Trump dregur úr völdum Musk eftir hitafund
Magnús Jochum Pálsson
2025-03-08 15:48
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Donald Trump kallaði saman ráðherra sína á fund á fimmtudag til að ræða DOGE, sparnaðarstofnun Elons Musk. Upp úr sauð á fundinum milli Musk og ráðherranna Marco Rubio og Sean Duffy. Forsetinn sagði að teymi Musk myndi framvegis aðeins hafa ráðgefandi hlutverk.
Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um fundinn sem miðillinn byggir á fimm heimildarmönnum sínum.
DOGE er stofnun sem ríkisstjórn Trump stofnaði þann 20. janúar 2025 með því að breyta USDS (United States Digital Service) í USDOGETO (U.S. DOGE Service Temporary Organization). Verkefni stofnunarinnar er að skera niður í opinberum stofnunum og setti Trump tæknimógúlinn Musk yfir stofnuninni.
Á fundinum á Musk að hafa sakað Marco Rubio utanríkisráðherra um að skera ekki nægilega mikið niður í ráðuneytinu. Hann bætti síðan við að kannski hafi eina manneskjan sem Rubio rak verið fulltrúi DOGE í ráðuneytinu.
Rubio, sem ku hafa verið óánægður með Musk frá því að stofnunin USAID var lögð niður, svaraði Musk víst fullum hálsi og spurði hann út í þá 1.500 starfsmenn ráðuneytisins sem fóru á snemmbúin eftirlaun. Hann hafi síðan hæðnislega spurt hvort ætti að ráða þá aftur til að reka enn á ný. Rubio hafi svo greint frá áætlunum sínum við endurskipulagningu ráðuneytisins.
Musk á þá að hafa sagt Rubio vera „flottan í sjónvarpi“ og ýjað að því að hann væri ekkert meira en það.
Á meðan hafi Trump fylgst með gangi mála hinn rólegasti en á endanum stigið inn í til að verja Rubio og sagt hann standa sig vel í erfiðu ráðuneyti.
Fækkun flugumferðarstjóra í skugga flugslysa
Áður en Musk reifst við Rubio á hann líka að hafa lent í orðaskaki við Sean Duffy, samgöngumálaráðherra.
Duffy hafði gagnrýnt tilraunir starfsmanna DOGE til að segja upp flugumferðastjórum sem væru þegar af skornum skammti innan Flugmálastjórnar landsins.
Hann hafi sett niðurskurðinn í samhengi við nýleg flugslys en samgönguráðuneytið hefur verið undir smásjá eftir tvö umfangsmikil flugslys síðustu tvo mánuði.
Skurðhnífur frekar en öxi
Eftir að hafa hlustað á báðar hliðar steig Trump inn í deilurnar og ítrekaði stuðning sinn við DOGE en sagði að héðan í frá myndu ráðherrarnir stjórna ráðuneytum sínum og teymi Musk myndi aðeins hafa ráðgefandi hlutverk.
Eftir fundinn skrifaði Trump færslu á samfélagsmiðilinn Truth Social þar sem hann sagðist hafa fyrirskipað ráðherrum sínum að vinna með DOGE að „kostnaðaraðhaldsaðgerðum“. Ráðherrarnir myndu kynnast og læra um starfsfólk og þannig komast að því hverjir ættu að vera og hverjir ættu að fara.
„Við segjum „skurðarhnífinn“ frekar en „öxina“,“ skrifaði hann í færslunni og vísaði þar greinilega í Musk sem mundaði vélsög um daginn til að sýna hvernig hann ætlaði að skera niður.
Á blaðamannafundi í gær var Trump spurður út í umfjöllun New York Times og hafnaði hann því að fundurinn hefði verið hitafundur.
„Enginn árekstur, ég var þarna, þú ert bara vandræðagemsi,“ sagði hann við blaðamanninn sem bar upp fyrirspurnina. „Elon og Marco kemur vel saman og þeir standa sig frábærlega,“ sagði hann einnig.
Nafnalisti
- DOGE Service Temporary Organization
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Elonþví orðinn 28 ára gamall milljarðamæringur
- Elons Muskauðkýfingur
- Marcofellibylur
- Marco Rubioöldungadeildarþingmaður
- New York Timesbandarískt dagblað
- Sean Duffy
- Truth Socialsamfélagsmiðill
- United States Digital Service
- USAIDbandarísk þróunarsamvinnustofnun
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 510 eindir í 25 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 21 málsgrein eða 84,0%.
- Margræðnistuðull var 1,63.