„Ég er að gera leikhús til að bjarga heiminum“
Anna María Björnsdóttir
2025-04-03 12:46
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
„Ég er ein af þeim heppnu sem vissi hvað ég vildi gera frá því ég var pínulítið barn,“ segir Hólmfríður Hafliðadóttir leikkona. Hún er nýútskrifuð úr leiklistarnámi Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í fjölda uppsetninga undanfarið ár.
Í kvöld leikur Hólmfríður í tveimur verkum í Tjarnarbíói á viðburði sem kallast Tvíhleypan þar sem sýnd verða Systir mín Matthildur eftir Gígju Hilmarsdóttur og Þöglar byltingar eftir Magnús Thorlacius.
Hólmfríður minnist þess þegar hún var þriggja ára og lék fyrir foreldra sína og gesti í matarboðum. Það sé til handrit eftir hana þar sem hún teiknaði upp brandarann um Drauginn með bleiku nærbuxurnar fyrir vinkonu sína svo hún gæti leikstýrt henni betur. „Þannig ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera, það var að búa til leikhús,“ segir hún í samtali við menningarvef RÚV.
Ef hún skammaðist sín fyrir drauminn myndi hann aldrei rætast
Þegar Hólmfríður var níu ára lék hún í Söngvaseið í Borgarleikhúsinu, full af sjálfsöryggi og orku. „Síðan fer ég á unglingsaldurinn og missi sjálfstraustið. Þá fer ég svolítið að efast um að ég hafi kannski burðina í það.“
Í menntaskóla fór hún í skiptinám til Argentínu þar sem hún var ekki að gera neitt leiklistartengt og leiddist gífurlega. „Mér fannst það ógeðslega leiðinlegt og ákvað að nú myndi ég segja fólki að ég ætlaði að verða leikkona. Af því að ef ég segði það ekki, ef ég skammaðist mín fyrir drauminn, þá myndi hann aldrei rætast.“
Verandi dóttir markþjálfa settist Hólmfríður niður og skrifaði niður hvað hún þyrfti að gera til þess að láta verða af þessu. „Listinn endaði ekki á því að fara í leiklistarskóla, listinn endar á því að ég er 79 ára og er enn að leika eins og Kristbjörg Kjeld.
Sá að það skiptir máli að geta búið til eigin tækifæri
Hún fór að skoða sig um, sjá hvaða skólar væru í boði og hvað fólk væri að gera eftir útskrift. „Ég sá það strax að það eru ekkert allir sem útskrifast sem fá samning beint hjá stóru leikhúsunum, heldur skiptir ótrúlega miklu máli að skerpa þau tól og geta búið til þín eigin tækifæri.“
Hólmfríður ákvað því að rækta höfundinn í sjálfri sér og hefur unnið náið með sviðshöfundanemum og verið mikið í samsköpun og spuna síðan. „Mér hefur fundist mjög mikilvægt að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti gert ýmislegt.“
Hún útskrifaðist úr leiklistarnámi í fyrravor og hefur verið að vinna sem sjálfstætt starfandi leikkona síðan. „Ég er bara að vinna með vinum mínum og leika mér og skemmta mér. Ég segi oft að ég sé að tralla og trítla og það er bara nákvæmlega það sem ég er að gera. Það er svo gaman hjá mér.“
Hólmfríður og Vilberg Andri Pálsson í verkinu Skeljar eftir Magnús Thorlacius. Aðsend/Hafsteinn S
Fær að sýna af sér ólíkar hliðar
Hólmfríður segir sviðshöfunda vera skemmtilegasta fólkið og þykir heiður að fá að vinna með þeim. Hún hafi lært mikið á því að starfa sjálfstætt og taka þátt í fjölbreyttum uppsetningum. „Ég sá strax að það er mjög auðvelt að vera type-castaður í þessum heimi en ef þú ert svolítið að velja verkefnin sjálf, sem ég er að gera og vel hvar ég er að leggja orkuna mína, þá hef ég fengið rosalega mörg tækifæri til að sýna af mér mjög ólíkar hliðar.“
Hún hafi leikið sólbekkjarstofustúlku, áhrifavald, verðandi brúði, lögreglukonu, skrímsli og vampíru með skalla. „Ég hef fengið að vera ótrúlega margar týpur, sem er mjög skemmtilegt.“
Mestan lærdóm hefur hún þó dregið af því hvernig hún fái greitt fyrir að vera sjálfstætt starfandi. „Sem ég fæ ekki-spoiler alert. Ég er bara að gera þetta af ástríðu. En hvernig ætla ég þá að fjármagna ástríðuna mína?“
Það geri hún með því að vera í hlutastarfi og fara sparlega með peningana sína. En hún hafi líka þurft að læra að markaðssetja verkin. „Sem mér finnst svo leiðinlegt en maður þarf að ljúga að sjálfum sér að það sé gaman. Af því að það gengur ekki að maður sé að búa til helling af leikhúsi og góðu leikhúsi, en svo þarf maður að reyna að fá fólk til að koma og sjá það.“ Það þykir henni erfiðast. Hún vilji líka passa að vera heiðarleg svo fólk viti hverju það eigi að búast við.
