öðru.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB RÚV/Skjáskot
„Það er gat sem fylgir þessu og þetta þýðir tekjutap upp á 60 milljarða árlega,“ segir Sonja Ýr.
Hún segir efnahagsstefnuna keimlíka þeirri sem fyrri ríkisstjórn var með en að gengið sé lengra í niðurskurði.
„Það er algjörlega órökstutt markmið um að lækka eigi ríkisútgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og þannig minnka bitann af þjóðarkökunni,“ segir Sonja Ýr.
„Þetta þýðir bara að þessar skattalækkanir sem hafa verið undanfarin ár, það er raunverulega verið að velta þeim yfir á almenning sem birtist í skerðingu á þjónustu og að fólkið sem þar starfar þurfi að hlaupa hraðar í staðinn fyrir að velta þeim yfir á breiðu bökin,“ segir hún.
Litlar breytingar og eðlilegt framhald
Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins telur nýju fjármálaáætlunina eðlilegt framhald af þeirri síðustu. „Það er ekki mikið um stórar breytingar,“ segir Ingibjörg og telur margt eiga eftir að koma í ljós.
„Það á eftir að útfæra hagræðingartillögurnar og það á eftir að leggja fram lagafrumvörp til að ná vissum málum í gegn,“ segir hún og tekur undir áhyggjur Vilhjálms um tekjuöflun sem ná á með álögum á sjávarútveginn og ferðaþjónustu.
RÚV/Skjáskot
„Það er eflaust svigrúm til einhverra hækkana en skrefið sem þau eru að taka er gríðarlega stórt og vegur meðal annars að sveitarfélögum og störfum á landsbyggðinni,“ segir hún og tekur fram að ekki sé búið að meta heildaráhrifin af gjaldhækkunum og að það sama eigi við um ferðaþjónustuna.
Nafnalisti
- Daði Már Kristóferssonfráfarandi forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
- Dagur B. EggertssonBorgarstjóri
- Ingibjörg Isaksenþingmaður Framsóknarflokksins
- Sonja Ýr Þorbergsdóttirformaður BSRB
- Vilhjálmur Árnasonþingmaður Sjálfstæðisflokksins
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 908 eindir í 45 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 40 málsgreinar eða 88,9%.
- Margræðnistuðull var 1,63.