„Þjóðin hefur alltaf tekið mjög vel við sér þegar við höfum farið af stað“
Anna María Björnsdóttir
2025-04-03 07:00
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Gróa Ásgeirsdóttir greindist með brjóstakrabbamein árið 2007 og í framhaldi af því ákváðu hún og vinkonur hennar að safna fyrir nýrri leitarvél fyrir Landspítalann. Eftir það fór boltinn að rúlla og í gegnum árin hafa þær safnað tæpum milljarði fyrir góðgerðarmál á vegum Á allra vörum. Í ár safna þær fyrir nýju Kvennaathvarfi.
„Það er góð tilfinning í hjartað að hafa gert það. Þetta eru margar krónur sem hafa farið á mjög marga góða staði,“ segir Gróa í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.
Vildi gefa eitthvað til baka
Gróa segist hafa farið í gegnum brjóstakrabbameinsferðina eins og ein af hverjum tíu konum á Íslandi. „Það er svo sem ekkert óalgengt, það eru mjög margar konur sem fara því miður í gegnum þann pakka.“
„Um svipað leyti var Krabbameinsfélagið að safna fyrir nýju tæki sem greinir brjóstakrabbamein betur hjá yngri konum. Það var eitthvað sem mér fannst ég þurfa að gera.“ Gróa vildi leggja sitt af mörkum og fékk með sér í lið góðar vinkonur.
Hún hafði nefnilega sjálf verið farin að skipuleggja jarðarförina sína í huganum og ímynda sér það versta. „Eins og maður kannski gerir í þessari stöðu. Ég var að fá blóm og allt þetta, fólk var auðvitað mjög umhyggjusamt og vildi bera mikla umhyggju fyrir manni á þessum tíma. En mér fannst einhvern veginn bara betra að fá mér gloss eða eitthvað annað sem myndi byggja mig upp. Maður lítur ekkert mjög vel út á þessum tíma.“
Þannig hafi þessi hugmynd sprottið upp, að selja varagljáa til þess að safna fyrir því sem vantaði upp í skimunartækið.
Verður til kraftur í svona samstöðu
Gróa og Guðný Pálsdóttir voru þegar vinkonur og unnu saman hjá Flugfélagi Íslands, saman fóru þær á fund Elísabetar Sveinsdóttur sem hafði yfirumsjón með sölu um borð hjá Icelandair. „Við náðum að sannfæra hana um að það væri mjög góð hugmynd að selja þessa glossa um borð í Icelandair-vélunum og fengum það í gegn.“
Fyrsta árið voru glossarnir einungis seldir um borð vélanna og í fríhöfninni og seldu þær 20 þúsund stykki. Það var aldrei ætlun þeirra þriggja að halda áfram en svo þótti þeim þetta bara svo góð hugmynd að þær ákváðu að endurtaka leikinn ári síðar og safna þá fyrir sumarhúsi langveikra barna.
Þá var heilsa Gróu upp og ofan. „Ég var að ganga í gegnum bæði krabbameinsmeðferð, lyfjagjöf og geisla. Auðvitað var ég eins og maður er á þeim stað. Ég var, og er, með mjög góða vinnuveitendur þannig ég gat unnið bara þegar það hentaði mér og gat einbeitt mér dálítið að þessu og heilsunni.“
Hún segir starf sitt með Á allra vörum hafa hjálpað sér í gegnum meðferðina. „Það er einhver kraftur sem verður til í svona samstöðu. Einhver orka sem gefur manni.“
Fannst fráleit hugmynd að einn daginn myndi hún ekki muna hve margar meðferðirnar voru
Í dag hugsar Gróa aldrei um krabbameinið. „Þetta er bara búið. Ég var mjög heppin, fór bara í gegnum þennan pakka, í gegnum aðgerð og þessa lyfjagjöf og geislana.“ Í fimm ár eftir hafi hún verið í sérstöku eftirliti en í dag fari hún bara í reglulegar skoðanir.
„Þegar maður er í þessu prógrammi þá snýst allt lífið um þetta. Það einhvern veginn kemst ekkert annað að heldur en að komast í gegnum allt þetta.“ Þá hafi einn læknirinn sagt við hana að einn daginn myndi hún ekki muna hve margar meðferðir hún hafi farið í eða hvort hún hafi farið í geisla eða ekki.
