Hátt í þúsund drepnir síðan vopnahlé á Gaza var rofið
Hugrún Hannesdóttir Diego
2025-03-31 00:34
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Að minnsta kosti 64 voru drepnir í árásum Ísraelshers á Gaza í gær að sögn palestínskra heilbrigðisyfirvalda og hátt í þúsund hafa verið drepnir síðan Ísrael rauf vopnahlé 18. mars. Viðræður um vopnahlé halda áfram en framvinda þeirra er óljós.
Rauði hálfmáninn á Gazasagðist í gær hafa fundið jarðneskar leifar fjórtán viðbragðsaðila eftir árás Ísraelshers á neyðarbíla í Rafah, syðst á Gaza, í liðinni viku. Meðal þeirra hefði verið starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og átta starfsmenn Rauða hálfmánans. Þriggja væri enn leitað.
Tvær tillögur á samningaborðinu
Aðalsamningamaður Hamas sagði um helgina að samtökin hefðu samþykkt tillögu samningamanna frá Egyptalandi og Katar að vopnahléi. Ísraelar lögðu hins vegar fram móttillögu. Ekki er fyllilega ljóst hvað tillögurnar fela í sér.
Erlendir miðlar hafa eftir heimildarmönnum að tillaga Egypta og Katara feli í sér 50 daga vopnahlé. Verði hún samþykkt séu Hamas reiðubúin til þess að leysa fimm gísla úr haldi í hverri viku á gildistíma þess. Ísraelar krefjist þess í móttillögunni að Hamas sleppi tíu gíslum.
Ísraelsk stjórnvöld ákváðu á laugardag að auka hernaðarþunga enn frekar í þeim tilgangi að þrýsta á Hamas að sleppa gíslum úr haldi.
Tugþúsundir mótmæltu í Tel Aviv í Ísrael á laugardag og sökuðu stjórnvöld um að setja lausn gísla ekki í forgang. Stjórnvöld hafa ítrekað verið borin þessum ásökunum en halda því fram að hernaðurinn á Gaza miðist að því að frelsa gíslana.
Tæplega sextíu gíslar eru enn í haldi Hamas og af þeim telur Ísraelsher að 34 séu látnir.
Leiðtogar Hamas fái að yfirgefa Gaza
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels sagði í gær að leiðtogum Hamas-samtakanna verði leyft að yfirgefa Gaza leggi samtökin niður vopn. Hamas hafa áður hafnað því skilyrði.
Netanjahú sagði í gær að Ísraelar væru reiðubúnir að semja um lausn gísla úr haldi Hamas en að hernaðarlegur þrýstingur hefði borið árangur. Sambland af hernaðarlegum og diplómatískum þrýstingi hefði skilað gíslum heim úr haldi Hamas.
Hamas hafa hins vegar varað við því að áframhaldandi árásir stofni lífi gíslanna í hættu.
Netanjahú sagði að þegar væri farið að bera á brestum í kröfum Hamas. Á lokastigum stríðsins myndu Hamas leggja niður vopn og þá fengju leiðtogar samtakanna að halda á brott. Ísraelar myndu tryggja öryggi á Gaza og styðja við innleiðingu áforma Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Tillaga Trumps um brottflutning Palestínumanna af Gaza vakti hörð viðbrögð, ekki síst frá Egyptalandi og Jórdaníu, sem hann lagði til að tækju við íbúum Gaza.
Nafnalisti
- Benjamín Netanjahúfyrrverandi forsætisráðherra
- Donald Trump Bandaríkjaforsetafrændi hennar
- Rafahborg
- Trumpskosningabarátta
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 407 eindir í 26 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 24 málsgreinar eða 92,3%.
- Margræðnistuðull var 1,74.