Veðmál á leik á Íslandi vöktu miklar grunsemdir
Sindri Sverrisson
2025-04-04 09:59
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Fjórir leikmenn voru kærðir vegna gruns um hagræðingu úrslita í leik í 2. deild karla á Íslandi í fyrra. Þeir voru allir úrskurðaðir saklausir, af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.
Leikurinn fór fram í ágúst á síðasta ári en ekki kemur fram í úrskurðinum hvaða lið mættust eða hvaða leikmenn voru kærðir.
Ljóst er að sönnunarbyrði í svona málum, þar sem leikmenn eru sakaðir um að hafa viljandi haft óeðlileg áhrif á úrslit leikja til að hagnast, er afar erfið.
Var það niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar að ekki lægi fyrir fullnægjandi sönnun þess að leikmenn hefðu gerst brotlegir og meðal annars tekið fram að ekki væri hægt að draga neinar ályktanir út frá skoðun á myndbandsupptöku.
Í úrskurðinum kemur fram að KSÍ hafi upphaflega fengið ábendingu um að mikið hefði verið veðjað á það, eftir 40. mínútu leiksins, að skoraður yrði meira en ákveðinn fjöldi marka. Öll mörk leiksins komu í seinni hálfleik.
Samantektir frá Genius Sport og Sportradar, í gegnum UEFA, staðfestu þetta. Samkvæmt GS var mikið veðjað á sigur annars liðsins með tveimur mörkum eða fleirum, og að fimm mörk eða fleiri yrðu skoruð í leiknum.
Veðbankinn Pinnacle lokaði fyrir veðmál í beinni áður en leik lauk, sem bendir til þess að áhyggjur hafi verið af því að eitthvað gruggugt væri á svæði. Samkvæmt Sportradar jukust veðmál mikið á að minnsta kosti þriggja marka sigur og að minnst fimm mörk yrðu skoruð, þrátt fyrir að staðan væri markalaus í hálfleik. Lokaði veðbankinn Bet 365 fyrir veðmál í beinni á 69. mínútu leiksins.
Bæði GS og Sportradar greindu atvik leiksins og samkvæmt greiningu GS voru atvik í leiknum þar sem hinir kærðu komu við sögu sem þóttu sérstök, meðal annars með hliðsjón af varnartilburðum, staðsetningu og ákvörðunum leikmanna. Ekki þótti þó sannað að leikmenn væru viðriðnir eitthvað misjafnt.
Leikmennirnir fjórir kváðust allir saklausir og bentu til að mynda á að fótbolti væri hraður leikur þar sem mistök ættu sér óhjákvæmilega stað.
Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar í heild sinni.
Nafnalisti
- Bet 365veðmálafyrirtæki
- Genius Sportfyrirtæki
- GSung kona á uppleið
- Pinnacleveðmálafyrirtæki
- Sportradarfyrirtæki
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 342 eindir í 16 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 16 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,79.