Úr sýningunni Velkom Yn sem sýnt var í Afturámóti. Helga Salvör Jónsdóttir og Hólmfríður Hafliðadóttir. Aðsend/Afturámóti
Ætlaði að bjarga unglingunum
Hólmfríður hefur skrifað tvo eftirtektarverða einleiki sem fjalla um hugarheim og samskipti ungmenna, Flokkstjórinn og Þegar við erum ein. „Ég er gargandi klisja. Ég er að gera leikhús til að bjarga heiminum, það er bara þannig.“
Að hennar mati er leikhúsið græðandi og getur verið staður til að tala um hluti og ná til fólks. „Báðar þessar sýningar fjalla svolítið um samkennd. Flokkstjórinn fjallaði brjálæðislega mikið um samkennd og eitraða menningu og hvernig við berum öll ábyrgð, í hópi, á að passa að menning verði ekki alltaf verri og verri og verri.“ Það verk skrifaði hún fyrir sex árum og sýndi fyrir nemendur í unglingavinnunni.
„Það verk skrifaði ég út frá því að ég hafði áhyggjur af því að við værum að missa tengslin við að þykja vænt um annað fólk. Það er mjög erfitt því stundum finnst manni annað fólk vera hálfvitar,“ segir Hólmfríður. Þá verði maður að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvers vegna maður láti annað fólk hafa svo mikil áhrif á sig.
„Ég skrifaði það verk út frá samkennd. Ég ætlaði að bjarga unglingunum,“ segir Hólmfríður.
Hefði sparað sér mikið hjartasár að heyra þetta
Útskriftarverkefni Hólmfríðar, Þegar við erum ein, fjallar um klám og skömm í nánum samböndum. „Og hvernig ungt fólk er með hugmyndir um hlutverk sín í samböndum sem stangast kannski á við hvert annað.“
Þetta þykir henni vera lykill að samskiptum milli kynjanna, nauðgunarmenningu, skömm, fantasíu og rómantík. „Þar lagði ég upp með að tala um hluti sem væru kannski ekki sagðir upphátt.“ Hólmfríður segist klárlega ætla finna þeirri sýningu farveg aftur því hún henti vel fyrir ungmenni. „Unglingurinn í mér hefði þurft á því að halda að heyra þetta. Þetta hefði sparað mér ótrúlega mikið hjartasár, að heyra þetta umræðuefni talað.“
Stendur með nafninu Tvíhleypan
Eins og fyrr segir leikur Hólmfríður í báðum verkum á Tvíhleypunni í kvöld. „Mér finnst það smá vandræðalegt en málið er að hann Snæbjörn Tjarnarbíósstjóri setur Gígju og Magga sviðshöfunda saman á eitt kvöld.“ Þau séu bæði ung og upprennandi og því yfirleitt að gera styttri verk sem erfitt sé að selja inn á ein og sér.
„Svo vill svo heppilega til að ég er ein uppáhaldsleikkona þeirra beggja,“ segir Hólmfríður sem hefur unnið heilmikið með þeim báðum. Í fyrstu var hún hikandi um að vera í báðum verkum en lét til segjast og er því búin að vera á fullu á tvöföldum æfingum fyrir kvöldið.
Þau hafi ákveðið að gera eitthvað meira úr því að hún tengi verkin tvö saman og nefndu viðburðinn því Tvíhleypuna. „Sem Gígju finnst ógeðslegt nafn en ég stend með því. Af því að forskeytið getur þá breyst í framtíðinni, getur orðið þríhleypan eða einhleypan. Vonandi þá verðum við komin með styrk.“ Hugmyndin er sú að önnur ungskáld geti sótt um styrk og haldið sams konar viðburð. „Þannig að núna erum við að gera þetta af ástríðu og alúð gagnvart leikhúsinu og þá kannski á næsta ári verður þetta aðeins stærra.“
Verðum sjálfhverf í eigin sársauka
Verkin sem sýnd verða eru Systir mín Matthildur eftir Gígju Hilmarsdóttur og Þöglar byltingar eftir Magnús Thorlacius. Það seinna fjallar um par á brúðkaupsdeginum sem talar við áhorfendasalinn um samband þeirra og sig sjálf. „Svo kemur Sólveig Lilja, fimm ára barnið þeirra, sem er ég.“
Það komi fljótt í ljós að þetta fólk sé kannski ekki mjög hamingjusamt saman. „Maður veltir fyrir sér af hverju þetta fólk er að gifta sig. Ég held að maður fái alveg svar við því á meðan maður horfir á þetta.“
„En það sem mér finnst þetta verk fjalla um er hvað við verðum sjálfhverf í eigin sársauka. Þegar við upplifum erfiðleika þá verðum við ótrúlega ein í því. Þá verður þetta barn, þessi þriðji aðili, hið raunverulega fórnarlamb þessara aðstæðna því foreldrarnir eru svo ótrúlega uppteknir af því sem þeir eru að upplifa.“ Þetta sé ekki af mannvonsku heldur sé auðvelt að yfirsjást fólkið í kringum sig þegar manni líður illa.
