Samstaða á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins
Innanríkisráðuneyti
2025-04-04 13:47
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Aukin framlög til varnarmála, innrásarstríðið í Úkraínu og samstarf við Indó-Kyrrahafsríkin og Evrópusambandið voru meðal helstu umræðuefna á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í höfuðstöðvum þess í Brussel í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sótti fundinn sem var fyrsti fundur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, með utanríkisráðherrum bandalagsins.
Ráðherrafundurinn hófst í gær þegar bandalagsríkin þrjátíu og tvö ræddu sameiginlegar varnir og jafnari byrðar innan bandalagsins. Mörg Evrópuríki hafa nýverið tilkynnt um verulega aukningu framlaga til varnarmála og lagði Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, áherslu á að bandalagsríkin haldi áfram á þeirri vegferð. Einnig var rætt um ógnina sem steðjar frá Rússlandi og áframhaldandi stuðning við Úkraínu í bráð og lengd.
Einnig var fundað með samstarfsríkjum Atlantshafsbandalagsins á Indó-Kyrrahafssvæðinu, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan og Suður-Kóreu. Rætt var um sameiginlegar áskoranir sem og samofna öryggishagsmuni, Kína og vaxandi samstarf þess við Rússland, meðal annars á norðurslóðum. Þá var stríðið í Úkraínu og íhlutun og stuðningur Norður-Kóreu og annarra ríkja einnig til umfjöllunar. Samstarf Atlantshafsbandalagsins við Indó-Kyrrahafsríkin fjögur hefur farið vaxandi á undanförnum árum og kom fram ríkur vilji til að dýpka það samstarf enn frekar, m.a. á sviðum nýsköpunar, varnarframleiðslu og netvarna.
Í lok dags var fundað í NATO-Úkraínuráðinu þar sem Andrei Sybihia, utanríkisráðherra Úkraínu, tók þátt, auk Kaja Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins (ESB). Til umræðu var staðan á vígvellinum og helstu varnarþarfir Úkraínu, sem og horfur á vopnahléi og langvarandi friði.
Í morgun, á 76. afmælisdegi Atlantshafsbandalagsins, funduðu utanríkisráðherrar bandalagsins með utanríkismálastjóra ESB. Til umræðu var þéttara samstarf Atlantshafsbandalagsins og ESB, stuðningur við Úkraínu og jafnari byrðar Evrópu hvað varðar varnir álfunnar. Utanríkismálastjóri ESB kynnti m.a. nýlega hvítbók sambandsins og ákvarðanir ESB um aukin útgjöld til varnarmála og innspýtingu í varnartengdan iðnað í Evrópu.
„Við stöndum á tímamótum í öryggis- og varnarmálum og erfitt er að spá fyrir um þróun stríðsins í Úkraínu og friðarumleitanir sem Bandaríkin leiða. Afar öflug samstaða var á fundum bandalagsins, bæði er varðar mikilvægi Atlantshafstengslanna og áframhaldandi öflugan stuðning við Úkraínu, og alveg skýrt að Rússland er helsta ógnin sem steðjar að bandalaginu. Það er algjörlega ljóst að örlög Úkraínu hafa víðtæk áhrif á öryggi bandalagsríkja og víðar og sterkt samband yfir Atlantshafið er ávallt okkar beittasta vopn. Atlantshafsbandalagið stendur sterkt á 76. afmælisdegi sínum“, segir Þorgerður Katrín.
Til hliðar við fundarlotur Atlantshafsbandalagsins funduðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna með utanríkisráðherra Kanada, m.a. um Atlantshafstengslin og málefni Úkraínu. Þá átti Þorgerður Katrín samtöl við utanríkisráðherra Kanada, Tyrklands og Belgíu um málefni Úkraínu, stöðu mála í Miðausturlöndum og norðurslóðamál.
Nafnalisti
- Andrei Sybihia
- Kaja Kallasforsætisráðherra Eistlands
- Marco Rubioöldungadeildarþingmaður
- Mark Ruttefráfarandi forsætisráðherra Hollands
- Norður-Kóreualþýðulýðveldi
- Nýja-Sjálandiaðeins var hægt að komast undan með því að greiða sjálf fullt verð fyrir hótelgistinguna
- Suður-Kóreunágrannaríki
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttirformaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 441 eind í 20 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 19 málsgreinar eða 95,0%.
- Margræðnistuðull var 1,61.