Ásthildur Lóa segir af sér ráðherraembætti
Alexander Kristjánsson
2025-03-20 18:35
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Ásthildur Lóa Þórsdóttir barnamálaráðherra ætlar að segja af sér ráðherraembætti en sitja áfram á þingi. Hún greindi frá þessu í viðtali við fréttastofu fyrir skemmstu.
Fréttastofa greindi frá því í kvöld að hún hefði, fyrir þremur áratugum, átt í ástarsambandi við 15 ára pilt og eignast með honum son. Piltinum kynntist hún þegar hún leiddi kristilegt unglingastarf. Barnsfaðir hennar sakar hana um tálmun en Ásthildur Lóa hafnar þeim ásökunum í viðtalinu. Ásthildur Lóa veitti fréttastofu viðtal í kvöld eftir að frétt birtist um málið.
Ásthildur segist hafa rætt málið við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. „Forsætisráðherra skildi að þetta var ekki alveg eins og það hljómaði,“ segir Ásthildur Lóa.
Hún hafi upplýst forsætisráðherra að hún hyggist segja af sér ráðherraembætti.
„Þetta persónulega mál mitt sem er orðið 35 ára gamalt á ekki að skyggja á þau góðu störf sem ríkisstjórnin er að gera. Þau eru mikilvægari en málefnin sem ég er að vinna að inni í menntamálaráðuneyti, sem ég sé mjög eftir að geta ekki klárað,“ segir hún.
Ekki sama manneskjan og hún var þá
Ásthildur Lóa segir að málið snúist ekki aðeins um „kaldar staðreyndir“ heldur ýmislegt mannlegt. Hún hafi ekki höndlað aðstæður á sínum tíma. „Ég er ekki sama manneskjan og ég var þegar ég var 22 ára gömul,“ segir hún.
Hún telur það ekki mistök að hafa tekið við ráðherraembættinu með þessa sögu á bakinu enda hafi hún unnið með börnum allan sinn feril.
Aðspurð segir Ásthildur Lóa að hún hafi ekki brotið á drengnum. Spurð hvort henni þyki sambandið hafa verið eðlilegt, svarar hún því þó neitandi.
„Mér fannst það ekki eðlilegt á þeim tíma heldur. Hann var ofboðslega hrifinn af mér, alveg sama hvað ég reyndi að komast undan þá gekk það ekki,“ segir hún.
Þá segir hún að samfélagsumræðan hafi verið önnur á þessum tíma og aldursmunur sem þessi ekki óalgengur, þótt oftast væru kynjahlutverkin öfug.
Sýnt verður úr viðtalinu við Ásthildi Lóu í sjónvarpsfréttum klukkan 19. Þá verður viðtalið sýnt í heild sinni í Kastljósi í kvöld.
Nafnalisti
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Kristrún Frostadóttirformaður
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 354 eindir í 23 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 19 málsgreinar eða 82,6%.
- Margræðnistuðull var 1,59.