„Barnið er svo áhugaverð viðbót inn í þessa blöndu. Það er eiginlega alveg út úr kú, og það að fullorðin manneskja sé að leika barn er líka smá út úr kú — þó ég reyni að gera það eins vel og ég get. Þetta er fyndið verk og svo á sama tíma er einhver taktur af sorg líka.“
„Það að fullorðin manneskja sé að leika barn er líka smá út úr kó, þó ég reyni að gera það eins vel og ég get.“ Aðsend/Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Fyrir hlé er verkið Systir mín Matthildur sem fjallar um systurnar Matthildi og Betu sem er vísun í bók Astrid Lindgren Madicken og svífur höfundurinn yfir þessu verki. „Mér finnst það vera af því að Matthildur og Beta eru þarna tvær fullorðnar konur sem eiga einhvers konar uppgjör varðandi æskuna og gera það í gegnum leiki og sækja mikið í Astrid Lindgren heiminn.“
„Ef þú ert einmana barn sem verður fyrir einhvers konar ofbeldi eða vanrækslu þá er Astrid Lindgren heimurinn rosalega aðgengilegur því hún veigrar sér ekki frá því að tala um erfiða hluti,“ segir Hólmfríður sem þykir líka áhugavert að para Þöglum byltingum við þetta verk því barnið sé rauður þráður í gegnum þau bæði.
Hólmfríður segir það vera unun að leika texta Gígju því hún sé svo góður höfundur. „Hún er brjálæðislega fyndin, hún er líka ótrúlega nösk og klár og það er svo margt í textanum sem ég er enn þá að uppgötva þrátt fyrir að hafa leikið þetta áður.“ Það sé alltaf ástæða fyrir öllum línum sem Hólmfríður kunni vel að meta.
Bæði verkin taki á erfiðum málefnum en þó á fyndinn hátt. Hólmfríður segir bæði Magnús og Gígju vera áhugaverð leikskáld sem vert sé að fylgjast með. „Af því að ég er leikhúsperri þá biðla ég til annarra leikhúsperra að vera stolt af því að hafa fylgst með fyrstu skrefum þessara leikskálda.“
Hólmfríður og Þórey Birgisdóttir í verkinu Systir mín Matthildur. Aðsend/Leifur Wilberg Orrason
Mesta hrós í heimi að fólk vilji vinna með henni aftur
Þegar Hólmfríður vinni með fólki í fyrsta skipti þá viti það væntanlega ekki alveg hvað hún geti gert. Hún hafi unnið mikið með sama fólkinu og það treysti henni allt fyrir því að hún geti komið með eitthvað nýtt á borðið. Það kunni allt að meta hve mikið hún hefur ræktað höfundinn í sér.
Það sé mjög gefandi fyrir hana að geta komið með listrænt innlegg og það gefi henni tækifæri á að sýna af sér nýjar hliðar. „Mér finnst mesta hrós í heimi að einhver vilji vinna með mér aftur. Mér finnst það vera merki um það að ég hafi staðið mig vel.“ Henni þyki þó líka gaman að vinna með fólki í fyrsta skipti, það séu kostir og gallar við bæði. „Ég er náttúrulega bara að tralla og trítla og elti það sem mér finnst gaman.“
Hólmfríður segist vera orðin spennt fyrir kvikmyndaleik sem henni hafi alltaf þótt svolítið óhugnanlegur en nú hlakki hún til að takast á við það. Sérstaklega í ljósi þess að hún vilji bjarga heiminum þá sé kvikmyndaformið auðveldari miðill til að ná athygli fleira fólks.
„Það er næsti draumur en ég er bara að lifa dag frá degi. Svo lengi sem ég er í stækkun og svo lengi sem það er gaman, þá er ég glöð. Ég hætti ekki að vinna í þessu og stækkuninni fyrr en ég er orðin 79 ára. Þá hætti ég og þá mun ég ekki læra neitt nýtt og þá mun ég deyja.“
Anna María Björnsdóttir ræddi við Hólmfríði Hafliðadóttur fyrir menningarvef RÚV.
Nafnalisti
- Anna María Björnsdóttirtveggja barna móðir, eiginkona, kvikmyndargerðarkona og lífrænn neytandi
- Astrid Lindgrensænskur rithöfundur
- Astrid Lindgren Madicken
- Betasystkini
- Gígja Hilmarsdóttirviðskiptafræðingur
- Hafsteinn S
- Hafsteinn Snær Þorsteinssonljósmyndari
- Helga Salvör Jónsdóttir
- Hólmfríður Hafliðadóttir
- Kristbjörg Kjeldleikkona
- Leifur Wilberg Orrason
- Maggihjartalag, og besta faðmlagið
- Magnús Thorlaciustónlistarmaður
- Matthildursöngleikur
- Snæbjörn Tjarnarbíósstjóri
- Sólveig Lilja
- Velkom Yn
- Vilberg Andri Pálssonlag
- Þórey Birgisdóttirdanshöfundur verksins
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 2165 eindir í 121 málsgrein.
- Það tókst að trjágreina 106 málsgreinar eða 87,6%.
- Margræðnistuðull var 1,67.