„Mér fannst þetta svo mikið bull í honum á þeim tíma, algjörlega fráleit hugmynd því þú verður obsessed af þessu. En í dag gæti ég ekki sagt þér í hve margar meðferðir ég fór. Ég man bara að þetta tók dálítið marga mánuði.“
Þykir erfitt að fá nei
Á allra vörum er góðgerðafélag og þó svo það krefjist mikillar vinnu og skipulagningar að standa í þessari sjálfboðavinnu þá segir Gróa það aldrei hafa verið kvöð. „Þetta er bara svo skemmtilegt, þetta er bara gert í gleði.“
Nokkrir hafa haft orð á því að þegar þær þrjár komi saman sé ákveðin orka sem myndist í kringum þær sem fólk eigi erfitt með að segja nei við. „Okkur þykir líka mjög erfitt að fá nei þegar við biðjum um einhverja greiða,“ segir Gróa og hlær. „Því það erum auðvitað ekkert bara við sem erum að vinna frítt, það eru allir aðrir að vinna frítt líka sem vinna með okkur. Auðvitað er þetta alveg heill hópur af fólki, bæði auglýsingastofur, fjölmiðlar, hönnunarfyrirtæki, heildsölur og alls konar.“
Beina kastljósinu að mikilvægum málefnum
Frá árunum 2008–2013 var Á allra vörum með árlegt átak og safnaði meðal annars fyrir Ljósinu, Neistanum og gjörgæslu geðdeildar Landspítalans. Gróa segir að það geti verið snúið að velja sér verkefni og stundum séu þær ósammála. „En þegar við finnum málefnið þá er eins og við finnum það bara, það er eins og hjartað slái þar.“
Eftir það hafi þær áttað sig á því að það gengi ekki að gera þetta á hverju ári og ákváðu að hvíla sig í eitt ár. Árið 2015 fóru þær af stað með átak þar sem safnað var fyrir bættum samskiptum meðal barna og unglinga þar sem einelti var mikið í deiglunni þá. „Börn voru hreinlega að taka sitt eigið líf og þetta var bara hræðilegt.“
„Á allra vörum gengur líka út á það að fókusera á málefni sem við erum að safna fyrir. Þetta eru ekki bara peningar heldur erum við að beina þjóðinni: Horfið á þetta, hlustið á hvað fólk er að segja sem er að glíma við þetta ákveðna vandamál. Það er það sem við erum að gera líka,“ segir Gróa sem telur að þeim takist það nokkuð ágætlega yfirleitt.
Átak sem situr í manni
Árið 2017 hafði Kvennaathvarfið samband og bað þær að hjálpa sér að safna fyrir húsnæði handa konum sem þurfa á lengri dvöl að halda. Það átak hafi þær unnið í samstarfi við lögregluembættið og fleiri.
Árið 2019 tóku þær þátt í átakinu Vaknaðu. „Það var rosalega flott átak og situr svolítið í manni. Það var á vegum Eitt líf sem var stofnað í kjölfar á láti hans Einars Darra sem dó í maí 2018. Þetta byggir á því að fræða börn og ungmenni og foreldra um hættuna sem fylgir neyslu vímuefna og lyfja, vegna þess að það er rosalega áhætta fyrir börn sem leiðast út í það.“ Gróa segir þær vera mjög stoltar af því átaki.
Í engum vafa um að það takist að safna 100 milljónum
Eftir þetta höfðu þær stöllur ákveðið að gera ekkert meir. „Okkur fannst þetta orðið eiginlega ágætt,“ viðurkennir Gróa. En svo hafi Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Kvennaathvarfsins, haft samband við þær í haust. „Hún er náttúrulega bara einstök manneskja og það er mjög erfitt að segja nei við hana líka.“
Kvennaathvarfið hefur undanfarin ár safnað fyrir nýju húsnæði sem passar betur undir starfsemi þeirra. „Þær eiga sitt húsnæði sem þær eru í núna, sem þær munu selja. En það er gamalt hús á nokkrum hæðum og hentar ekki. Það er alltaf fullt út að dyrum og fullt af börnum því miður.“
Gróa segir að það vanti 80–100 milljónir upp á en hún sé í engum vafa um að það takist. „Þjóðin hefur alltaf tekið mjög vel við sér þegar við höfum farið af stað.“ Þær séu að selja varagljáana og búnar að fá ýmis fyrirtæki með sér í lið til að styðja Kvennaathvarfið og á laugardaginn verður söfnunarþáttur á RÚV klukkan 19:45.
Gleði og orka sem fylgir þessum átökum
Þær séu ekki búnar að ákveða hvort þetta verði þeirra síðasta átak, það verði bara að koma í ljós. „Kannski finnum við eitthvað nýtt 2027.“
Það er ekkert smáræði að safna tæpum milljarði króna til góðgerðamálefna í níu átökum. „Við klöppum hvor annarri mjög oft á bakið og erum mjög stoltar af því sem við höfum áorkað.“
„Við erum líka bara stoltar af öllu þessu fólki sem hefur unnið með okkur í gegnum þetta. Þetta eru hundruð manna og kvenna sem hafa unnið með okkur og allir gefið vinnuna sína. Það er alltaf svo mikil gleði og orka sem fylgir þessum átökum. Það er auðvitað það sem maður sækist í.“
Þær séu líka stoltar af vitundarvakningunni sem hvert átak hefur, að hafa beint kastljósinu að þessum málefnum. „Af því að það lifir pínulítið lengur en átakið sjálft.“
Rætt var við Gróu Ásgeirsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.
Nafnalisti
- Einar Darri18 ára drengur í blóma lífsins
- Elísabet Sveinsdóttirmarkaðsstjóri
- Gróa Ásgeirsdóttirritari
- Guðný Pálsdóttirvinkona
- Linda Dröfn Gunnarsdóttirframkvæmdastýra Kvennaathvarfsins
- Sigurlaug Margrét Jónasdóttirein ástsælasta útvarpskona landsins
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1524 eindir í 90 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 80 málsgreinar eða 88,9%.
- Margræðnistuðull var 1,69.