Sæki samantekt...
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í sjö mánaða fangelsi fyrir innflutning á tæplega hálfu kílói af kókaíni til landsins.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur manninum, sem er erlendur ríkisborgari, 10. mars. Þar var hann ákærður fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa mánudaginn 27. janúar á þessu ári staðið að innflutningi á samtals 484,50 grömmum af kókaíni með styrkleika 69–89%. Kókaínið var ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Kom til landsins með flugi frá Amsterdam
Maðurinn flutti fíkniefnin til Íslands sem farþegi með flugi frá Amsterdam í Hollandi til Íslands. Efnin hafði hann falin innvortis.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 18. mars en var birtur í dag, að maðurinn hefði játað sök við þingfestingu málsins.
Héraðsdómur segir að engra gagna njóti um að maðurinn hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Af rannsóknargögnum málsins verði ekki séð að hann hafi verið eigandi fíkniefnanna eða að hann hafi tekið þátt í skipulagningu á innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.
Aðkoma hans ómissandi liður í ferlinu
„Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að aðkoma hans var ómissandi liður í því ferli að koma efnunum í söludreifingu hér á landi. Að virtum þessum atriðum, dómaframkvæmd og magni og styrkleika þeirra efna sem brot ákærða tekur til þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt vegna málsins frá 27. janúar 2025.“
Þá var maðurinn dæmdur til að greiða rúmar tvær milljónir króna í sakarkostnað. Héraðsdómur gerði fíkniefnin enn fremur upptæk.
Nafnalisti
- Héraðsdómur Reykjanessstjúpdóttir hans um tíma
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 279 eindir í 16 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 13 málsgreinar eða 81,3%.
- Margræðnistuðull var 1,60.