Óttast Trump og tollastríðin
Magnús Geir Eyjólfsson
2025-04-01 13:22
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Áhrifin af stigmögnuðum tollastríðum gætu orðið líkt og í covid. Seðlabankastjóri segir íslenskt hagkerfi í góðri stöðu til að takast á við áföll.
Þjóðarleiðtogar og seðlabankastjórar úti um allan heim bíða með öndina í hálsinum eftir að Donald Trump tilkynni á morgun hvaða ríki fá á sig tolla og hversu háa. Viðbúið er að þau ríki sem verða fyrir barðinu á tolllablæti Trumps svari í sömu mynt.
Þetta var meðal annars rætt á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjóri kynntu nefndinni skýrslu fjármálastöðugleikanefndar.
Jafnvel þótt Ísland lendi ekki í skotlínu Trumps er óhjákvæmilegt að áhrifanna gæti hér, enda hafa tollastríð mjög neikvæð áhrif á hagvöxt í heiminum, sem er afleitt fyrir lítið og opið hagkerfi eins og Ísland. Enda sagði seðlabankastjóri að helsta ógnin sem stafaði af íslensku hagkerfi væri hörð lending eftir áfall í utanríkisviðskiptum. „Við gengum í gegnum covid-áfallið og það er kannski ekki að öllu leyti ólíkt því sem gæti gerst núna að mörgu leyti.“
Ásgeir segir að Ísland hafi frá árinu 2008 búið sig undir ytri áföll. Að mörgu leyti sé staðan góð. Bankarnir, fyrirtækin og heimilin í landinu séu almennt lítið skuldsett, meðal annars vegna þess að Seðlabankinn hafi sett strangar kröfur um eiginfjárhlutfall bankanna. Það sé einna helst skuldsetning ríkissjóðs sem sé áhyggjuefni en hann hafi þegar tekið á sig skell vegna covid og Grindavíkur.
Tómas varaseðlabankastjóri segir að eina leiðin til að lifa með óvissunni sé að auka seiglu hagkerfisins. Í því samhengi sé sérstaklega mikilvægt að tryggja innlenda greiðslumiðlun.
„Ég held að atburðir bæði austan hafs vestan geri það ennþá mikilvægara en áður að við klárum þá vinnu sem allra fyrst. Og ég held að það sé erfitt að efast um mikilvægi hennar að fjölga leiðum fyrir fólk að greiða á þessum óvissutímum.“
Nafnalisti
- Ásgeir JónssonSeðlabankastjóri
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Tómas Brynjólfssonskrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 310 eindir í 16 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 14 málsgreinar eða 87,5%.
- Margræðnistuðull var 1,63.