Rússar og Úkraínumenn samþykkja vopnahlé á Svartahafi
Grétar Þór Sigurðsson
2025-03-25 23:57
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Rússar og Úkraínumenn hafa samþykkt vopnahlé í Svartahafi. Þetta hafa ráðamenn ríkjanna hvort í sínu lagi samið um við erindreka frá Bandaríkjunum. Þetta er niðurstaða friðarviðræðna sem staðið hafa yfir í Sádi-Arabíu síðastliðna þrjá daga. Sendinefndir frá Rússlandi og Úkraínu hafa ekki fundað saman á þeim tíma.
Í tilkynningu bandarískra stjórnvalda segir að fulltrúar frá bæði Rússlandi og Úkraínu ætla að vinna áfram að viðvarandi friði. Ekki var tilgreint í tilkynningunni hvenær vopnahléið á að taka gildi.
Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC segir að rússnesk stjórnvöld hafi lýst því yfir að vopnahléið tæki gildi aðeins ef fjöldi viðskiptaþvingana gegn landinu verði felldar niður.
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti sagði á blaðamannafundi í Kænugarði samkomulag um að hætta átökum á Svartahafi vera skref í rétta átt. Þó væri of snemmt að segja til um hvort vopnahléið næði fram að ganga.
Donald Trump Bandaríkjaforseti var spurður út í afléttingar á viðskiptaþvingunum í kvöld. Hann sagði í samtali við blaðamenn það vera til skoðunar. Í áðurnefndri tilkynningu bandarískra stjórnvalda segir að Bandaríkin ætli að aðstoða Rússa við að koma matvælum og áburði aftur á heimsmarkað, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.
Eftir að innrásarstríð Rússa hófst í febrúar 2022 náðist samkomulag um frið á Svartahafi síðar það sama ár. Úkraína og Rússland flytja bæði út mikið magn af korni en heimsmarkaðsverð þess hækkaði hratt skömmu eftir að stríðið hófst. Samkomulagið var til þess gert að gera flutningaskipum kleift að ferðast til og frá Úkraínu án þess að eiga á hættu að verða fyrir árás Rússa. Rússar riftu samkomulaginu sumarið 2023 eftir að þarlend stjórnvöld sögðu skilmála samkomulagsins ekki hafa verið uppfyllta.
Nafnalisti
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Volodymyr Zelenskyforseti Úkraínu
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 276 eindir í 16 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 14 málsgreinar eða 87,5%.
- Margræðnistuðull var 1,61.