Storytel notar þýðingarvél: „Unnið alltof hratt og undir mikilli pressu“
Guðmundur Atli Hlynsson
2025-03-30 14:15
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Þýðandi segir alltof skamman tíma gefinn til að endurskoða texta sem þýðingarvél vinnur fyrir Storytel á Íslandi. Hann segir að textinn frá þýðingarvélinni minni á þýðingar Google Translate og að mikil vinna fari í að lagfæra hann.
Bækurnar sem þýddar eru á þennan máta eru gefnar út hjá útgáfufélaginu Lind & Co. Móðurfyrirtæki Storytel á Íslandi keypti 70% hlut í félaginu árið 2021. Þýðingar bókanna eru á vegum sænska fyrirtækisins Nuanxed.
Sé leitað að Nuanxed á vef Storytel og önnur tungumál en íslenska síuð frá koma upp 93 niðurstöður. Jóladagatalið Morðgáta um aðventu er að vísu gefið út í tuttugu og fjórum ritum eða „gluggum“. Sé Morðgáta um aðventu talið sem eitt rit eru niðurstöðurnar því sjötíu.
Íslenskir þýðendur eru skráðir fyrir öllum þýðingunum ásamt Nuanxed. Á leitir.is er aðild Nuanxed í sumum tilfellum skráð sem „Nuanxed (gervigreind) þýðandi“.
Gervigreind er víða orðin notuð við textagerð. Til dæmis hefur skrifstofa Alþingis notað talgreini sem byggir á gervigreind til að skrifa upp ræður þingmanna og fyrirtækið Advania notað gervigreind við gerð texta- og myndefnis fyrir auglýsingaherferð.
Á vef RÚV er að finna erlendar fréttir undir merkjum „Evrópsks sjónarhorns“ sem eru þýddar með hjálp gervigreindar. Fréttirnar eru yfirfarnar og lagfærðar fyrir birtingu og þess getið að gervigreind sé notuð við þýðingu þeirra.
Samspil þýðingarvélar og mennsks þýðanda
Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi, segir Storytel nota nokkrar þýðendaþjónustur.
„Ein af þeim er Nuanxed sem notar mannlegar þýðingar nema með annarri nálgun,“ segir Lísa í skriflegu svari til fréttastofu.
„Hver þýðing hefst á því að bók er sett í gegnum þýðingarvél, útkoman er síðan vandlega endurskoðuð af faglegum þýðanda (post-edited) og að lokum yfirfarin af faglegum prófarkalesara.“
Robert Casten Carlberg framkvæmdastjóri Nuanxed, sem áður starfaði fyrir Storytel, segir í svari til fréttastofu að fyrirtækið létti byrði þýðenda með því að bera meginþunga þýðinga „svo þýðendur geti einbeitt sér að skapandi þáttum“.
Carlberg segir enga Íslendinga starfa hjá fyrirtækinu en að það ráði til sín íslenska þýðendur, ritstjóra og prófarkalesara sem verktaka.
Hvorki Lísa né Carlberg staðfestu hvort einhvers konar gervigreind væri beitt við þýðingarnar.
Segir tæknina ekki orðna nægilega góða
Þiðrik Emilsson
Guðrún C. Emilsdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, telur tækni vélþýðinga ekki vera komna nógu langt til að hún sé notuð til grundvallar við þýðingu heilla bóka.
„Við erum ekkert á móti því að gervigreind sé notuð sem hjálpartól. En hana á ekki að nýta til að þýða heilu bækurnar og við erum á móti því að notað sé verk sem aðrir hafa samið til að þjálfa gervigreindina.“
Hún segir að talsverða vinnu fara í að yfirfara texta sem kemur frá þýðingarvélum.
„Vélþýðingarnar eru enn ekki orðnar svo góðar. Þegar þú ert að fara yfir svona texta ertu í raun að vinna hann upp á nýtt. Það má segja að það sé verið að þýða vélþýðinguna; það er verið að laga textann svo mikið,“ segir Guðrún.]] Það væri skömminni skárra ef þetta væri annað efni en skáldsögur. Við þýðingu slíkra verka verður að huga að tón, ljóðrænu textans og spennu. [[-Þýðandi sem unnið hefur að þýðingum á vegum Nuanxed.
Of skammur tímarammi
Þýðandi sem hefur þýtt bækur fyrir Storytel á Íslandi á vegum Nuanxed og vill ekki koma fram undir nafni segir mörgu ábótavant í þýðingunum. Þær komi óvandaðar úr þýðingarvél og það fari mikil vinna í að lagfæra textann. Þýðendum sé hins vegar gefinn lítill tími til að vinna með textann.
„Það er sjálfsagt hægt að nota tölvur og tæki til að hjálpa við þýðingar og það er allt í lagi. En þetta er unnið alltof hratt og undir alltof mikilli pressu,“ segir þýðandinn.
Spurður hvort textinn sem honum bærist væri unninn af gervigreind sagðist þýðandinn ekki þekkja tækni Nuanxed nægilega vel til að svara því. Hann sagði þýðingarnar hins vegar vera svo lélegar að þær væru sambærilegar við texta þýddan af þýðingarvél Google, Google Translate.
„Það væri skömminni skárra ef þetta væri annað efni en skáldsögur. Við þýðingu slíkra verka verður að huga að tón, ljóðrænu textans og spennu,“ sagði hann að lokum.
Þessi frétt er unnin af meistaranema við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.
Nafnalisti
- Google Translateþýðingarforrit
- Guðrún C. Emilsdóttirformaður Bandalags þýðenda og túlka
- Lindfasteignasala
- Lísa Björk Óskarsdóttirframkvæmdastjóri Storytel á Íslandi
- Robert Casten Carlberg
- Storytelstreymisveita
- Þiðrik Emilsson
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 746 eindir í 44 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 38 málsgreinar eða 86,4%.
- Margræðnistuðull var 1,67.