Sjávarútvegssveitarfélög: lýsa andstöðu við hækkun veiðigjalds
Ritstjórn Bæjarins besta
2025-03-31 08:40
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa sent frá sér ályktun þar sem þau lýsa yfir eindreginni andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda enda geti ríkisstjórnin ekki sýnt fram á áhrif hækkunar á sveitarfélög.
Í ályktuninni segir að hækkunin geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar. Þá sé óásættanlegt að engin gögn hafi verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög.
„Við teljum þessa tillögu bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið.
Samtökin skora á ríkisstjórnina að staldra við og hefja gagnsætt samtal við hagaðila um sanngjarna og rökstudda nálgun á grundvelli greininga á áhrifum á ekki eingöngu fyrirtæki heldur einnig sjávarútvegssveitarfélög. Í framhaldinu verði lögð fram endurskoðuð tillaga byggð á samtölum og greiningum.“
Í samtökum sjávarútvegssveitarfélaga eru 26 sveitarfélög á landinu, þar á meðal fimm sveitarfélög á Vestfjörðum. Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð er einn stjórnarmanna.
Nafnalisti
- Gerður B. Sveinsdóttir
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 195 eindir í 9 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 9 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,64.