Viðbúinn hærra vöruverði og færri ferðamönnum vegna tolla
Sunna Sæmundsdóttir
2025-03-11 12:14
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Mögulegt tollastríð gæti haft umtalsverð áhrif á íslenskan almennig að mati seðlabankastjóra. Vöruverð gæti hækkað og ferðamenn síður skilað sér til landsins. Seðlabankinn vinnur að greiningu á líklegum áhrifum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri mættu í morgun fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til þess að fara yfir skýrslur peningastefnunefndar Seðlabankans á síðasta ári þar sem þeir voru spurðir um möguleg áhrif boðaðra tollastríða.
Ásgeir sagði áhrifin geta reynst töluverð og líkti þeim við það sem sást í Covid þegar framleiðslukeðjur rofnuðu.
„Við gætum verið að sjá verð á vörum hækka á alþjóðamarkaði. Það gæti alveg haft áhrif hér. Verð á bílum hækkaði, Ísland flytur inn allar varanlegar neysluvörur eins og bíla og þvottavélar og þetta gæti allt saman hækkað.“
Tollastríð geti haft áhrif á hagvöxt á heimsvísu og þar á meðal á Íslandi. Eftirspurn eftir vörum dragist saman auk þess sem það sem keypt sé frá útlöndum verði dýrara. Þetta geti haft áhrif á verðbólgu.
„Það sem ég heyri úti, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu er að seðlabankar þar eru farnir að óttast að þeir muni ekki geta lækkað meira og í Bandaríkjunum eru menn meira segja farnir að velta því fyrir sé að seðlabankinn þurfi að hækka vexti.“
Ferðaþjónustan á Íslandi sé auk þess rekin áfram á bandarískum ferðamönnum að miklu leyti.
„Ef það fer að verða mjög mikill óstöðugleiki í Bandaríkjunum og jafnvel kreppa að þá mun það koma fram í færri heimsóknum til okkar og ég held að það séu þau áhrif sem við þurfum kannski helst að hafa áhyggjur af.“
Íslendingar geti reynst í erfiðri stöðu færist heimurinn að einhverju leyti úr bandalögum í tvíhliða samninga.
„Öll ríki eru stór og munu beita afli gegn okkur. Fara að heimta eitthvað í staðinn, fiskveiðiheimildir, einhver réttindi eða eitthvað annað. Svo er það líka ða við flytjum vörur út til landa og kaupum vörur frá öðrum löndum. Þannig um leið og við förum að leggjast í tvíhliða samninga og tollasamninga erum við komin aftur í kreppuna miklu þar sem við þurftum að afnema vínbann á Íslandi og kaupa Spánarvín til að geta selt saltfisk til Spánar,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en seðlabankinn vinnur nú að greiningu á mögulegum efnahagslegum áhrifum tollastríðs á íslenskan þjóðarbúskap.
Nafnalisti
- Ásgeir JónssonSeðlabankastjóri
- Covidveginn spítali
- Þórarinn G. Péturssonaðalhagfræðingur
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 389 eindir í 19 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 17 málsgreinar eða 89,5%.
- Margræðnistuðull var 1,61.