Snædís Xyza: „Ég var alltaf hrædd að koma heim“
Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
2025-04-04 12:10
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Snædís Xyza Mae Jónsdóttir er margverðlaunaður matreiðslumeistari og hefur verið hluti af íslenska kokkalandsliðinu frá árinu 2016. Hún var fyrirliði liðsins á heimsmeistaramótinu árið 2018 og kom hún Íslandi á verðlaunapall á Ólympíuleikunum árið 2020. Í dag starfar hún sem yfirmatreiðslumaður á Fröken Reykjavík Kithen & Bar og þjálfar íslenska kokkalandsliðið samhliða.
Árangur Snædísar er magnaður en hún hefur þurft að vaða eld og brennistein til að komast á þann stað sem hún er í dag.
Snædís er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Þú getur horft á þáttinn hér að neðan eða hlustað á Spotify.
Please enable JavaScript [[play-sharp-fill
Í viðtalinu lýsir Snædís stormasamri æsku sem einkenndist af ofbeldi af hálfu móður hennar. Hún greinir einnig frá upplifun sinni af fósturkerfinu sem átti að bjarga henni en þar varð hún fyrir kynferðisofbeldi. Á síðasta fósturheimilinu komst hún að því að fjölskyldufaðirinn hafði verið dæmdur og setið inni fyrir manndráp. Í kjölfarið var hún tekin af heimilinu og fékk að búa ein þó að hún væri ekki orðin átján ára. Hún þurfti því að læra ung að sjá um sig sjálfa en lét það ekki stoppa sig.
Snædís ákvað að fara í kokkanám þegar hún var 25 ára og er óhætt að segja að hæfileikar hennar hafi komið fljótt í ljós. Hún hefur verið einn fremsti kokkur okkar Íslendinga um árabil og hlotið ótal viðurkenningar fyrir störf sín.
Fæddist á Filippseyjum
Snædís er fædd á Filippseyjum og þegar hún var um eins til tveggja ára gömul kynntist móðir hennar íslenskum manni, flutti til Íslands og skildi Snædísi eftir. Snædís segist lítið muna eftir þessum tíma á Filippseyjum en hún man þegar mamma hennar kom að sækja hana nokkrum árum seinna. Hún var þá fjögurra ára gömul og þekkti ekki konuna sem sagðist vera mamma hennar. En það sem vakti meiri áhuga var maðurinn með henni, nýi pabbi hennar, sem var hvítur og með blá augu. Snædís hafði aldrei séð hvíta manneskju áður og segir að hún hafi starað lengi á hann.
Með foreldrum hennar í för var hálfbróðir hennar. Henni var tilkynnt að þau væru fjölskylda hennar og nú ætti hún að flytja til Íslands með þeim.
„Ég fann mjög sterkt að ég þurfti að aðlagast samfélaginu,“ segir Snædís um tímann eftir flutningana til Dalvíkur.
„Í minningunni hef ég alltaf verið mjög opin, langaði að kynnast fólki, var ófeimin við að labba upp að fólki og spyrja það út í alls konar […] en það sem var heima fyrir voru mjög vondar aðstæður. Ég var alltaf hrædd að koma heim, aðstæðurnar voru ekki alveg nógu góðar uppeldislega séð. Mikið um niðurrif og líkamlegt og slíkt.“
Snædís talar hlýlega um Jón, pabba sinn. Hún segir að þetta hafi verið erfitt og að móðir hennar hafi alltaf notað það gegn honum að hún væri ekki líffræðileg dóttir hans og hann hefði því engan rétt gagnvart henni.
„Hann, í laumi, var alltaf til staðar fyrir mig. Að bera krem á sárin eða slíkt,“ segir hún.
Skólahjúkrunarfræðingur sá örin
Snædís segir að ofbeldið hafi byrjað fljótlega eftir að hún kom til Íslands. Hún man þegar hún áttaði sig á að þetta væri eitthvað sem ekki mætti gera. „Það var ekki fyrr en ég var sex ára sem ég fattaði: Já, þetta má ekki,“ segir hún og rifjar upp aðdragandann.
„Einn morguninn réðst mamma á mig með stól og hann fór í bakið á mér og það byrjaði að blæða. Ég fór grátandi í skólann og kennari tók á móti mér og spurði hvað væri að. Ég sagði: „Æi, ég var svo óþekk, ég kláraði ekki hafragrautinn minn.“ Svo fórum við inn í skólastofuna, en svo fór að blæða úr bakinu á mér og ég var dregin inn til skólahjúkrunarfræðingsins,“ segir Snædís.
„Ef maður myndi skoða bakið á mér þá eru alveg einhver ör þar, og hjúkrunarfræðingurinn sá það. Í minningunni finnst mér eins og það hafi verið sagt við mig að þetta mætti ekki, að það mætti alls ekki gera svona við börn eða aðrar manneskjur og að fólk sem gerir svona færi í fangelsi […] Svo kom ég heim og mamma var alveg brjáluð.“
Skólinn hafði hringt í mömmu Snædísar og síðan var Snædís send ein heim, beint í gin ljónsins.
