Sæki samantekt...
Bandaríska innflytjendalögreglan handtók í gær Mahmoud Khalil, einn af leiðtogum stúdentamótmælanna gegn stríði Ísraels í Gaza í Columbia-háskóla. Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti um þetta í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter).
Í færslunni var tekið fram að gripið hefði verið til þessa ráðs í samráði við utanríkisráðuneytið til að framfylgja stjórnartilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um bann við Gyðingahatri. Þá var haldið fram að Khalil hefði stýrt starfsemi í þágu Hamas.
Khalil var einn af leiðtogum setumótmæla gegn Gazastríðinu á háskólasvæði Columbia-háskóla í fyrra. Hann er kvæntur bandarískri konu og á von á barni með henni. Khalil er handhafi græns korts og er því með fasta búsetu í Bandaríkjunum.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, deildi frétt um handtöku Khalil á samfélagsmiðlum og sagði yfirvöld hyggja á að svipta „stuðningsmenn Hamas í Bandaríkjunum“ vegabréfsáritunum og/eða grænum kortum svo hægt verði að vísa þeim úr landi.
Mahmoud Khalil hafnar því að mótmælahreyfingin sem hann tók þátt í hafi einkennst af Gyðingahatri og segir hana hafa verið friðarhreyfingu sem stúdentar úr röðum Gyðinga hafi tekið þátt í.
Trump hefur þegar beint spjótum sínum að Columbia-háskóla fyrir þær sakir að hafa ekki verndað nemendur fyrir Gyðingahatri. Á föstudaginn svipti stjórn hans háskólann styrkjum upp á 400 milljónir dollara og vísaði til aðgerðaleysis skólayfirvalda í ljósi áreitni í garð nemenda úr röðum Gyðinga.
Í kjölfarið uppfærði Columbia-háskóli starfsreglur sínar svo leyfilegt væri að hleypa embættismönnum frá innflytjendastofnunum alríkisins inn á einkalóðir skólans án handtökuskipunar frá dómara í „bráðnauðsynlegum aðstæðum“. Ekki var tekið fram hvernig slíkar aðstæður skyldu skilgreindar.
„Hvað getur Columbia meira gert til að friðþægja þingið eða ríkisstjórnina núna?“ spurði Khalil í viðtali við Reuters, fáeinum klukkustundum áður en hann var handtekinn. „Þau þögguðu meira og minna niður í öllum sem studdu Palestínu á skólalóðinni og það nægði ekki til. Augljóslega er Trump að nota mótmælendurna sem blóraböggul vegna breiðari markmiða sinna um að berja á háskólamenntun og á Ivy League-menntakerfinu.“
Nafnalisti
- Columbiaútgáfurisi
- Donald Trump Bandaríkjaforsetafrændi hennar
- Ivynafn
- Mahmoud Khalil
- Marco Rubioöldungadeildarþingmaður
- Trumpkjörinn forseti Bandaríkjanna
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 336 eindir í 16 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 15 málsgreinar eða 93,8%.
- Margræðnistuðull var 1,67.