„Ef landris fer aftur af stað þá er tímabil óvissu“
Ragnar Jón Hrólfsson
2025-04-01 21:08
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, telur að ef landris hefst á ný eftir eldgosið í dag taki við tímabil óvissu. Ómögulegt sé að segja til um framhaldið á meðan eldgos er enn í gangi og jarðskjálftavirkni mælist.
Líklegasta sviðsmyndin sem rætt var um fyrir eldgosið sem hófst í dag var stórt gos og stuttur aðdragandi. Raunin varð hins vegar önnur og kvikugangurinn sem myndast hefur yfir daginn var í aðalhlutverki segir Freysteinn sem var gestur í Kastljósi í kvöld.
Atburðurinn í dag hafi verið stór þrátt fyrir að gosið hafi verið lítið. Þetta sé sambærilegt við stærsta atburðinn sem hafi átt sér stað 10. nóvember 2023 þegar hrinan hófst. Þá hafi langmest magn kviku flætt þrátt fyrir að ekki hafi komið til eldgoss.
Kvikugangurinn sem myndaðist í dag er sá næstlengsti sem myndast hefur í eldgosahrinunni á Reykjaneskaga síðan eldgoshrinan hófst 10. nóvember 2023. Hann teygir sig alls um 20 kílómetra frá enda til enda og nær lengra norður en áður hefur sést. Sá sem myndaðist þann 10. nóvember var þó líklega fimm sinnum stærri.
Kvikan færðist að mestu inn í kvikuganginn
„Kvikugangar eiga auðvelt með að opnast í jarðskorpunni þegar það eru kraftar sem hægt er að leysa úr læðingi,“ segir Freysteinn. Ísland liggur á flekaskilum þar sem flekarnir færast í sundur og byggjast sífellt upp
„Og við héldum kannski að það væri búið að leysa þessa krafta úr læðingi en svo var ekki og það sem kom mér mest á óvart í dag er hvað þessi kvikugangur er stór hluti,“ segir hann. Í síðasta eldgosi hafi kvikugangurinn verið lítill og mestallt hraun komið upp á yfirborðið.
„En núna virðist mestallt magnið af þessari kviku sem fór á hreyfingu hafa komið sér fyrir í kvikuganginum,“ segir Freysteinn en kvikan komi síðan til með að storkna og haldi þannig áfram að mynda jarðskorpu Íslands.
Erfitt að segja til um framhaldið
Líkt og margir aðrir sérfræðingar í dag segir Freysteinn ómögulegt að meta hvað tekur við eftir daginn í dag. Til þess þurfi að bíða að minnsta kosti tvær til þrjár vikur svo hægt sé að meta hvort landris hefjist að nýju.
„Ég lít á það þannig að við þurfum að byrja á að sjá þennan atburð klárast,“ segir Freysteinn. „Ég held að langlíklegasta sviðsmyndin sé að það taki við kvikuinnstreymi, eða að það haldi áfram,“ segir Freysteinn sem telur mögulegt að kvikuinnstreymi hafi í raun aldrei hætt á þeim 15 mánuðum sem goshrinan hefur staðið yfir.
Ef landris hefst að nýju skapast óvissa
„Ef það byrjar aftur þá er því miður nauðsynlegt í mínum huga að líta á það tímabil sem óvissutímabil,“ segir hann.
„Við getum ekki sagt hvort þetta hafi verið lokahnikkurinn á þessari atburðarás eða hvort það þurfi annað eldgos eða eitthvað meira eða hvort kvikan ætli að hreyfa sig,“ segir Freysteinn. „Ef landris fer aftur af stað þá er tímabil óvissu og þá er dálítið erfitt að meta hvert það leiðir.“
Freysteinn segist skilja að mikill hugur sé í Grindvíkingum að hefja endurreisn bæjarfélagsins og hann skilji það sjónarmið. Hans mat sé þó að ekki sé hægt að lýsa yfir endalokum atburðarásarinnar.
Talað hefur verið um að komið sé að endalokum goshrinunnar á Reykjanesskaga. Meðal annars hefur Benedikt Ófeigsson, aðstoðarforstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, spáð fyrir því. Ástæðan fyrir því að talað er um að komið sé að endalokum eldgosanna er að hægt hefur á kvikuinnstreymi. Því sé mögulegt að flæði verði svo lítið að ekki myndist nægilegur þrýstingur fyrir nýju eldgosi.
„Það kann að vera og það væri kannski óskandi en líklegast er tímabil óvissu áfram,“ segir Freysteinn.
Nafnalisti
- Benedikt Ófeigssonjarðeðlisfræðingur
- Freysteinn Sigmundssonjarðeðlisfræðingur
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 635 eindir í 32 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 30 málsgreinar eða 93,8%.
- Margræðnistuðull var 1,64.