„Ég man bara á einhverjum tímapunkti sagði ég við mömmu: „Þú veist að þú mátt ekki gera þetta, löggan tekur þig.“ Þá kom hún með eitthvað svar á móti, að löggan tæki bara óþekk börn eins og mig. Ég man að þetta ruglaði mig í ríminu, að kannski væri þetta rétt hjá henni, að ég væri vond og ætti að vera lamin. Að ég verðskuldaði þetta fyrir að vera óþekk.“
Var læst úti og gisti stundum í garðinum
„Ég man þegar ég var lítil þá langaði mig aldrei heim til mín. Á þeim tíma voru allir úti að leika. Maður fór á einhvern leikvöll og fann krakka þar til allir þurftu að fara heim, en þegar ég þurfti að fara heim var ég eitthvað að dóla mér. En hún læsti mig líka rosalega oft úti. Þá var ég bara eitthvað á vappinu klukkan níu, tíu á kvöldin.“
Snædís rifjar upp eitt skipti þegar hún bankaði heima hjá vinkonu sinni og bað um að fá að gista, þar sem hún væri læst úti og klukkan orðin margt og hún vildi helst ekki sofa í garðinum, sem hún þurfti stundum að gera.
„Mamma vinkonu minnar leiddi mig heim, alveg brjáluð, bankaði upp á og skammaði mömmu fyrir að hafa læst mig úti. Og ég fékk alveg að finna fyrir því, að ég hafi verið að „klaga“ og ég hefði bara átt að vera úti í garði.“
Réðst á hana eftir sjálfsvígstilraun
Þegar Snædís var ellefu ára var hún send í fóstur eftir að barnavernd greip loksins inn í. Nokkrum árum síðar var hún aftur send til mömmu sinnar og segir hún ofbeldið bara hafa orðið grófara og aðstæður erfiðari. Aðspurð hvort henni finnist kerfið hafa brugðist sér segir Snædís: „Já og nei.“
Mamma Snædísar í dag, sem hún kallar mömmu og hefur komið henni í móðurstað, hún Eyrún, var að vinna hjá Barnavernd og var með mál Snædísar hjá sér.
„Núna er maður fullorðinn og setur sig í spor annarra, að ímynda sér hvað hefur gerst hjá henni. Hún horfir á mig og ég er lítil stelpa og hana langar að bjarga mér, þannig hún reynir að koma mér úr einhverjum aðstæðum sem henni finnst ekki boðlegar, og sendir mig á einhver tvö önnur fósturheimili og það fer allt í skrúfuna þar. Hún var að reyna að bjarga mér, og tókst það í raun og veru ekki. Þegar ég flutti aftur til blóðmóður minnar þá var ég komin það djúpt að ég vildi enda lífið og reyndi það. Ég endaði uppi á sjúkrahúsi og rankaði við mér uppi á barnageðdeild.“
Blóðmóðir Snædísar sótti hana á spítalann. „Á leiðinni heim réðst hún á mig fyrir framan almenning. Hún eiginlega sagði mér að ég væri svo misheppnuð að hafa ekki náð að klára þetta [sjálfsvígstilraunina], hún hefði litið betur út þannig,“ segir hún.
„Við endum í fangaklefa því það hringir einhver á lögguna því það voru vitni að þessu.“
Á þessum tíma var Snædís um 15–16 ára gömul. Það stóð til að senda hana á Stuðla en mamma Eyrún greip inn í. „Hún sagði að ég ætti ekki heima á Stuðlum og ég mætti koma til hennar.“
Snædís bjó hjá Eyrúnu um tíma og fjölskyldu hennar, sem í dag eru fjölskylda Snædísar. „Hún bjargaði lífi mínu,“ segir Snædís.
Dæmdur fyrir manndráp
Snædís flutti hálfu ári síðar suður til að læra hárgreiðslu og hjálpaði Eyrún henni að finna fósturheimili á höfuðborgarsvæðinu.
„Þar var maðurinn búinn að sitja inni fyrir manndráp, ég vissi það ekkert, það voru alls konar hlutir sem gengu á inni á heimilinu,“ segir hún og bætir við að hún velti því fyrir sér hvort að hver sem er geti fengið að vera fósturforeldri, enda hafi hún upplifað mikið og erfiða hluti á þeim heimilum sem hún var sett á.
Eftir að það komst upp um dóm fjölskylduföðursins var Snædís flutt af heimilinu og fékk að búa ein fyrir norðan. Hún þurfti ung að læra sjá um sig sjálfa en lét það ekki stoppa sig. Horfðu á þáttinn með Snædísi hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.
Fylgdu Snædísi á Instagram og TikTok.
Nafnalisti
- Eyrúnrafmagnsverkfræðingur með meistaragráðu frá DTU í Danmörku
- Fröken Reykjavík Kithen
- Jónseðlabankastjóri
- Pleasevinnuheiti
- Snædís Xyza Mae Jónsdóttirmatreiðslumeistari
- TikToksamfélagsmiðill
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1523 eindir í 80 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 74 málsgreinar eða 92,5%.
- Margræðnistuðull var 1,65.